Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 12:33:00 (5425)

     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér að ræða almennt um eignarráð á landi né þá dóma sem fallið hafa ellegar skoðanir forustumanna Sjálfstfl. frá fyrri tíð. Hins vegar gat ég um það í minni ræðu, sem stendur óhaggað, að þegar hv. þm. ræddi almennt um eignarrétt eða eignarráð á landi, þá kallaði hann eignarráð ,,sem svo er kallað``, og hann hafði ekki neinar undantekningar á því. Og þetta fannst mér vera gert með þeim hætti að það væri verið að draga í efa þær lögmætu eignarheimildir sem víða hvar eru skjallega staðfestar.
    Þó að hann komi hér aftur og reyni að draga þetta yfir í það að hann hafi átt við einstök landsvæði sem deilur standa um og dómar hafa ekki úrskurðað einhverjum landeigendum í vil, þá er það bara seinni tíma túlkun af hans hálfu.