Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 13:10:01 (5430)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Um nokkurt skeið hefur það verið skoðun manna í heilbr.- og trmrn. að nauðsynlegt væri að endurskoða lagaákvæði um farsóttir og sóttvarnir. Fyrrv. heilbr.- og trmrh. skipaði því nefnd í október 1988 sem fékk það verkefni að endurskoða sóttvarnarlögin frá 1954, farsóttalögin frá 1958 og einnig ýmis sérlög um varnir gegn tilteknum smitsjúkdómum, svo sem berkalvarnalög frá 1939, lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978, með síðari breytingum, og lög um varnir gegn holdsveiki frá síðustu aldamótum.
    Í umrædda nefnd voru skipaðir Guðjón Magnússon, þáverandi aðstoðarlandlæknir, Haraldur Briem, sérfræðingur í smitsjúkdómum, Skúli Johnsen, borgarlæknir í Reykjavík, Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri í heilbrrn., og var hún ritari nefndarinnar, og Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, og var hann formaður nefndarinnar.
    Nefndin skilaði fullbúnu frv. á samt fylgiskjölum í september 1989 og var frv. lagt fram óbreytt frá tillögum nefndarinnar á 112. löggjafarþingi. Frv. náði ekki fram að ganga.
    Haustið 1990 endurskoðaði farsóttanefnd frv. m.a. með hliðsjón af þeim umsögnum sem borist höfðu Alþingi. Í farsóttanefnd eiga sæti Ólafur Ólafsson landlæknir, sem er formaður, Haraldur Briem, sérfræðingur í smitsjúkdómum, Skúli Johnsen borgarlæknir, Ólafur Steingrímsson yfirlæknir, Hrafn Tuliníus prófessor, Margrét Guðnadóttir prófessor og Sigurður B. Þorsteinsson læknir. Farsóttanefnd gerði nokkrar breytingar á frv. og var það lagt fram í þeirri mynd sem farsóttanefnd, að Margréti Guðnadóttur undanskilinni, varð sammála um. Sú framlagning frv. átti sér stað á vorþingi 1991. Frv. náði ekki heldur fram að ganga þá.
    Frv. er nú lagt fram í þriðja sinn, nánast óbreytt frá því sem það var lagt fram á 113. löggjafarþingi, að öðru leyti en því að í þessu frv. er gert ráð fyrir að kostnaður vegna sóttvarna verði greiddur eins og annar sjúkrakostnaður.
    Þau nýmæli sem koma fram í þessu frv. frá fyrri lögum eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er gerð tillaga að rammalöggjöf þar sem sameinuð eru í ein lög ákvæði um farsóttavarnir, sóttvarnir og varnir gegn tilteknum smitsjúkdómum. Hér er fylgt fordæmi annarra nágrannaþjóða okkar, svo sem Norðurlanda og Bretlands. Verði frv. að lögum mun það hafa í för með sér umtalsverða lagahreinsun þar sem gert er ráð fyrir að a.m.k. sjö gildandi lög falli úr gildi við setningu laganna.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ábyrgð á sóttvörnum verði áfram hjá embætti landlæknis. Samkvæmt gildandi lögum eru héraðslæknar sóttvarnalæknar hver í sínu héraði og auk þess skulu sóttvarnanefndir starfa í öllum kaupstöðum og er tollstjóri á hverjum stað formaður. Í ljósi gerbreyttra samgangna þykir eðlilegt að fella sóttvarnanefndirnar niður. Jafnframt þessu þykir nauðsynlegt að hjá embætti landlæknis verði ráðinn til starfa sérstakur læknir sem hafi sem aðalstarf að vinna að sóttvarnamálum. Þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja samræmi í sóttvörnum um landið allt en að sjálfsögðu bera héraðslæknar eftir sem áður ábyrgð á sóttvörnum hver í sínu héraði undir yfirstjórn sóttvarnalæknis og heilsugæslulæknar og aðrir læknar eftir því sem við á.
    Í þriðja lagi er það nýmæli að um skýrslugerð vegna smitsjúkdóma er fylgt mjög sambærilegum reglum og nú þegar gilda samkvæmt hinum ýmsu lögum um þessi efni en þó eru ákvæði um skýrslugerð mun skýrari í frv. en í gildandi lögum.
    Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til að fjalla ítarlega um frv. að þessu sinni. Það var gert við fyrstu framsögu þess auk þess sem breytingarnar sem gerðar hafa verið eru ekki þess eðlis að efni þess hafi breyst að neinu verulegu marki.

    Ég vil þó sérstaklega undirstrika þá lagahreinsun sem samþykkt þessa frv. hefur í för með sér. Ef frv. verður að lögum falla eftirtalin lög úr gildi:
    1. Berklavarnalög frá 1939.
    2. Lög um ráðstafanir til varnar gegn fýlasótt frá 1940.
    3. Lög um eyðing á rottum frá 1945.
    4. Lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki frá 1953.
    5. Sóttvarnarlög frá 1954.
    6. Farsóttalög frá 1958.
    7. Lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978, með breytingum frá árinu 1986.
    Með frv. er eitt fskj. þar sem taldir eru upp þeir sjúkdómar sem vænta má að reglugerð geri ýmist tilkynningarskylda eða skráningarskylda.
    Með frv. sem lagt var fram 1989 voru ítarleg fskj. um þróun íslenskrar löggjafar á þessu sviði sem og um erlenda löggjöf. Ekki var talin ástæða til að endurprenta þessi fskj. að þessu sinni.
    Vegna umsagnar fjárlagaskrifstofu fjmrn. vil ég taka fram að þar er ekki tekið tillit til þess að vísir að göngudeildum eins og frv. gerir ráð fyrir er þegar fyrir hendi. Sömuleiðis munu ýmis sérgreind embætti lækna leggjast niður. Við kostnaðarmat er heldur ekki tekið tillit til þessa. Ég tel því að mat fjárlagaskrifstofunnar á kostnaði vegna frv. sé of hátt.
    Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir því lagafrv. sem hér er lagt fram. Ég tel að hér hafi vel til tekist um að endurskoða og einfalda löggjöf um smitsjúkdóma og sóttvarnir og flestir eru sammála um að löngu var tímabært að gera breytingar á lagaákvæðum okkar í samræmi við breytta tíma.
    Það er von mín að þetta frv. fái jákvæðar undirtektir á Alþingi og fái afgreiðslu nægilega fljótt til þess að það geti gengið í gildi eins og gert er ráð fyrir í ársbyrjun 1993.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég svo til að frv. verði afgreitt til 2. umr. og vísað til hv. heilbr.- og trn.