Almannatryggingar

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:13:00 (5450)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þeim ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls og lagt sitt af mörkum í þessari umræðu. Samandregið má kannski segja að í orðum flestra þeirra hafi falist stuðningur við umræðuna og reyndar hjá tveimur sem töluðu, stuðningur við málið almennt, en mér heyrðist nú bæði á þeim ræðumanni sem síðast talaði, hv. þm. Magnúsi Jónssyni, og reyndar Guðrúnu Helgadóttur, að þau fögnuðu umræðunni en kannski ekki frv. eins og það lægi fyrir. Magnús Jónsson sagði að kjarni málsins væri sá að það væri ekki búið nógu vel að fjölskyldum í landinu og með þessu máli væri verið að setja einhvern plástur á vandann í stað þess að taka á honum. Ég er alveg hjartanlega sammála ræðumanninum í því að hér er ekki tekið á heildarvandanum og ég verð að segja honum það af því að hann er stjórnarþingmaður að þessi ríkisstjórn sem hann styður og er fulltrúi fyrir hér á Alþingi er alveg afskaplega glámskyggn á þann vanda sem við er að etja í fjölskyldumálum í landinu. Og þá má bara benda á það m.a. að ríkisstjórnin lækkaði barnabætur um 500 millj. við afgreiðslu síðustu fjárlaga og það er ekki beinlínis til að bæta almennt hag barnafólks í landinu. Þessi lækkun á barnabótunum kom niður á meðaltekjufólkinu m.a. Það var ekki bara spurningin um hátekjufólk, heldur meðaltekjufólkið líka. Það gæti meira að segja vel verið að sá þingmaður sem hér talaði hafi kannski orðið fyrir barðinu á því sjálfur, ég þekki það ekki. ( Gripið fram í: Og fagnaði því.) Og fagnaði því að verða fyrir barðinu á því, já, og kvartar svo hér í ræðustól undan skorti á almennum úrræðum í þágu fjölskyldunnar.
    Ég verð að játa að lausnin á framfærsluvanda barnafólks felst ekki í því frv. sem ég hef lagt hér fram, það þarf miklu víðtækari aðgerðir til þess að leysa hann. Það þarf nefnilega almennar aðgerðir í samfélaginu til að auðvelda fólki að eignast börn og koma þeim til manns. Það þarf að grípa til slíkra almennra aðgerða í gegnum skattakerfið eða í gegnum barnabótakerfið eða með einhverjum slíkum úrræðum. Ég hef talað fyrir því margsinnis hér á þingi að börnum fylgi ákveðinn persónuafsláttur rétt eins og hinum fullorðnu og það sé ákveðið hlutfall af persónuafslætti fullorðinna, það sé bara réttur þeirra eins og annarra að gert sé ráð fyrir þeim í skattakerfinu. En verði tekið á málum með slíkum almennum aðgerðum þá kemur það líka meðlagsgreiðendum til góða. Það kemur einstæðum mæðrum til góða, það kemur fólki í sambúð til góða, það kemur meðlagsgreiðendum til góða. Það er því mjög brýnt að gera það. Ég held að það sé mjög ljóst að það er afskaplega dýrt að eiga efnilega ómegð, eins og það er kallað, efnilega ómegð sem leitar sér mennta t.d.
    Eins og hv. 14. þm. Reykv. benti á er kostnaður á heimavist fyrir norðan um 400 þús. í þessa níu mánuði sem börnin eru þar í skóla. Það er ekkert einfalt mál fyrir barnafólk, þó í sambúð sé, að senda börn sín í skóla sem kostar slík ókjör að vera í þó að það sé ekki heldur mikið fyrir skólann að fá það, það skal ég fúslega fallast á. En þá skulum við horfa á það, þetta eru 400 þús. kr. sem þarna er greitt fyrir níu mánuði í skóla. Ef þetta barn eða unglingur sem þarna er í skóla fengi meðlag, hver væri meðlagsgreiðslan í þessa níu mánuði? Hún væri um 70 þús. kr. Það sér náttúrlega hver maður að það er ekki nema dropi í hafið og vandamálið er það að sá sem brúar bilið í dag er framfærandi barnsins, móðirin. Og það sem verið er að reyna að taka á í þessu frv., sem er mjög sértækt ---

ég játa það, þetta frv. er mjög sértækt, þetta eru ekki almenn úrræði í þessum málum --- það er verið að reyna að taka á þessum aðstöðumun og jafna aðstöðumuninn milli framfæranda barns og meðlagsgreiðanda. Það er nú allt og sumt sem hér er verið að leggja til.
    Það kom fram í máli 14. þm. Reykv., Guðrúnar Helgadóttur, að meðlagið þyrfti hugsanlega eitthvað að fara eftir efnum og aðstæðum þess sem greiðir það og ég get verið sammála henni í því. Og það er rétt að rifja það upp að í barnalögunum segir einmitt, með leyfi forseta: ,,Framfærslueyrir skal ákveða með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsaðstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra.`` Þetta virðist hins vegar afskaplega lítið vera notað og það virðist vera úrskurðuð lágmarksmeðlagsgreiðsla í flestöllum málum. Hitt telst til undantekninga og er þá yfirleitt tímabundið, rétt í kjölfar skilnaðar. Síðar segir í þessum lögum, eins og ég vitnaði til áðan: ,,Í meðlagsúrskurði má aldrei ákveða lægri meðlagsgreiðslu en barnalífeyri nemur.`` Það má úrskurða hærri, en það virðist því miður ekki vera mikið um að það sé gert, þó vissulega væri oft ástæða til þess.
    Hv. þm. Magnús Jónsson sagði að Guðmundur Ólafsson tæki yfirleitt hressilega til máls þegar hann kæmi fram opinberlega og það þekki ég fjarska vel, þekki orðfæri þess ágæta manns og veit að þetta er kannski í og með gert til þess að kalla fram umræðu. Magnús sagði að það væri hins vegar ýmislegt til í því sem Guðmundur Ólafsson segði og karlmenn færu oft illa úr út skilnaði, fjárhagslega og á annan máta. Ég efa það ekki. Ég held að allir fari illa út úr skilnaði. Ég held að móðir, faðir og barn fari öll illa út úr skilnaði og bæði tilfinningalega og fjárhagslega. Þetta er ekkert einfalt mál. En málið sem við stöndum andspænis í dag er bara það að framfærsla barna eftir sambúðarslit kemur mun harðar niður á framfærandanum eða þeim sem fer með forræði barnsins heldur en meðlagsgreiðandanum og þetta litla frv. sem hér er flutt í tveimur greinum er einvörðungu hugsað til þess að jafna þennan aðstöðumun en ekki --- og ég tek það skýrt fram --- þetta er ekki lausnin á framfærsluvanda barnafólks. Því fer víðs fjarri.