Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:46:00 (5453)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 744 og brtt. á þskj. 745 frá meiri hluta félmn. um frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Nefndin hefur fjallað um frv. á mörgum fundum og fékk til viðræðna um málið Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félmrn. og formann þeirrar nefndar er samdi frv., Guðrúnu Halldórsdóttur, skólastjóra Námsflokka Reykjavíkur, Þuríði Magnúsdóttur frá Fræðslumiðstöð iðnaðarins, Karl Kristjánsson, deildarsérfræðing í menntmrn., Láru V. Júlíusdóttur, framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, Þráin Hallgrímsson, skrifstofustjóra Alþýðusambandsins, Snorra Konráðsson, framkvæmdastjóra Menningar- og fræðslusambands alþýðu, Gissur Pétursson, fulltrúa í sjútvrn. og fulltrúa í starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, Þóri Daníelsson, framkvæmdastjóra Verkamannasambands Íslands, Elínborgu Magnúsdóttur, ritara fiskvinnsludeildar Verkamannasambandsins, Þórleif Jónsson, framkvæmdastjóra Landssambands iðnaðarmanna, og Sjöfn Ingólfsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þá lágu fyrir nefndinni umsagnir sem borist höfðu félmrn. þegar frv. var til endurskoðunar í ráðuneytinu. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir frá Kennarasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Vegna sérstakrar óskar, er fram kom við 1. umr. málsins, sendi nefndin frv. til umsagnar menntmn. 12. febr. sl. Menntmn. fjallaði um málið á nokkrum fundum og í umsögn meiri hluta nefndarinnar, sem birt er sem fylgiskjal með áliti þessu ásamt umsögn minni hluta nefndarinnar, kemur fram að meiri hlutinn mælir með samþykkt frv.
    Leyfi ég mér, virðulegur forseti, að lesa umsögn meiri hluta menntmn., sem er stutt, hér í minni framsögu en hún hljóðar svo:
    ,,Með bréfi dagsettu 12. febr. sl. óskaði félmn. umsagnar menntmn. um frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, 140. mál þingsins. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um frv. Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félmrn. og formann þeirrar nefndar er samdi frv., Karl Kristjánsson, deildarsérfræðing í menntmrn., og Gissur Pétursson, fulltrúa í sjútvrn. sem jafnframt á sæti í starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar.
    Ágreiningur var í nefndinni um frv., einkum hvar vista bæri málið í stjórnsýslunni.

Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er öllum nefndarmönnum nema Hjörleifi Guttormssyni, mælir með samþykkt frv.
    Meiri hlutinn álítur að það skipti miklu máli fyrir góðan framgang þessa máls að aðilar atvinnulífsins hafi verulegt frumkvæði í allri starfsmenntun.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.``
    Undir þetta álit ritar Sigríður Þórðardóttir, formaður.
    Eins og fyrr segir er umsögn minni hluta menntmn. einnig prentuð sem fylgiskjal og mun áliti minni hlutans verða gerð skil hér á eftir.
    Miklar umræður hafa orðið um einstök atriði frv. í félmn., m.a. um ákvæði 4. gr. þess um hvar málaflokkur þessi eigi heima í stjórnsýslunni. Meiri hluti nefndarinnar telur þó ekki ástæðu til breytinga á frv. nema að því er varðar 11. og 15. gr. Breytingin við 11. gr. felur í sér að bætt er við þau skilyrði sem umsókn um styrk úr starfsmenntunarsjóði þarf að uppfylla og tiltekið að fylgja þurfi upplýsingar um leiðbeinendur.
    Þá er 15. gr. er varðar hugsanlegt mat á námi til námseininga umorðuð til að gera ákvæði hennar skýrara en ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur á það áherslu að mikilvægt sé að sú starfsmenntun, sem frv. á að stuðla að, komi ekki síst ófaglærðu fólki til góða.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.
    Undir þetta nál. rita undirrituð, formaður og frsm. nefndar, Guðjón Guðmundsson, Jón Kristjánsson með fyrirvara, Ingibjörg Pálmadóttir með fyrirvara, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með fyrirvara, Eggert Haukdal, Einar K. Guðfinnsson og Hermann Níelsson.
    Virðulegi forseti. Brtt. á þskj. 745 hljóðar svo:
  ,,1. Við 11. gr. Á eftir b-lið komi nýr stafliður er orðist svo:
    Upplýsingar um leiðbeinendur.
    2. Við 15. gr. Greinin orðist svo:
    Menntamálaráðuneytið ákveður hvaða nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, skuli metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi.``