Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 18:12:00 (5413)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa sett á laggirnar nefnd til að kanna réttindi og skyldur þeirra leiðsögumanna sem eru í hópferðum hér á landi. Ég tel það mjög mikilvægt og sérstaklega ljósi þeirra atburða sem ég vitnaði til og gerðust hér síðasta sumar og eru því því miður ekkert einsdæmi. Hann tók það fram að hann áttaði sig ekki á því hvað ég var að ræða um varðandi sérleyfishafa en í 20. gr. laganna, ef ég hef talið rétt, þar sem 22. gr. er síðasta greinin í kafla núgildandi laga um almennar ferðaskrifstofur, segir orðrétt, með leyfi forseta, og vona ég að ég sé með þetta nákvæmlega rétt: ,,Ráðuneytið setur reglur um á hvern hátt eigendum og umráðamönnum samgöngutækja er heimilt að skipuleggja og selja farseðla í ferðir með slíkum samgöngutækjum þannig að fæði eða næturgisting fylgi.`` Síðan koma einhver fleiri ákvæði.
    Eftir því sem mér skilst hefur það gerst æ oftar að eigendur og umráðamenn samgöngutækja skipuleggja ferðir þar sem innfalin er gisting og matur og allt sem fólk þarf á að halda í svo og svo langan tíma án þess að vera í raun og veru með leyfi ferðaskrifstofu. Ég var eingöngu að spyrja um þetta atriði. Ég vil hins vegar fagna því ef gert er ráð fyrir að allir fari undir einn hatt því ég held að það mjög eðlilegt að allir sitji við sama borð varðandi þessi atriði. Að öðru leyti var ég ekki að segja að ég teldi að þeir ættu að vera undir sérstöku ákvæði heldur eingöngu að spyrja af hverju áætlað er að fella þetta burtu úr núgildandi lögum. Hins vegar vil ég skilja orð hæstv. ráðherra þannig að það sé meiningin að allir séu settir undir sama hatt, hvaða stöðu þeir hafa innan þessa ferðamálageira, þannig að allir þurfi að fullnægja einhverjum ákveðnum skilyrðum til þess að geta rekið ferðaþjónustu sem fellur undir þennan kafla laganna.