Almannatryggingar

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:44:00 (5446)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að fram er komið frv. um þessi mál sem hefur að vísu verið lagt fram áður og eitt er víst að það getur orðið til þess að umræða hefjist um stöðu einstæðra foreldra í þessu landi. Það er alveg ljóst að margir þeir sem eru einir með börn eiga við verulega erfiðleika að stríða þar sem það liggur alveg fyrir að tvennar tekjur eru í raun nauðsynlegar til þess að reka eðlilegt heimili.
    Í landinu munu nú vera um 10.000 börn hjá öðru foreldri og það er ekki lítill hópur af börnum landsins undir 16 ára aldri, raunar undir 18 ára aldri, og það er staðreynd að staða þessa fólks er með öllu óviðunandi. Oftast eru það mæðurnar sem eru með börnin og vinna gjarnan tvöfalda vinnu, við þekkjum mörg dæmi þess, og staða slíks foreldris til þess að sinna uppeldisskyldum sínum er náttúrlega nánast engin.

    Hitt er svo annað mál að ég veit ekki hvaða afstöðu ég á að taka gagnvart hækkun meðlags. Víst má það eitthvað hækka vegna þess að það hefur staðið svo til í stað um árabil og sætir undrun hversu lítið þessi tala hefur hreyfst. En vissulega mætti leita annarra leiða til þess að rétta við stöðu einstæðra foreldra sem mér finnst samfélagið allt eiga að bera. Ég nefni t.d. að einstæðir foreldrar fengju einhverja verulega ívilnun í sköttum. Það er staðreynd að konur sem eru einar með börn mega hreint ekkert missa af tekjum sínum og hafa margar hverjar farið illa út úr því að leggja á sig kannski tvöfalda vinnu en verða svo að greiða fulla skatta af þeirri vinnu og eru þar með komnar í slæma sjálfheldu.
    Nú er ég svo sem ekki að vorkenna fólki að bera ábyrgð á börnum sínum og auðvitað þyrfti þar að vera sem allra mestur jöfnuður. Enginn mótmælir því að oftast hafa karlmenn verulega miklu hærra kaup heldur en konur og eiga þar með auðveldara að gegna sínum framfærsluskyldum. Ég veit ekki hvað umræddur hagfræðingur hefur á mánuði en ég hygg að menn á borð við hann ættu að hafa efni á því að borga nokkru hærra meðlag en nú er. Því að víst má líta á tölur um kostnað við uppeldi barna eins og hér er að sjá í könnun þeirri sem gerð var. En þar er ég ansi hrædd um að hafi gleymst að taka ýmislegt inn sem tilheyrir orðið uppeldi barna, ég nefni alls kyns aukagjöld, t.d. kostnað við hljómlistarkennslu, sem því miður er ekki enn þá að finna innan skólakerfisins þannig að þar er um stórfé að ræða og segir sig sjálft hvernig einstæð móðir er í stakk búin til þess að kosta kannski til 50.000 kr. á ári til þess að barn geti lært á hljóðfæri, sem nú er sem betur fer í æ meira mæli talinn sjálfsagður þáttur í uppeldi barna. Ég tala nú ekki um alls kyns hugðarefni og áhugamál sem börn einstæðra foreldra eiga auðvitað allan rétt á að stunda. Það er töluvert um það nú orðið að mikið kórastarf fer fram í skólum landsins. Þessir kórar eru síðan boðnir í ferðalög til útlanda og söngkeppi og ýmislegt slíkt og það er ekkert einfalt fyrir einstætt foreldri að bera kostnað af þessu. Venjulega verða foreldrarnir að greiða fargjöldin, jafnvel einhvern farareyri og þetta er auðvitað nær óleysanlegt fyrir einstæð foreldri. Og þá erum við komin að því að við erum að búa til stéttir í þessu þjóðfélagi sem eru verr settar en aðrar. Það er alveg tvímælalaust töluvert um það að börn einstæðra foreldra hér í landi fá ekki að njóta ýmislegs af því sem börn kjarnafjölskyldna njóta, einfaldlega af fjárhagsástæðum.
    Ég get alveg tekið undir það með hv. 10. þm. Reykv. að auðvitað bera foreldrar fyrst og fremst ábyrgð á þeim börnum sem þeir eru búnir að setja í þennan heim og verða kannski aðeins að draga úr barneignum ef nægar skyldur eru þegar fyrir hendi og meiri en þeir ráða við, en ekki viljum við nú að fólk eigi þess ekki kost að lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi þó að til skilnaðar hafi komið og fólk hafi ekki borið gæfu til að búa saman. En eins og verið er að kveða á um í því frv. til barnalaga sem hér liggur fyrir hinu háa Alþingi, þá viljum við auðvitað öll að báðir foreldrar beri sem allra mesta ábyrgð á börnum sínum hvort sem þeir kjósa að búa saman eða ekki.
    Ég held að í þessum málum þyrfti sú nefnd sem málið fær til meðferðar að skoða ekki aðeins hækkun meðlags heldur líka aðrar leiðir til að létta einstæðum foreldrum uppeldi barna sinna því að fyrst af öllu ber okkur að tryggja að öll börn í landinu sitji við sama borð og að ekki sé stór hópur landsins barna sem virkilega fer á mis við það sem annars þykir tilheyra að börn njóti.
    Það má t.d. ímynda sér börn utan Reykjavíkur sem eru send til framhaldsnáms í fjarlægum héruðum. Þau verða að búa á heimavist og mér er satt að segja algjörlega hulin ráðgáta hvernig það er leyst. Ég má segja að t.d. heimavistardvöl við Menntaskólann á Akureyri nú í ár er á fjórða hundrað þúsund yfir veturinn og það segir mér enginn að einstætt foreldri ráði við að greiða þetta. Ég tala nú ekki um ef barnið skyldi vera stúlka sem ekki getur haft þær tekjur sem strákar geta stundum aflað með því að fara á sjó eða í einhverja uppgripavinnu yfir sumartímann. Ég held að hér hljóti að vera óhjákvæmileg mismunun sem verður auðvitað til þess að þessi börn eru ekkert send í skóla. Það er einfaldlega ekki hægt. Og þá erum við komin að því ójafnræði sem ríkir hér varðandi rétt til menntunar, þó að ákvæði sé í hverjum lagabálkinum á fætur öðrum um að allir skuli hafa jafnan rétt til náms.

    Ég hef satt að segja oftlega undrast hvað lítið hefur verið tekið undir þetta. Ég hef áður gert þetta að umræðuefni og ég hef undrast hvað landsbyggðarþingmenn hafa verið sofandi fyrir þessu vandamáli. Hér var einhvern tímann lögfestur sjóður sem átti að koma til móts við þessa nemendur en hann hefur ævinlega og alveg frá upphafi verið beinlínis hlægilega lágur þannig að hann hefur engu bjargað. Ég man að fyrir tveimur eða þremur árum voru þetta 18.000 kr. eða eitthvað í þá veru og segir sig sjálft að það breytir auðvitað engu um vandamálið. Ég held að hér sé nefnilega töluverður vandi fyrir hendi.
    Ég átti þess kost í morgun að koma í kennslustundir í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem verið var að ræða málefni fjölskyldunnar í landinu. Þar kom auðvitað fram að það gengur þess enginn dulinn að börn einstæðra foreldra búa við miklu lakari kjör en börn þeirra foreldra sem saman búa. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt og hlýtur að þýða að það foreldri sem ekki býr með barninu sinnir ekki sem vera bæri skyldum sínum við barnið og það er alveg rétt og staðreynd. Einhvern veginn verður því að finna lausn á þessu vandamáli, bæði með einhverri hækkun meðlags og síðan má hugsa sér, og mér er kunnugt um að þannig hafa t.d. Danir þau mál, að meðlagsgreiðsla fari að einhverju leyti eftir tekjum meðlagsgreiðanda og hægt að sækja um hækkun ef maður hefur miklar tekjur o.s.frv., nú eða móðir, svo jafnræðis sé gætt þó að oftar sé um að ræða það munstur að móðirin sé með börnin.
    En ég vil leggja á það áherslu að ég held að það þurfi að leita fleiri leiða, svo sem einhverrar ívilnunar í skattgreiðslum, aðstoð við nám fjarri heimahögum og annað slíkt. Að ég nú ekki tali um það vandamál sem auðvitað gerir öllu fólki, hvort sem það er í sambúð eða ekki sambúð, lífið næstum óbærilegt sem er það ástand sem við búum við í húsnæðismálum. Þar á ég við að ekki skuli vera hægt að hafa til frambúðar leiguíbúðir á skaplegu verði en fólk er hins vegar þvingað til að fara út í verulegar fjárfestingar, hvort sem fólk ræður nokkuð við það eða ekki. Ég vil því leggja á það áherslu að ég tel erfitt að gera hér verulega bragarbót með þessari einu aðgerð, að hækka meðlag. Ég dreg í efa að nokkurn tímann takist að hækka það svo án þess að til verulegra vandræða kæmi að það lagaði í raun og veru stöðu einstæðra foreldra. Þess vegna held ég að samfélagið þurfi að koma til. Ég hef sagt það áður og segi það enn að við eigum börnin í landinu öll saman. Okkur koma þessi börn við, þau eru framtíð þjóðarinnar og þegar þau koma út á vinnumarkaðinn og taka við að reka samfélagið sitt þá spyr enginn hvort þau hafi verið alin upp hjá einu eða tveimur foreldrum. Við berum á því ábyrgð að þessir einstaklingar vaxi úr grasi við þau kjör sem við viljum búa börnum hér á landi og ég held að við verðum að taka höndum saman um að sjá svo til að 10.000 íslensk börn séu ekki í verulegri hættu að búa við þrengri kost.
    Ég vil minna á orð sem féllu hér í umræðu um daginn um börn sem eiga í vandræðum í þjóðfélaginu að það verður því miður að segjast að svo virðist sem börn einstæðra foreldra séu þar á veikari ís heldur en hin. Við það getum við auðvitað ekki búið. Þess vegna fagna ég þessu frv. því að þótt ég eigi varla von á því að það nái afgreiðslu á þessu þingi þá vona ég að það verði til þess að umræða hefjist af einhverri alvöru um málefni einstæðra foreldra og barna þeirra.