Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:20:00 (5451)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði af óviðráðanlegum orsökum því miður ekki tækifæri til þess að hlýða á framsögu hæstv. umhvrh. fyrir þessu frv. en það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að varðandi málið þó að það hafi komið fram við umræðuna síðan að það er alls óvíst um stuðning annars stjórnarflokksins við þetta frv. Ef ég tók rétt eftir hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. hafði þingflokkur Sjálfstfl. fallist á að frv. yrði lagt fram til kynningar og þeir reikni ekki með því að það fái afgreiðslu á þessu þingi.
    Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að frv. fari til nefndar þó það megi deila um hvað það innifelur þegar frv. er lagt fram til kynningar. Sum slík mál eru ekki tekin til umræðu og aðeins lögð fram, en ég ætla ekki að gera athugasemdir um það út af fyrir sig þó að málið fari til nefndar og verði sent til umsagnar. Ég tel að ekkert mæli á móti því.
    Ég vil taka það fram í fyrsta lagi að ég tel nauðsyn bera til þess að Miðhálendið sé skipulagsskylt og þar sé góð regla og þau málefni þarfnast úrbóta. Ég er sammála því. Hins vegar, eins og komið hefur fram hjá ýmsum sem talað hafa við umræðuna, hef ég miklar efasemdir um þá leið sem frv. fer í þessum efnum. Mér finnst stærsta spurningin vera þessi: Á að taka upp þá miklu miðstýringu sem þetta frv. gerir ráð fyrir, taka þetta landsvæði undan forræði sveitarfélaganna og setja það undir sérstaka stjórnarnefnd? Ég hef miklar efasemdir um þá leið og ekki síður hef ég efasemdir vegna þess að það er búið

að setja vinnu í gang og hefur verið í gangi um nokkurt skeið af hálfu hæstv. félmrh. að auka valdsvið sveitarfélaganna og reyna að koma þeirri skipan á að þau stækki og sameinist eftir ákveðnum tillögum þar sem heil héruð verði að einu sveitarfélagi, fái aukin völd og áhrif. Þetta er forskriftin sem þeim sem vinna í þessari nefnd á vegum félmrn. hefur verið lögð í hendurnar af hæstv. félmrh. og ég neita því ekki að mér finnst það þá skjóta dálítið skökku við að síðan komi fram frv. þar sem málefni eru tekin úr höndum sveitarfélaga, hluti af þeim sem heyrir til þeirra, tekin undan þeim og sett undir aðra skipulagsstjórn. Ég held að þetta þurfi mikillar athugunar við og ég tel, eins og ég sagði í upphafi máls míns, rétt að þetta mál fari til umsagnar. Ég heyrði reyndar ekki ræðu hæstv. umhvrh. en mér skildist að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn væri ekki á því að afgreiða málið á þessu þingi þannig að ef það er ljóst þá gefst tími til að skoða þá hluti.
    Í II. kafla frv., þar sem fjallað er um stjórnarnefnd byggingar- og skipulagsmála, er gert ráð fyrir því að umhvrh. skipi að afloknum sveitarstjórnarkosningum sérstaka stjórnarnefnd til að fara með stjórn skipulags- og byggingarmála á Miðhálendinu. Þessi nefnd hefur mikil völd sem talin eru upp í 4. gr. og ég ætla ekki að rekja. Síðan segir í 7. gr. um gerð skipulagsáætlana að hún skuli í upphafi starfstíma síns semja greinargerð um þau meginsjónarmið sem hafa ber við þá skipulagsgerð sem hún fer með samkvæmt lögum þessum. Við það skuli hún hafa samráð við stofnanir, félög og samtök, eftir því sem hún telur ástæðu til. Henni er sem sagt algjörlega í sjálfsvald sett hvort samráð er í þessum efnum. Mér finnst satt að segja það vera ansi mikil völd, vægast sagt, sem þessi nefnd fær í hendur. Þá segir í 10. gr.:
    ,,Í áætlun um hálendisskipulag skal kveðið á um þá þætti er snerta Miðhálendið í heild og tengsl þess við aðra landshluta. Hér er meðal annars átt við þá þætti sem lúta að samgöngum, orkuveitum, fjarskiptum, landnotkun og landnýtingu, náttúruvernd og ferðamálum.``
    Þarna er sem sagt komið inn á mjög marga þætti og vald þessarar nefndar er mikið. Henni er heimilt skv. 18. gr. að semja svo við aðila sem hún telur til þess hæfa að þeir annist fyrir hönd hennar eftirlit með gerð mannvirkja og framkvæmdum á tilteknu svæði eða gerð tiltekins mannvirkis. Síðan segir í 19. gr. það sem mér finnst dálítið vafasamt svo ekki sé meira sagt:
    ,,Sýslumenn á Selfossi, í Borgarnesi, á Akureyri og á Eskifirði fara með yfirstjórn löggæslu á Miðhálendinu að því er tekur til byggingar- og skipulagsmála.`` --- En síðan segir:
    ,,Stjórnarnefndin ákveður hvern þeirra hún kallar til í hverju einstöku máli.``
    Þarna er stjórnarnefndin beinlínis sett yfir löggæslumál og ræður því hvern hún kallar til. Skýringin á því er í athugasemdum með frv., efst á bls. 15, þar sem segir: ,,Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að þar sem mörk milli stjórnsýsluumdæma séu óskýr, svo sem á hálendinu, ákveði dómsmrh. í hvaða umdæmi mál komi til úrlausnar.
    Rétt þykir að stjórnarnefndin eigi tillögurétt í þessu sambandi.`` --- Þarna er sem sagt farið að hlutast til um verkefni dómsmrn. og væri fróðlegt að fá skýringar á þessu.
    Það eru ansi stíf ákvæði í þessu frv. um greiðslur á kostnaði. Það er sagt að sá sem sækir um framkvæmdaleyfi skuli greiða sérstakt umsýslugjald sem ætlað er að standa undir kostnaði við meðferð stjórnarnefndar á umsókninni.
    Það er ákvæði um sérstakt leyfisgjald í 22. gr. sem greitt sé áður en heimilt er að hefja gerð mannvirkis eða framkvæmd og umhvrn. setur sérstaka gjaldskrá fyrir leyfisgjaldið.
    Síðan er í 23. gr. rætt um ákvæði um umhverfisáhrif og könnun á þeim af gerð tiltekins mannvirkis og umsækjanda er skylt að greiða kostnað sem af þeirri könnun leiðir samkvæmt reikningi. Stjórnarnefndin getur ákveðið að umsækjandi setji tryggingu sem hann telur hæfilega áður en könnun hefst. Þessi ákvæði ganga talsvert langt og ég held að réttur þeirra sem vilja eitthvað gera sé dálítið fyrir borð borinn eða ákvæði a.m.k. óljós um hver réttur hans er.
    Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að setja langar ræður um þetta mál núna. Það er

greinilegt að það er ekki ætlunin --- eða það er a.m.k. útlit fyrir að málið fari ekki áfram á þessu þingi ef marka má þær umræður sem orðið hafa. En ég verð að segja að þetta kort sem fylgir frv. hefði betur verið óprentað vegna þess að ég held að það sé afar vafasamt svo ekki sé meira sagt að draga þessar girðingar eins og þær eru dregnar á kortinu og fer áreiðanlega mjög í taugarnar á fólki að sjá markalínur dregnar jafnvel um miðjar sveitir eins og í Austur-Skaftafellssýslu þar sem mér finnst að þessi lína hefði átt að fylgja jöklinum og jökullinn sjálfur hefði þá átt að tilheyra Miðhálendinu en ekki fara fara að draga þar þvert fyrir alla skriðjökla eins og þarna er gert.
    Ég hef sem sagt miklar efasemdir um þetta frv. og ég er þess fullviss að um það verða mjög skiptar skoðanir. Ég hefði talið rétt að taka þessi skipulagsmál öll til meðferðar í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en ekki að gera slíkar einhliða aðgerðir í miðjum klíðum sem kemur af stað illu einu í þeirri vinnu sem þar þarf að inna af hendi sem er mjög þarft verk, að taka þá verkaskiptingu og þróa hana áfram. En þar þurfa öll mál að vera undir.