Húsaleigulög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:10:00 (5467)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að segja nokkur orð varðandi þetta mál. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Málefni leigjenda ber ekki oft á góma í þingsölum en svo sannarlega veitir ekki af. Það er reynsla þeirra sem starfað hafa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og komið nálægt leigumálum að löngu sé orðið tímabært að endurskoða lögin frá 1979.
    Okkur kvennalistakonum hefur lengi fundist að þær áherslur sem ríkt hafa í landinu í húsnæðismálum hafi ekki verið alls kostar réttar og málefni leigjenda hafi legið þar óbætt hjá garði. Eins og fram kemur í greinargerð þessa frv. hefur orðið allt önnur þróun hér á landi í húsnæðismálum en það sem við þekkjum frá Norðurlöndum. M.a. kemur fram í greinargerð að árið 1920 voru 62,9% íbúða í Reykjavík leiguíbúðir en eins og nú háttar eru á bilinu 15--20% landsmanna leigjendur. Þetta ræðst auðvitað af þeirri lífskjarabyltingu sem hefur átt sér stað og þeirri stefnu sem ríkt hefur í húsnæðismálum að sem flestir skuli eiga sitt eigið húsnæði. Þessi ofuráhersla á eignarhúsnæði hefur svo aftur þýtt það að framboð á leiguhúsnæði hefur verið mjög af skornum skammti og leiga há. En ákveðnir hópar komast ekki hjá því að leigja ýmist til lengri eða skemmri tíma. Þar má nefna námsmenn, ungt fólk, fatlaða, aldraða, láglaunafólk, einstæða foreldra og fleiri. Hugmynd okkar kvennalistakvenna hefur verið að það ættu að ríkja einhverjir valkostir í þessum málum, menn ættu einfaldlega að geta valið um það að leigja eða búa í eigin húsnæði.
    Þær breytingar sem gerðar voru árið 1990 á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. sá kafli sem varðaði félagslegt húsnæði, auðvelda sveitarfélögum að beina sjónum að leiguíbúðum, það auðveldar þeim að afla sér lánsfjár og að byggja leiguíbúðir. Mér þætti fróðlegt að heyra frá félmrh. hver þróunin er. Er merkjanleg einhver þróun í þeim efnum? Er eitthvað meira um að sveitarfélögin byggi leiguhúsnæði en áður? Er straumurinn eitthvað í þá átt?
    Í þessum lagabreytingum sem urðu árið 1990 voru sett í lögin ákvæði um svokallaðar húsnæðisnefndir sem m.a. var falið að annast málefni leigjenda. Mig langar líka að spyrja félmrh. hvort einhver reynsla sé komin á það. Er málefnum leigjenda í sveitarfélögum sinnt eitthvað betur en áður? Það vekur auðvitað þær spurningar, ef svo er ekki, hvort eitthvað þurfi að herða ákvæði sem snerta þau mál.
    En auðvitað snýst framboð á leiguhúsnæði meira og minna um fjármagn, að fjármagni sé varið sérstaklega til byggingar leiguhúsnæðis. Ég minni á að oft eru það hinir lægst launuðu sem búa í leiguhúsnæði. Mig langar líka í þessu sambandi að spyrja hæstv. félmrh. um hugmyndir varðandi það að auðvelda íbúðareigendum að leigja. Nefndin sem endurskoðaði félagslega húsnæðiskerfið velti fyrir sér þeirri hugmynd hvort ekki væri rétt

að veita íbúðareigendum hugsanlega afslátt af eignarsköttum í því skyni að auka framboð á leiguhúsnæði. Ég hef ekki orðið vör við að þessi hugmynd hafi komist til framkvæmda og væri forvitnilegt að heyra hvort eitthvað slíkt hafi verið rætt.
    Gaman er að geta þess að í greinargerðinni er allnokkur sögulegur inngangur að málinu. Hér kemur í ljós að það var borgarstjórinn í Reykjavík, Knud Zimsen, sem beitti sér fyrir fyrstu setningu húsaleigulaga í Reykjavík eða á landinu og væri gaman ef Sjálfstfl. tæki sér þetta til fyrirmyndar og sinnti málefnum leigjenda betur en hann hefur gert hingað til. Þessi saga er nokkuð merkileg því að ýmist hafa verið í gildi lög um húsaleigu eða engin lög. Á stríðsárunum ríkti náttúrlega mjög sérstakt ástand þar sem hreinlega voru sett lög til að halda leigu niðri. Það er merkilegt sem hér kemur fram að þegar þau voru afnumin þá var það gert alls staðar á landinu nema í Keflavík. Fram til ársins 1979, þegar núv. lög tóku gildi, voru einungis lög um húsaleigu í Keflavík og sennilega hefur það nú eitthvað tengst veru hersins þar um slóðir.
    Í frv. er að finna margar breytingar frá núgildandi lögum. Ég hef ekki gefið mér tíma til að kynna mér þetta nógu vel en mér sýnist að mjög margt sé til bóta enda var þetta mikil sómanefnd sem ráðherrann skipaði, fólk þar sem þekkir mjög vel til þessara mála. Mér sýnist að bæði sé verið að afnema eitt og annað sem verður að teljast úrelt en jafnframt að herða á ákvæðum í ljósi fenginnar reynslu.
    Ég ítreka að ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram og vona að það fái skjótan framgang í þinginu. Enda er þetta þarft og gott mál.