Almannatryggingar

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:33:00 (5445)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir frv. til laga um breyting á 15. gr. laga um almannatryggingar. Frv. sem flutt er af öllum þingkonum Kvennalistans felur í sér breytingu á upphæð og ákvörðun barnalífeyris og er markmiðið með frv. að tengja barnalífeyri betur raunveruleikanum en raunin er í dag.
    Upphæð barnalífeyris var síðast ákveðin með lögum nr. 96/1971 en það ár mun barnalífeyrir hafa hækkað um 40%. Þá var jafnframt ákveðið að hann sem og aðrar bætur og greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins skyldu taka breytingum í samræmi við þær breytingar sem yrðu á launum í almennri verkamannavinnu. Upphæð barnalífeyris er í dag 7.425 kr. á mánuði.
    Samkvæmt 15. gr. almannatryggingalaga er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Ef þetta á við um bæði foreldri er greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Þá er barnalífeyrir greiddur með börnum sem ekki eru feðruð og í ákveðnum tilvikum með börnum ellilífeyrisþega og refsifanga.
    Barnalífeyrir er með öðrum orðum greiddur með börnum þegar annars eða beggja framfærenda nýtur ekki við eða þegar aðstæður framfæranda eru með þeim hætti að þeim er ekki unnt að uppfylla framfærsluskyldu sína.
    Síðast en ekki síst er barnalífeyrir notaður sem viðmiðun um meðlagsgreiðslur eða eins og segir í 2. mgr. 16. gr. barnalaga, með leyfi forseta:
    ,,Í meðlagsúrskurði má aldrei ákveða lægri meðlagsgreiðslu en barnalífeyri nemur, eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma í lögum um almannatryggingar, . . .  ``
    Þannig er ákvæði barnalaganna og þess vegna setur barnalífeyririnn neðri mörk meðlagsins.
    Af þessu má ljóst vera að barnalífeyrir er framfærslueyrir barna og ætti því, ef allt væri með felldu, að taka mið af raunverulegum framfærslukostnaði þeirra. Því fer hins vegar víðs fjarri að svo sé í dag. Við þurfum ekki annað en að skoða einfalt reikningsdæmi til að sjá að svo er ekki. Við skulum gefa okkur að forsjáraðili barnsins leggi 7.425 kr. til framfærslu þess, sem er eins og barnalífeyririnn er í dag eða meðlagið. Meðlagið, eða barnalífeyrir eftir atvikum, nemi síðan 7.425 kr. Það er þá framlag hins aðilans. Mæðralaun eru 4.653 kr. og barnabætur 7.970 kr. á mán. ef barn er undir sjö ára aldri en 5.560 kr. ella. Að öllu samanlögðu hefur barnið til framfærslu 27.473 kr. á mánuði ef það er

undir sjö ára aldri en 25.063 kr. ella.
    Ýmsum kann að þykja þetta allnokkuð en það vantar engu að síður talsvert upp á að upphæðin nægi barni til framfærslu og það sem upp á vantar verður forsjáraðili barnsins að leggja fram sem í langflestum tilvikum er móðirin.
    En hvað kostar þá að framfæra barn? Um það má sjálfsagt deila en mun nær lagi væri að kanna það og í þessu frv. er raunar lagt til að það verði gert og sú könnun notuð sem grundvöllur fyrir ákvörðun um upphæð barnalífeyris.
    Félag einstæðra foreldra lét gera slíka könnun árið 1986 og það má vel notast við hana til að gera sér einhverjar hugmyndir um framfærslukostnað barna því ólíklegt er að hlutföll hafi raskast svo nokkru nemi síðan hún var gerð. Ef upphæðir í könnuninni sem birt er sem fskj. með þessu frv. eru framreiknaðar til dagsins í dag kemur í ljós að framfærslukostnaður tveggja ára barns einstæðs foreldris er um 31.700 kr. á mánuði, sex ára barns um 34.700 kr. og tólf ára unglings um 56.000 kr. á mánuði. Inn í þessar tölur er ekki reiknaður kostnaður vegna íbúðarhúsnæðis, ljóss, hita og þvotta. Á þessum tölum sést að forsjáraðili barnsins þarf að leggja 4.200 til 31.000 kr. á mánuði til framfærslu barnsins umfram það sem meðlagsgreiðandi leggur til.
    Það er dýrt að eiga börn í íslensku nútímaþjóðfélagi, svo dýrt að það jaðrar við að vera munaður. Þannig ætti það auðvitað ekki að vera því barnsfæðingar eru forsenda þess að íslenskt samfélag fái staðist til frambúðar.
    Ef við sem hér erum á þingi viljum búa við efnahagslegt og félagslegt öryggi í ellinni þarf að gera ungu fólki kleift að eignast börn og koma þeim til manns. En það er reyndar önnur saga og ekki sú sem ég ætlaði mér að segja hér í dag. Ég ætlaði að leyfa mér að fullyrða og benda þingmönnum á þá nöturlegu staðreynd að þeir sem hafa minnstan tilkostnað af börnum sínum í dag eru meðlagsgreiðendur. Hverjir aðrir komast af með að greiða 7.425 kr. til uppihalds barna sinna á mánuði? Ekki einstæðar mæður og ekki faðir eða móðir í sambúð. Foreldrar í sambúð sem vinna fulla vinnu utan heimilis þurfa að greiða um 25.000 kr. á mánuði fyrir dagvistun barnsins hjá dagmóður og þá er allt annað eftir. Og jafnvel þó að þeir greiddu aðeins fyrir fimm tíma vistun á leikskóla þá væri það eitt 7.300 kr. á mánuði.
    Þess má líka geta í þessu sambandi að meðlagið, eða barnalífeyririnn hrekkur ekki fyrir greiðslu dagvistargjalds sem nú er 8.600 kr. á mánuði í Reykjavík fyrir hina svokölluðu forgangshópa sem eru einstæðir foreldrar. Meðlagið er 7.425 kr., dagvistargjaldið 8.600 kr.
    Ég hef heyrt því fleygt að mörgum meðlagsgreiðendum þyki illa með sig farið og meðlagsgreiðslur hindri þá jafnvel í því að eignast nýja fjölskyldu. Þeir hafi hreinlega ekki efni á því.
    Guðmundur Ólafsson, fulltrúi í nefnd þeirri sem félmrh. skipaði til að skoða stöðu karla, líkti meðlagsgreiðandi karlmönnum við melrakka í nýlegu útvarpsviðtali. Sagði þá ekki hafa efni á öðru en að hírast í forstofuherbergjum vegna þeirrar byrðar sem meðlagið væri þeim. Illt ef satt væri og leiðir óneitanlega hugann að því hvað kalla eigi mæðurnar sem bera hitann og þungann af framfærslu barnanna og hafa að auki minni möguleika á að afla sér tekna en melrakkarnir í forstofuherbergjunum.
    Ótal kannanir sýna að einstæðir foreldrar eru almennt tekjulægri og búa við verri félagslegar aðstæður en aðrir hópar í þjóðfélaginu.
    Ég er reyndar með útskrift af þessu makalausa viðtali við hagfræðinginn Guðmund Ólafsson og fulltrúa í nefnd á vegum félmrn. um stöðu karla, en svo ég fari rétt með það sem hann er að segja þá er kannski rétt að leyfa þingmönnum að heyra hér aðeins tilvitnun í þetta viðtal, með leyfi forseta. Hagfræðingurinn segir:
    ,,Við vitum t.d. að launalágir karlmenn sem lenda í skilnuðum og eiga börn, að slíkur maður er nánast útlægur ger úr samfélaginu. Hann á fyrir höndum að hírast í forstofuherbergjum áratugum saman meðan hann er að vinna fyrir meðlögum og öðru þess háttar. Nú, þetta er náttúrlega allt annað fyrir launaháan karlmann en þennan launalága. Þá er þetta áreiðanlega óskaplega erfið staða fyrir þennan launalága og þegar rætt er um vanda

þessa hóps, þessara melrakka, sem verða nánast að liggja úti, eins og ég kalla, þá hafa menn tilhneigingu til að segja: Ja, þetta er hans persónulega vandamál og kemur okkur ekki við. En ef upp kemur eitthvað viðlíka í sambandi við konur þá er talað um kúgun karla á þessum hóp kvenna,`` segir Guðmundur Ólafsson.
    Mér er auðvitað ljóst eins og flestum öðrum að láglaunamenn munar um að greiða eitt, tvö og jafnvel þrjú meðlög á mánuði. Þá munar auðvitað um það. En ég held að það sé óhætt að fullyrða að láglaunamaðurinn sem greiðir meðlag sé samt betur settur fjárhagslega en láglaunamaðurinn sem fer með forræði eða framfærslu barna sinna. Meðlagsskylda föðurins getur vissulega gert honum erfitt fyrir að stofna fjölskyldu að nýju og eignast fleiri börn, en þá vaknar sú spurning hvort við höfum ríkari skyldum að gegna við þau börn sem við höfum þegar sett inn í þennan heim eða hin sem ófædd eru.
    Ég hef hér reynt að færa rök fyrir nauðsyn þess að hækka barnalífeyri og meðlög og færa upphæð þeirra nær raunverulegum framfærslukostnaði barna. Sú spurning vaknar óneitanlega hvernig á því standi að ríkisvaldið hafi haldið upphæð meðlags niðri á sama tíma og það hrósar sér af því alltaf annað slagið að vilja gera svo vel við einstæðar mæður, leiðréttir þá lítillega mæðralaunin og jafnvel barnabótaaukann og segir síðan: Við erum að vinna í þágu einstæðra mæðra.
    Ég hallast að því að ástæðan fyrir þessum tvískinnungi hjá ríkisvaldinu --- þ.e. það heldur barnalífeyrinum niðri meðan það setur einhverjar sposlur í mæðralaun og barnabótaauka --- liggi í því að hagsmunir ríkisvaldsins og meðlagsgreiðanda fari saman. Þeir samtvinnast í 15. gr. almannatryggingalaganna og 16. gr. barnalaganna vegna þess að ríkið getur ekki hækkað meðlagið nema með því að hækka barnalífeyrinn og þar með sín eigin útgjöld.
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir að árlegur barnalífeyrir verði ákvarðaður með öðrum hætti en nú er eða eins og segir í 1. gr. frv.:
    ,,Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal ákvarðaður af ráðherra eftir tillögum barnalífeyrisnefndar. Í nefndinni eiga sæti fimm fulltrúar, einn tilnefndur af ráðherra og er hann jafnframt formaður, einn tilnefndur af tryggingaráði, einn tilnefndur af Félagi einstæðra foreldra, einn tilnefndur af dómsmrh. og einn tilnefndur af Hagstofu Íslands. Nefndin skal meta kostnað við framfærslu barns að frádregnum bótum til einstæðra foreldra og miða tillögu sína við að barnalífeyrir nemi ekki lægri upphæð en sem nemur helmingi af kostnaði við framfærslu barns samkvæmt mati nefndarinnar. Ekki skal greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris.``
    Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þetta sé metið eftir ákveðnum reglum og barnalífeyrir ákvarðaður í framhaldi af því. Ég er að sjálfsögðu opin fyrir hvers konar breytingum á þessu frv. ef þær horfa í sömu átt, þ.e. að lagt verði mat á kostnaðinn við framfærsluna og að barnalífeyririnn nemi um helmingi framfærslukostnaðarins, þá er mér nokk sama hvernig það lítur út formlega séð að öðru leyti.
    En ég legg þetta frv. hér fram til umræðu og að henni lokinni legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.