Húsaleigulög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:17:00 (5468)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það frv. sem um ræðir er eitt af töluvert vænum bunka stjórnarfrv. sem hafa verið lögð fram núna síðustu dagana. Ég vil hafa um það örfá orð í 1. umr. málsins. Ég á sæti í hv. félmn. sem fær þetta mál til meðferðar og hægt er að skoða þar nánar einstakar greinar frv. Ég er sammála hv. 18. þm. Reykv. að um þarft mál er að ræða og þarft að fjalla um málefni leigjenda sem eru nokkuð stór hópur þjóðfélagsþegna þótt þeim hafi fækkað á undanförnum árum eins og kemur fram í athugasemdum frv. Þarna er stór hópur ungs fólks, sem er að byrja búskap, og allstór hópur fólks, sem stendur höllum fæti í þjóðfélaginu, sem verður að leigja sér húsnæði og síðan þeir sem af einhverjum ástæðum kjósa þetta form íbúðar.
    Núv. húsaleigulög eru ekki ýkja gömul. Eins og kemur fram eru þau ekki nema 13 ára. Út af fyrir sig leysir lagasetning ekki allan vanda leigjenda. Þetta er harður markaður sem byggist á framboði og eftirspurn og það ræður skilmálunum, kannski í allt of ríkum mæli. En eigi að síður þarf auðvitað að vera skýr og einfaldur lagarammi um þessa starfsemi. Hann þarf auðvitað að byggjast á því sem er siðlegt og sanngjarnt eins og öll lög eiga að gera.
    Á bls. 21 er gerð grein fyrir helstu breytingum sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að þær séu flestar til bóta og ég styð meginefni þessa frv. þó að ég hafi auðvitað almennan fyrirvara á því varðandi það sem upp kemur í starfi nefndarinnar. Forgangsréttur leigjenda er aukinn verulega og er það auðvitað til bóta. Vandinn varðandi réttindi og réttinn til leigutaka og leigusala er að hafa hæfilegt jafnvægi þannig að það verði fýsilegur kostur fyrir leigusala að leigja út húsnæði og að séu skýrar og einfaldar reglur þar um. Ég hef ekki athugasemdir um að fella niður ákvæðu um fardaga. Ég vil gera þá athugasemd við hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem er aukið hér samkvæmt frv. varðandi leigumál, að það verður auðvitað að gera ráðstafanir þegar þar að kemur að Húsnæðisstofnun verður fær um að taka við þessu hlutverki. En það mál kemur auðvitað til meðferðar á sínum tíma vegna þess að lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót.
    Ég tel eðlilegt að ákvæði um húsaleigunefndir falli brott. Nýbúið er að setja á stofn húsnæðisnefndir sveitarfélaga samkvæmt nýjum lögum um félagslegar íbúðir sveitarfélaga þannig að ég tel ástæðulaust að hafa tvöfalt kerfi hvað þetta snertir. Sömuleiðis tel ég til einföldunar að byggingafulltrúaembætti sveitarfélaga taki við hlutverki sérstakra úttektarmanna. Ég hef yfirleitt trú á að það sé til bóta að sameina þessi verkefni eins og kostur

er. Byggingafulltrúarnir vinna mikið varðandi byggingarmál og íbúðarmál yfirleitt og þetta fellur ekki illa að þeirra starfssviði. Leitast hefur verið við að draga úr formfestu núgildandi laga hvað varðar skyldur aðila um skriflegar tilkynningar.
    Ég tók áðan fram að ég tel að lög um þessi atriði, húsaleigulög, eigi að vera einföld og setja skýrar starfsreglur. Auðvitað er nauðsyn að verja rétt leigjenda eftir föngum og ég tel sérstaklega til bóta þau ákvæði í frv. að ekki sé hægt að heimta fyrirframgreiðslu af leigjendum um langan tíma og setja afarkosti í þeim efnum eins og því miður hefur oft heyrst. Satt að segja heyrast ótrúlegar lífsreynslusögur af því hvað leigjendum er boðið upp á þegar leigumarkaður er þröngur. Hins vegar verður auðvitað að vera visst jafnvægi í þessu þannig að framboð á leiguhúsnæði sé tryggt. Reglurnar mega auðvitað ekki vera það harðar í garð leigusala að það freisti hans ekki að leigja út ef hann hefur húsnæði aflögu. En eigi að síður er nauðsynlegt að hafa það sjónarmið í huga að tryggja rétt þeirra sem leigja. Þótt ég sé síður en svo að alhæfa standa margir í þessum hópi höllum fæti og eiga kannski erfitt með að ná fram rétti sínum. En auðvitað er fjöldinn allur af leigjendum. Hópar manna sem hafa kosið þetta form á búsetu sinni og er ekkert um það að segja.
    Ég endurtek að ég er í flestum efnum fylgjandi þessu frv. Ég mun taka þátt í að skoða það í nefnd vandlega og hef fyrirvara um þann stuðning ef einhver vandkvæði koma upp sem liggja ekki ljós fyrir nú en ég ætla ekki að hafa fleiri orð við þessa umræðu.