Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 18:15:00 (5414)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá atriði, vegna ræðu hæstv. ráðherra, til viðbótar því sem kom fram í fyrri ræðu minni um málið. Þær ábendingar sem hér er verið að gera verða væntanlega teknar til athugunar af hv. samgn. og það sem hér er mælt varðandi einstök atriði frv. varða athugunarefni sem nauðsynlegt er að nefndin fari yfir og fjalli um. Varðandi 1. gr. frv. og fleiri þætti þá nefndi ráðherra það réttilega og tók undir það að þar væri að finna ákvæði sem væru tekin út úr því frv. um ferðaþjónustu sem strandaði í þinginu í fyrra. Það er hins vegar svo að skilgreiningum er breytt og ég vakti athygli á því varðandi það sem var áður í 22. gr. um ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Þar er skilgreiningum breytt og þessi áhersla á innlenda og erlenda ferðamenn tekin upp í fyrsta lið en undantekin ferðalög til útlanda varðandi ferðaskipuleggjendur. Hv. 2. þm. Suðurl. vék að þessu atriði réttilega í sinni ræðu og benti þarna á ósamræmi í skýringum við lagagreinina og hins vegar lagatextann. Svona atriði er auðvitað nauðsynlegt að fara yfir.
    Varðandi hina þættina, ferðaumboðssölu og upplýsinga- og bókunarkerfi, sem við töldum ástæðu til að taka inn í frv. sem lá fyrir næst síðasta þingi, finnst mér full þörf á því að fara yfir. Ég vil ekki fullyrða að það sé til mikilla bóta að hafa slíkar skilgreiningar inni en þó vorum við sannfærð um það sem fórum yfir það með fulltrúum ferðaskrifstofa, því náið samráð var við þá haft, og um málið var fjallað af nokkurri þekkingu svo vægt sé til orða tekið. Þar var m.a. fulltrúi tilnefndur af þingflokki Alþfl. í nefndinni sem undirbjó frv. og þegar hefur verið nefndur hér. Nefndin undirbjó þau atriði sem m.a. snúa að þessum upplýsinga- og bókunarkerfum og við töldum að við værum að vinna þarft verk með því að setja þau inn í frv. með þeim hætti sem gert var. M.a. af þessum ástæðum vil ég biðja hæstv. ráðherra að fara yfir það í fullri vinsemd hvort ekki sé skynsamlegt að taka þennan þátt mála einnig inn og ekki held ég að það þurfi að trufla þau markmið sem hann nefnir máli sínu til stuðnings varðandi neytendavernd þótt þarna væri tekið á málum með þessum hætti.
    Varðandi 2. gr. frv. sem við höfum nokkuð rætt um og opnunina gagnvart útlöndum, aðgengi útlendinga til að yfirtaka hér eða setja á fót rekstur, þá er það vissulega alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hér var sett almenn löggjöf á síðasta þingi um þessi efni. Ég var ekki stuðningsmaður þeirrar löggjafar, ég get nefnt það hér, vegna þess að ég taldi að þar væri allt of langt gengið, m.a. varðandi rekstur eins og ferðaþjónustu. En það breytir ekki því að að sjálfsögðu þarf að athuga hvað mönnum leyfist sem eru talsmenn samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Hvað leyfist, þrátt fyrir slíkan samning, að setja í lög? Síðan er það annað úrlausnarefni hvað menn vilja gera á grundvelli þess. Þessi almenna regla um að mismuna ekki eftir þjóðerni gerir mönnum kleift að setja búsetuskilyrði sem ætti að vera hægt í þessu samhengi. Raunar kemur það nokkuð á óvart ef það eru orðin sjónarmið talsmanna þessa rekstrar og Félags ísl. ferðaskrifstofa að taka þær hindranir sem allra mest niður því þau sjónarmið voru alls ekki ráðandi, heldur þvert á móti, þegar við þá var rætt fyrir tveimur árum síðan eða svo.
    Ég er ekki að fullyrða neitt um þau efni en ég vek athygli á þessu og tel nauðsynlegt að menn gangi með opin augun inn í það landslag sem þarna er verið að opna með þessum ákvæðum.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að taka mér frekari tíma til að ræða fleiri þætti, ég tel ekki þörf á því. Ég ítreka það viðhorf mitt að ég tel ekki til bóta, nema síður sé, að skipta lögum um ferðaþjónustu upp með þeim hætti sem hér er að stefnt. Það verður ekki heldur til að greiða fyrir meðferð þingsins á þessum málum. Stundum hefur verið nefnt að það hefur verið erfiðara að breyta slíkum lögum ef þau eru í samhengi flutt og í einum lagabálki. Það tel ég ekki vera röksemd, það hefur ekki verið nefnt núna en ég hef heyrt það. Auðvitað getum við hvenær sem er tekið á einstökum þáttum laga hvort sem þau eru í samsettu formi eður ei.
    Um málið að öðru leyti vil ég segja að allt það sem mætti verða til bóta frá gildandi löggjöf ber að sjálfsögðu að athuga. Það gildir um þetta mál. Aðalatriðið er að það fái vandlega athugun. Óskir margra, sem hafa tekið þátt í umræðunni, eru þær að menn reyni að varðveita ákveðna heildarsýn til ferðaþjónustunnar og að styrkja stöðu Íslendinga, íslenskra aðila, sem eru þar þátttakendur í rekstri svo sem verða má, þannig að hagur landsmanna verði sem mestur. Jafnframt því verða menn að gæta að þeirri auðlind, náttúru Íslands, sem við erum í raun að selja því erlenda fólki sem sækir okkur heim. Menn verða að gæta þess að hún spillst ekki heldur haldi gildi sínu og verði áfram sú uppspretta sem þarf að vera ef rekstur af þessum toga á að geta dafnað og blómgast um langa framtíð. Það hlýtur að vera okkar markmið.