Skipulag á Miðhálendi Íslands

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:33:00 (5452)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Herra forseti. Ég þakka þá ágætu og málefnalegu umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál. Ýmsir þeirra sem hafa tekið til máls hafa haft um það einhver orð að um þetta mál væri ekki full eining í stjórnarflokkunum. Það er rétt. Ég gerði mjög ítarlega grein fyrir því í framsöguræðu minni í morgun. Auðvitað er það ljóst að hér er um mál að ræða sem er þverpólitískt og um það eru skiptar skoðanir. Það er deginum ljósara. Ég held hins vegar að það sé mjög nauðsynlegt að ræða þessi mál og ræða þau til niðurstöðu. Og til þess að unnt sé að ræða þau þá verður auðvitað að koma með þau hingað inn á hið háa Alþingi.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson lét svo ummælt um það kort sem frv. fylgir að það hefði betur verið óprentað. Ég er honum ekki sammála. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt að viðra hugmyndir um þetta. Og þegar um er að ræða kort í mælikvarðanum 1:750.000 þá er einn millimetri á kortinu 750 metrar í náttúrunni. Það er ekki mjög auðvelt að átta sig á þessu og hefði kannski verið æskilegt að hafa kortið í öðrum kvarða en því fylgdi hins vegar mikill kostnaður. Landmælingar Íslands gerðu þessa markalínu að ósk nefndarinnar sem samdi frv. Meginsjónarmiðið sem var lagt til grundvallar við ákvörðun þessarar markalínu var að hún lægi sem næst mörkum heimalanda og afrétta eða heimalanda og almenninga eins og því varð við komið. Og þar sem ráð var fyrir því gert að þetta raskaði hvorki eignar- né afnotarétti tóku Landmælingar ekki sérstakt tillit til eignamarka bújarða eða annarra landa. Það var leitast við að hafa viðmiðunarpunkta sem fæsta og á skýrum kennileitum tengdum þríhyrningamælistöðum þar sem hægt var að koma því við.
    Þegar verið var að staðsetja þessi mörk, segir í greinargerð Landmælinga Íslands, þá kom glögglega fram það sem lengi hefur verið vitað að landamörk víða um land eru ekki nægilega vel þekkt. Og það vantar mjög mikið á að þau séu mæld og kortlögð. Þetta er nokkuð misjafnt eftir landshlutum þegar rætt er um mörk heimalands hvað eru taldir almenningar og hvað eru taldir afréttir. Þetta var sem sagt sett hér fram sem hugmynd og ég held að það hefði verið gagnrýnivert og hefði verið gagnrýnt ef ekkert af þessu tagi hefði fylgt frv.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson vék að löggæslumálum. Það eru þá eingöngu löggæslumál í málum sem varða skipulags- og byggingarmál. Um það var haft samráð við dómsmrn. Ég vek hins vegar athygli á því, og hér hafa fleiri þingmenn nefnt löggæslu almennt á hálendinu, að sú löggæsla sem þar hefur farið fram er allt of lítil, en það sem gert hefur verið hefur verið gert vel. Það voru lögreglumenn við vörslu á hálendinu í sumar. Ég hef fengið bæði skýrslu og myndir frá þeirra störfum. Þeir hafa unnið sitt verk mjög vel. En þetta var kannski of skammur tími og þeir hefðu þurft að vera fleiri og fara víðar. En, hv. þm. Jón Kristjánsson, sú löggæsla var á vegum vegalögreglunnar. Vegalögreglan hefur annast löggæsluna á hálendi Íslands vegna þess að það hefur verið talinn eðlilegur og hagkvæmur framkvæmdamáti. Vegalögreglan er undir stjórn lögreglustjórans í

Reykjavík. Ég veit ekki til að það hafi leitt til neinna árekstra við lögregluyfirvöld í öðrum landshlutum, alls ekki. Ég get frá því greint að sú hugmynd var uppi að það væri lögreglustjóraembættið í Reykjavík sem annaðist löggæslu á þessu afmarkaða Miðhálendi. Þeirri hugmynd var hafnað, ég hygg að hún hefði orðið mönnum alveg sérstakt umræðuefni hér á hinu háa Alþingi, enda þótt lögreglustjórinn í Reykjavík stjórni vegalögreglunni sem annast löggæslu á hálendinu og hefur farist það vel úr hendi. Það hefur verið árekstralaust og ádeilulaust. Þess vegna var sú leið valin að fela þetta fjórum sýslumannsembættum þar sem mestur mannafli er til löggæslustarfa. Og ég hygg að á þeirra sviði hafi verið stærstur hluti þessa hálendis.
    Það var minnst hér varðandi leyfisgjaldið og þann kostnað sem er þessu samfara. Ég nefndi það í minni ræðu í morgun sem hv. þm. Jón Kristjánsson heyrði ekki að ég held að það sé eðlileg regla í þessu sambandi að þeir sem óska eftir framkvæmdum á þessu svæði greiði þann kostnað sem þeim framkvæmdum er samfara varðandi skipulagsmál og önnur mál en það sé ekki greitt úr almannasjóðum. Sá kostnaður á að vera hluti framkvæmdakostnaðarins og er það við mannvirkjagerð af þessu tagi.
    Það hefur komið hér fram að þetta sé fyrst og fremst málefni sveitarfélaganna. Það er auðvitað nokkuð til í því og það er alveg rétt sem sagt hefur verið að í sumum tilvikum eru landsvæði eða skikar á þessu afmarkaða svæðis sem alveg ótvírætt eru eign sveitarfélaganna. Um það er ekki deilt. Hins vegar er það svo að það eru líka svæði þar sem þetta er allt saman mjög óskýrt. Og ég vek sérstaka athygli á því vegna þess sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði hér áðan að í 1. gr. laga nr. 8/1986, sveitarstjórnarlaganna, segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Byggðin í landinu skiptist í staðbundin sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.`` Það segir ,,byggðin`` og auðvitað er það af ráði gert. Af þessu leiðir að óbyggðin í landinu skiptist ekki í sveitarfélög með sama hætti og byggðin. Við verðum að viðurkenna það og það hafa hv. þm. viðurkennt að víða eru þessi mörk óljós. Ég held að við séum alveg sammála um að það er mikil þörf á að stemma stigu við þeirri þróun sem hefur verið að hefjast, þ.e. að menn byggi út um hvippinn og hvappinn, stundum í trausti þess að þeir hafi leyfi. En ég vek athygli á því að stundum getur það verið svo að eignarréttur, umráðaréttur á því landi sem sveitarstjórn úthlutar byggingarleyfi á í óbyggðum kann að vera tvíræður, hann kann að vera umdeildur. Þess eru ýmis dæmi. Svo kann að vera að sveitarstjórn hafi á einhverjum tíma talið sig hafa keypt umrædd svæði og þá kann að leika vafi á hvort sá sem seldi hafi haft eignarrétt á landinu. Þarna er um að ræða mjög flókin lögfræðileg og raunar sagnfræðileg deiluefni. Og þess vegna er af ásettu ráði ekki komið að þessum hluta málsins í frv. Hitt er svo það að hv. Alþingi getur ekki endalaust vikist undan því að taka afstöðu til þeirra álitaefna varðandi eignarrétt á landi þar sem hann er óljós. Almenningar eru það land sem almenningur þessa lands í rauninni ætti að eiga. Þetta vandamál er uppi hér hjá okkur, hjá þessari þjóð. Það er ekki uppi með sama hætti hjá öðrum. En þetta er mál sem Hæstiréttur hefur í rauninni beint til Alþingis að taka afstöðu til og ég held að það sé mjög brýnt að þingið taki afstöðu til þess. En það er ekki einfalt mál og það er ekki verið að gera það hér. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að þetta mál sé rætt og það sé kynnt og að það eigi sér stað málefnaleg umræða um þetta vegna þess að við stöndum hér andspænis vandamáli sem við þurfum að leysa.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir, sem er nú ekki stödd hér í salnum, spurði hvort fjarlægja ætti þá skála sem reistir hafa verið í óleyfi. Það er ekki tekin afstaða til þess hér í frv. Þar verða mörg álitamál. Í sumum tilvikum, eins og ég vék að hér áðan, er það áreiðanlega svo að þeir sem reistu þá skála hafi talið sig hafa leyfi þótt það megi draga í efa. Og ég hygg nú að það muni takast, það tekur áreiðanlega langan tíma, að leysa slík mál í bærilegri sátt.
    Hv. þm. Páll Pétursson, sem reyndar er nú heldur ekki viðstaddur þessa umræðu, talaði um að það væri óþarflega mikil lagasetning í landinu. Ég get verið honum sammála um að það sé of mikið af löngum lagabálkum. Það er mikið rétt. En þetta frv. getur hins vegar ekki flokkast með löngum lagabálkum. Hann viðurkenndi að vísu þann vanda sem

hér er við að stríða og ætla ég svo sem ekki að hafa fleiri orð um það.
    Ég vil þakka þeim hv. þm. að nýju sem hafa tekið jákvætt undir þetta mál og það hafa raunar flestir gert. Ég tel mjög mikilvægt að umræða fari fram um þetta og menn átti sig á þeim nýju viðhorfum sem nú eru uppi bæði í þessu þjóðfélagi og annars staðar til verðmæta af þessu tagi og líka til hugtaksins um aðgang almennings að náttúru landsins og slíkum svæðum. Auðvitað gæti ég sagt það að ákjósanlegast væri að gera allt Miðhálendið að þjóðgarði. Það hefur afar lengi verið mín skoðun en það er ekki hægt á þessu stigi vegna þess að til þess að gera land að þjóðgarði þá verður eignarréttur ríkisins á því landsvæði að vera alveg ótvíræður. Hann er það ekki í þessu tilviki og þess vegna er sú tillaga óraunhæf og ekki framkvæmanleg.
    Ég vil, herra forseti, ljúka máli mínu með því að þakka þessa umræðu og ítreka tillögu mína um að málinu verði vísað til hv. umhvn. Það geri ég að gefnu tilefni vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. e. flutti tillögu um að málinu yrði vísað til landbn. Þó að hún sé mikilvæg nefnd þá sé ég ekki að það sé hægt að styðja rökum með einum eða neinum hætti að þetta mál, sem varðar skipulagsmál, sem varðar byggingar- og skipulagsmál, sem varðar umhverfismál, eigi heima annars staðar en í umhvn. hins háa Alþingis.