Starfsmenntun í atvinnulífinu

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 13:54:00 (5481)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um grundvallaratriði í menntastefnu í landinu, þ.e. það grundvallaratriði hvort menn vilja halda því áfram að hafa skil, jafnvel múra, á milli atvinnulífs og skóla eða hvort menn vilja stuðla að því að skólar og atvinnulíf nái sem bestri samstöðu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að leggja áherslu á þetta atriði og þess vegna hafa þingmenn Alþb. flutt þessa tillögu og ég tel að það verði mjög eftirtektarvert upp á seinni tíma hvaða afstöðu einstakir þingmenn taka til þessarar mikilvægu tillögu. Ég tel það mikilvægt að hún verði samþykkt og ég segi já, herra forseti.