Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:52:00 (5454)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þau miklu umbrot og þær miklu breytingar sem hafa orðið í atvinnulífinu hér á landi sem annars staðar hafa kallað á aukna þörf á starfsmenntun og endurmenntun í atvinnulífinu og ég tel að það frv., sem hér er til meðferðar og við ræddum nokkuð ítarlega við 1. umr. málsins fyrir jólin, sé svar við þeirri ósk og þeirri þörf sem hefur greinilega komið fram í atvinnulífinu upp á síðkastið. Þessi þörf hefur kannski orðið enn þá meira áberandi í ljósi þess að víða í sumum starfsgreinum hefur þrengt nokkuð að og atvinnuleysi hefur skotið upp kollinum og allt þetta hefur auðvitað undirstrikað þörfina fyrir að efla starfsmenntun í atvinnulífinu, jafnframt því sem flestir hafa komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenntun út af fyrir sig, aukin þekking og hæfni til að gegna mismunandi störfum, hefur í eðli sínu þau áhrif að afköst aukast í atvinnulífinu og þannig er hægt að bæta lífskjörin þegar til lengri tíma er litið.
    Ég tel að með því frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, sem hér er til umræðu ásamt þeim brtt. sem fram hafa verið settar af meiri hluta hv. félmn., sé mjög komið til móts við þau sjónarmið sem uppi hafa verið varðandi þessi mál í okkar þjóðfélagi og raunar kristallast í því að mikið og gott samkomulag tókst um það hjá flestum aðilum málsins við undirbúning þess hvernig að skyldi standa. Ég tel að það hafi verið til fyrirmyndar hvernig að þessu máli var unnið að því leytinu að til verksins voru kallaðir aðilar vítt og breitt úr þjóðfélaginu og þannig leitað eftir því að ná samkomulagi enda held ég að það sé grundvallaratriði ef eitthvert gagn á að vera af starfsmenntunarfrumvarpi og starfsmenntunarlögum sem þessum að um það sé sátt milli þeirra sem eiga að taka þátt í því, atvinnurekanda, vinnuveitanda og launþega og þannig hefur verið að þessu máli unnið.

    Ég tel verulega ástæðu til að leggja áherslu á það sem fram kemur í nál. meiri hluta félmn. þar sem segir að nefndin leggi á það áherslu að mikilvægt sé að sú starfsmenntun sem frv. eigi að stuðla að komi ekki síst ófaglærðu fólki til góða. Ég hygg að í þeim miklu breytingum sem við erum núna að sjá fram á í okkar atvinnulífi sé ekki ofmælt að á þetta mál sé lögð mikil áhersla og það sé greitt fyrir fólki sem vill og þarf að breyta um starf með starfsmenntun af ýmsu tagi.
    Ég vek athygli á því að í 1. gr. þessa frv. er einmitt gert ráð fyrir að verið sé að opna leiðir fyrir fólk til þess að mennta sig eða hljóta þekkingu til þess að geta skipt um störf með auðveldari hætti. Í 1. gr. frv., f-lið, segir svo, með leyfi forseta: ,,Markmið þessara laga er að . . .  mæta þörfum starfshópa, sem missa vinnu vegna breytinga í atvinnuháttum, fyrir endurmenntun og þjálfun til annarra starfa eftir aðstæðum á hverjum tíma.``
    Þetta hygg ég að sé afar þýðingarmikið og verði seint of mikil áhersla lögð á þetta mál.
    Ég vil, varðandi þær brtt. sem meiri hlutinn leggur fram, segja að ég tel að þær miði að því að styrkja enn stöðu þessa máls með því að opna leiðir fyrir það að hið nýja starfsmenntaráð geri ákveðnar kröfur til leiðbeinendanna þannig að alltaf sé tryggt að það fólk sem sé ráðið til starfa til að sinna leiðbeiningum af hverju taginu sem er, uppfylli lágmarksskilyrði. Við höfum oft á tíðum heyrt sögur af því að hæfni leiðbeinenda í námskeiðum af ýmsu tagi sem haldin hafa verið, m.a. og ekki síst úti um landið, hafi verið með ýmsum hætti. Með þessu ákvæði er vitaskuld verið að árétta þann skilning löggjafans að það beri að gera verulega miklar kröfur til þeirra leiðbeinenda sem eru ráðnir til starfa til að sinna þessu gríðarlega mikla og mikilvæga hlutverki sem starfsmenntun í atvinnulífinu er á hverjum tíma.
    Enn fremur er mál þetta styrkt með brtt. sem ég hygg að félmn. almennt standi að, þar sem lagt er til að 15. gr. frv. sem orðist svo:
    ,,Menntmrn. ákveður hvaða nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, skuli metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi.``
    Auðvitað er þetta mál ekki einfalt. Það er ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um með hvaða hætti eigi að meta hvert námskeið til námseininga. Menntmrn. er ætlað það hlutverk að setja nánari reglur þar um og ég hygg að þetta sé mjög mikilvægt og geti gegnt því hlutverki m.a. að hvetja til þátttöku í starfsmenntunarnámskeiðum af því tagi sem hér er verið að koma á laggirnar.
    Ég ítreka það að ég tel að þetta frv. sé vel úr garði gert og hafi verið unnið með þeim hætti sem eðlilegt hafi verið með því að hafa sem nánast samstarf við sem flesta. Það er ánægjulegt til þess að vita að aðilar vinnumarkaðarins hafa lýst yfir stuðningi við meginmarkmið þess og um þetta telst þess vegna bærileg sátt, m.a. það ákvæði að það sé eðlilegt að starfsmenntun í atvinnulífinu, að undanskilinni starfsfræðslu í fiskvinnslunni, skuli heyra undir félmrn. Það er niðurstaða aðila vinnumarkaðarins, m.a. þess fólks sem á að nýta þessa menntun, og um það tel ég að sé þar af leiðandi góð sátt hjá því fólki sem á að nýta sér þessa starfsmenntun.