Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 16:15:00 (5457)

     Guðmundur Þ Jónsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni yfir því að þetta mál skuli vera komið á lokastig í þinginu þannig að við getum kannski vænst þess að það fái endanlega afgreiðslu fyrir páska.
    Þetta mál er búið að vera lengi í gangi, reyndar svo lengi að það er farið að gæta verulegrar ólþolinmæði hjá verkalýðshreyfingunni að fá þessi lög vegna þess að á undanförnum allmörgum árum hefur farið fram töluvert starf á þessum vettvangi, þ.e. í fræðslumálum fyrir ófaglært fólk. Það byrjaði í fiskvinnslunni og síðan færðist það yfir á aðrar greinar og hefur verið tekið upp í auknum mæli t.d. í iðnaðinum þar sem þetta starf hefur verið með allmiklum þrótti. Er gaman að geta þess að í gærkvöldi voru útskrifaðir á milli 40 og 50 félagsmenn þriggja verkalýðsfélaga í Reykjavík eða afhenda þeim viðurkenningu fyrir þátttöku í starfsnámskeiðum. Vandamálið við þetta hefur verið að skort hefur fjármagn og verkalýðsfélög sem hafa staðið að þessu eða verkalýðshreyfingin hefur nánast þurft að sníkja peninga frá einu námskeiði til annars. En ég vil taka sérstaklega fram

að við höfum notið verulegs velvilja hæstv. félmrh. í þessu máli og ber að þakka það og virða að verðleikum.
    En þetta er mikilvægt mál eins og hér hefur komið fram og þótt ég hafi ekki átt þess kost að hlýða á umræður um frv. þegar það var lagt fram á þinginu hef ég fylgst mjög vel með umræðum um málið á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar þar sem þetta hefur fengið mjög mikla og ítarlega umræðu enda er þetta áhugamál margra þar. Það hefur verið nánast samdóma álit þeirra sem hafa fjallað um málið á þeim vettvangi að það bæri að hafa þetta mál í félmrn. og líta á það sem vinnumarkaðsmál sem ég tel að það sé. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert þótt menn vilji setja það í menntmrn. og geta út af fyrir sig fært rök fyrir því, en ég held að þetta heyri til vinnumarkaðnum, það eru fyrst og fremst aðilar vinnumarkaðarins sem koma til með að framkvæma þessi lög, búa og lifa við þau þannig að það er miklu eðlilegra að okkar dómi að hafa þau þar. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það er svolítið ankannalegt að vera að draga fiskvinnsluna sérstaklega út og láta hana heyra undir annað ráðuneyti. Ég get út af fyrir sig samþykk þá breytingu í sjálfu sér en ég mundi ekki treysta mér til að standa að breytingu á frv. að þessu leyti vegna þess að um þetta frv., sem er búið að vera mjög lengi í vinnslu og búið að fara í gegnum mikla umræðu í okkar röðum, er samkomulag og mál í þessu sambandi viðkvæm en það er samkomulag um þetta og ég teldi að slík breyting mundi hafa mjög neikvæð áhrif á framkvæmd laganna og framhald málsins. Ég mundi því ekki treysta mér til að samþykkja þessa brtt. út frá þeirri forsendu jafnvel þótt ég sjái að það er kannski ekki beint skynsamlegt að vera að taka eina atvinnugrein út úr og setja hana undir annað ráðuneyti.
    Að öðru leyti eru þær brtt. sem fram hafa komið þess eðlis að þær út af fyrir sig breyta málinu ekki mikið Kjarni málsins stendur óbreyttur og það er það sem skiptir máli. Ég er hins vegar andvígur því, eins og menn hafa mátt skilja á máli mínu, að færa þetta undir annað ráðuneyti en félmrn. vegna þess að það ætti að vera þar. Að því leyti til er ég ekki sammála háttvirtum talsmanni minni hluta félmn. þótt við séum samflokksmenn en það eru út af fyrir sig skiptar skoðanir um þetta í okkar hópi að þessu leyti eða ég kem alla vega inn með önnur viðhorf inn í þingflokkinn þann stutta tíma sem ég kem til með að sitja hér. En ég fagna því að þetta mál skuli vera komið á lokastig og vona að hv. Alþingi geti afgreitt það núna fyrir páskana því við höfum satt að segja lengi beðið eftir því og það eru ótalmörg verkefni sem bíða og fara í gang þegar þessi lög hafa tekið gildi og ég vona því að menn hraði afgreiðslu frv.