Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:58:00 (5455)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég stend að nál. meiri hluta félmn. en þó með ákveðnum fyrirvara. Ástæður þessa fyrirvara birtast í brtt. mínum sem lagðar eru fram á þskj. 755, en ég lít svo á að þessar brtt. séu í raun minni háttar og þær breyta engu um þá staðreynd að ég styð þetta frv. í meginatriðum.
    Þær tillögur sem ég geri eru tvær. Sú fyrri er á þá leið að ég legg það til að fellt verði út ákvæði í 4. gr. laganna um að starfsfræðsla í fiskvinnslu heyri undir sjútvrn. 4. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Starfsmenntun í atvinnulífinu skal heyra undir félagsmálráðuneytið. Starfsfræðsla í fiskvinnslu skal þó heyra undir sjávarútvegsráðuneytið.``
    Það er sem sagt þessi síðari setning sem ég legg til að verði felld út. Ég tel ekki eðlilegt að starfsfræðsla í einni tiltekinni atvinnugrein sé undanþegin þessum lögum sem

við erum hugsanlega að samþykkja. Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar hefur sett fram þá skoðun að forræði og ábyrgð starfsmenntunar eigi að vera í höndum fagráðuneyta almennt og það þýddi þá að starfsfræðsla í iðnaði heyrði undir iðnrn., í landbúnaði undir landbrn., í sjávarútvegi undir sjútvrn. o.s.frv. Þessi skoðun er út af fyrir sig allra góðra gjalda verð og mætti skoðast, en þar er bara á ferðinni allt önnur hugmynd en þetta frv. byggir á. Mér finnst ansi hæpið að gera ráð fyrir tveimur hugmyndum sem toga í gagnstæðar áttir í einu og sama frv., þ.e. bæði hugmyndinni um að dreifa menntuninni á fagráðuneyti og hinni að safna menntuninni saman í einu ráðuneyti. Mér finnst þetta toga í tvær gagnstæðar áttir þó báðar hugmyndirnar geti vissulega átt rétt á sér.
    Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar leggur mikla áherslu á að halda starfsmenntun í fiskvinnslu í sjútvrn. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við að starfsfólk fiskvinnslunnar eða fólkið sem starfar í fiskiðnaði leggi á það neitt ofurkapp. Þvert á móti má eiginlega segja að þetta fólk hafi lýst yfir áhuga á að vera í samfloti með öðrum en kannski ekki treyst sér til að gera það beinlínis að tillögu sinni. Því geri ég þessa brtt. vegna þess að mér finnst þetta kannski fyrst og fremst vera mikið kappsmál hjá starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar en ekki endilega því fólki sem starfar í fiskvinnslunni.
    Síðari brtt. mín gerir ráð fyrir því að í starfsmenntaráði verði fjöldað um einn og sá fulltrúi sem þar bætist við komi frá menntmrn.
    Brtt. hljóðar þannig: ,,Ráðherra skipar átta manna starfsmenntaráð til tveggja ára sem fer með framkvæmd laga þessara.`` --- Frv. gerir ráð fyrir að það sé sjö manna starfsmenntaráð. --- ,,Einn fulltrúi skal skipaður af félmrh. án tilnefningar`` eins og nú er ,,og einn af menntmrh.`` Síðan heldur þessi grein áfram óbreytt: ,,Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, tveir af Vinnuveitendasambandi Íslands og einn af Vinnumálasambandi samvinnufélaga. Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af samtökum launafólks, tveir af Alþýðusambandi Íslands og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Starfsmenntaráð skiptir með sér verkum.`` Eina breytingin þarna er sem sagt sú að inn í starfsmenntaráðið komi fulltrúi frá menntmrn.
    Ég held að öllum þingmönnum sé ljóst að í stjórnkerfinu sem og hér á Alþingi eru mjög skiptar skoðanir um það hvar eigi að vista starfsmenntun --- vista, eins og það er kallað svo sérkennilega að mínu mati a.m.k. --- hvar eigi að vista starfsmenntun í atvinnulífinu. Ég held að a.m.k. í þrígang í vetur hafi komið upp umræður á Alþingi í þá veru og það er ljóst að í öllum flokkum eru skoðanir á reiki um þessi mál þó að allir flokkar nema Alþb. hafi kosið að styðja það að starfsmenntunun heyrði undir ráðherra vinnumála. En eins og ég segi, ég held að skoðanir séu nokkuð á reiki í öllum flokkum um það hvort það sé endilega besta ráðstöfunin. Ég sjálf hef ekki sannfæringu fyrir því að það sé hið eina rétta að vista starfsfræðslu í atvinnulífinu í menntmrn., en mjög ákveðnum málflutningi hefur verið haldið uppi í þá veru að öll menntamál eigi að vera í menntmrn. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að starfsfræðslan eigi að vera þar. En ég get hins vegar séð nauðsyn þess að upplýsingastreymi sé gott milli þeirra sem sinna almennri fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn. og hinna sem sinna verkmenntun fullorðinna á vinnumarkaði í skjóli félmrn. Því geri ég tillögu um að menntmrn. fái fulltrúa í starfsmenntaráðið til að tryggja upplýsingamiðlun þarna á milli.
    Eins og fram kemur í nál. meiri hlutans komu nokkuð margir á fund nefndarinnar og allt var þetta fólk sem kemur nálægt starfsmenntunarmálum með einum eða öðrum hætti og voru flestir þeirra sem komu á fund nefndarinnar mjög afgerandi þeirrar skoðunar að málaflokkurinn ætti að heyra undir ráðuneyti vinnumála. Ástæðan sem mér fannst fólk færa fram var kannski ekki síst sú að sú starfsmenntun, sem hingað til hefur staðið vinnandi fólki til boða, hefur verið á vegum aðila vinnumarkaðarins eða fyrir þeirra frumkvæði og algjörlega fyrir utan skólakerfið og menntmrn. Þeir aðilar, sem standa á bak við meiri hlutann í starfsmenntaráðinu, virðast treysta sér betur til að rata um innviði félmrn. en menntmrn. og ég tel ástæðu til að virða þá skoðun og virða skoðanir þess fólks sem hefur haft hvað mest frumkvæði í starfsmenntamálum á vinnumarkaði. Aðalatriðið í þessu máli öllu saman hlýtur að vera að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu og auka möguleika vinnandi fólks til að sækja sér menntun í sínu fagi. Þegar fólk fer að sækja slík námskeið þá er það reynsla allra, sem nálægt því hafa komið, að það auki mjög sjálfstraust fólksins og möguleika og það opnar mörgum nýja sýn á getu sína og hæfileika og námskeið í starfsmenntun gera það oft á tíðum að verkum að fólk leitar jafnvel inn í bóknám eftir slíkt. Oft er fólk sem fer á þessi námskeið illa brennt eftir skrykkjótta skólagöngu, hefur jafnvel verið talin trú um að það geti ekki lært en kemst svo að því að það er eins og hver önnur dauðans della, það kemst að því að það er ágætlega til þess hæft.
    Ég held, eins og frsm. nál. meiri hlutans, að það sé mjög mikilvægt að þessi starfsmenntun nýtist öðru fremur þeim sem eru ófaglærðir. Faglærðir hafa notið langrar skólagöngu oft og tíðum og fjárhagslegs stuðnings frá ríkinu í formi menntunar umfram það sem þeir ófaglærðu hafa fengið þannig að þegar ríkið ákveður að setja fjármagn í starfsmenntun í atvinnulífinu þá finnst mér eðlilegt að þeir, sem hafa ekki notið mikils úr opinberum sjóðum til sinnar menntunar, hafi þarna forgang öðrum fremur. En það er auðvitað eitthvað sem starfsmenntaráðið verður að passa upp á og þar eru fulltrúar sem ég treysti til að horfa þeim augum á málin.
    Frv. gerir ráð fyrir því að lögin, verði frv. að veruleika, verði endurskoðuð eftir þrjú ár. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði og eftir þessi þrjú ár sé hægt að meta reynsluna sem af þessu hefur fengist og m.a. sé þá hægt að meta reynsluna af því hvernig til hefur tekist að hafa þennan málaflokk inni í félmrn. en ekki inni í menntmrn.