Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 18:14:00 (5479)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til breytinga á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, og fjallar frv. um þá breytingu að tilteknu hlutfalli í greiðslumiðlun verði ráðstafað til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands, en því hefur fram til þessa verið ráðstafað til Farmanna- og fiskimannasambandsins eingöngu. Enn fremur leggjum við til að í viðkomandi grein laganna komi málsgrein sem mælir fyrir um að sjútvrh. setji reglur um skiptingu þessa fjár milli þessara tveggja samtaka.
    Í grg. með frv. kemur fram að það er til orðið vegna erindis Vélstjórafélags Íslands en það hefur nýlega verið stofnað og vélstjórar þar með gengið úr Farmanna- og fiskimannasambandinu. Með þessu er ætlað að samtök þeirra fái sinn hlut í þessari greiðslumiðlun til stéttarsamtaka sjómanna. Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu eftir að hafa athugað erindi Vélstjórafélags Íslands og fengið umsagnir annarra aðila að greiðslumiðluninni að eðlilegt væri að Vélstjórafélagið gæti fengið sinn hlut frá borði. Þar sem samtökin eru ekki á þessari stundu sammála um hvernig skiptingin megi verða þá er eðlilegra að sjútvrh. verði falið að ákveða hana í reglugerð vegna þess að hugsanlegt er að hún geti breyst á milli tímabila. Hugsanleg ástæða þess er sú að innan Vélstjórafélags Íslands eru bæði vélstjórar sem starfa á sjó og á landi. Nefndin hefur ekki á þessu stigi óskað endurumsagnar og úr varð að frv. flytja nefndarmenn allra þingflokka og áheyrnarfulltrúi Kvennalistans að nefndinni sem hefur starfað með nefndarmönnum.
    Ég mælist svo að lokum til þess að frv. verði sent eðlilega leið til síðari umræðna og umfjöllunar í hv. sjútvn.