Útboð

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:40:00 (5472)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég kem til að taka undir það sem fram kemur í þáltill. Ég tel nauðsynlegt að farið verði ofan í þessi mál til að auðvelda útboð, til að leikreglurnar séu ljósar, til að ekki þurfi að vera neinn vafi á því hvar menn standa í þeim efnum.
    Það er ljóst, eins og kemur fram í greinargerð með þáltill., að staðallinn ÍST 30 hefur verið notaður við útboð. En það breytir ekki því að nauðsynlegt er að fá skýrari reglur um þetta efni hér á landi.
    Við höfum um nokkurt skeið verið að fjalla um í iðnn. frv. um staðla og þó það komi þessu máli ekki beinlínis við þá tengjast þessi mál öll saman að sjálfsögðu.
    Ég vil geta þess, virðulegur forseti, að ég hef undir höndum ræðu sem flutt var fyrir utanríkismálanefnd EB-þingsins, REX-nefndina svokölluðu. Þar kemur fram að sá sem

flytur þessa ræðu er herra Van der Pas. Ég tek fram að þetta er skrifað á ensku og þýðingin er mín. Þetta er kannski ekki góð þýðing en vonandi kemst efnið til skila. Þar segir um útboð, sem er mjög mikilvægur þáttur innan bandalagsins og reyndar innan alls Evrópska efnahagssvæðisins, með leyfi forseta:
    ,,Hérna verða einnig EFTA-löndin að taka við okkar löggjöf í heild sinni`` --- eða ,,in toto`` eins og segir. ,,Aðlögunartími hefur verið samþykktur fyrir tvö lönd, þ.e. Sviss og Noreg.`` Kannski þarf Alþingi því ekki að fela iðnrh. að skipa nefnd eins og kemur hér fram til að semja frv. til laga um útboð, kannski verður þetta auðveldur leikur og kannski er þegar búið að ákveða að við eigum að taka í heilu lagi við þessari löggjöf. Þar af leiðandi hefur Ísland eða Alþingi ekkert annað að gera en stimpla þessi lög Evrópubandalagsins þegar þar að kemur ef samningur um Evrópskt efnahagssvæði verður staðfestur hér á landi og þá er þessi tillaga kannski óþörf.
    Ég hef þá trú að það geti vafist fyrir mörgum að samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þess vegna sé ástæða til að Alþingi álykti að fela iðnrh. að semja frv. sem mundi henta okkur þótt það sé að sjálfsögðu eðlilegt að taka mið af því sem gerist í nágrannalöndunum. Ég hef ekki trú á öðru en að sú lagasetning sem þarna er um að ræða geti verið okkur til fyrirmyndar vegna þess að við höfum yfirleitt litið til annarra landa, t.d. okkar nágrannalanda, um þessi mál. Við verðum að gera okkur grein fyrir að í þessum málum getum við ekki haft reglur og lög sem ekki eru viðurkennd af nágrannalöndunum. Við gerum ráð fyrir því að í mjög mörgum málum er auðvitað um alþjóðleg útboð að ræða en ekki eingöngu útboð á innanlandsmarkaði. Ég vildi geta þess, virðulegur forseti, í tengslum við málið að kannski ættum að hafa nú þegar í höndum þann lagabálk sem gildir um þetta hjá Evrópubandalaginu til þess að gera okkur grein fyrir því hvort hann henti okkur. Ef ég man rétt eða veit rétt þá er ekki búið að þýða hann eða setja í þannig form að við höfum aðgang að honum. Mér hefur ekki tekist að ná í þennan lagabálk, kannski vegna þess að ég hef ekki beitt mér nægilega vel í þessum efnum.