Veitinga- og gististaðir

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 14:39:00 (5489)

     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér kemur fram þriðja frv. í röð um skipulag ferðamála og það sem að þeim málum lýtur. Í fyrri viku var búið að ræða ýmislegt um það samhengi. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu hér. Hins vegar finnst mér í frv. sem liggur fyrir vægast sagt allmargt orka tvímælis. Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Austurl. ræddi um að eitt og annað virðist stangast á þarna. Ég tek upp þráðinn þar sem rætt var um það sem segir í greinargerð, með leyfi forseta: ,,Þá er gert ráð fyrir að nánari reglur um skipulag og starfsemi samkvæmt frv. verði settar samkvæmt tillögum stjórnar Ferðamálaráðs Íslands`` o.s.frv. Ég hefði gjarnan viljað vita við hvað er átt. Hvað er stjórn Ferðamálaráðs Íslands? Og þá vísa ég til laga um skipulag ferðamála sem í gildi eru, nr. 79/1985, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Ferðamálaráð Íslands fer með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgrn.`` Síðan segir aftur í 5. gr.: ,,Samgrh. skipar fimm manna framkvæmdastjórn til fjögurra ára.`` Er verið að tala um þessa framkvæmdastjórn eða er verið að tala um eitthvað annað þegar í greinargerð er talað um stjórn Ferðamálaráðs? Ég vil upplýsa skilning okkar ferðamálaráðsmanna sem við leggjum í þessi lög en það er að framkvæmdastjórn, orðið sjálft og stofnun þessarar framkvæmdastjórnar með lögum um Ferðamálaráð, feli í sér nákvæmlega það sem orðin hljóða. Að framkvæmdastjórn sé ekki ætlað að fara með hlutverk Ferðamálaráðs heldur að framkvæma ályktanir Ferðamálaráðs og vilja. Sé þetta eitthvað öðruvísi og sé einhver stjórn sem ég þekki ekki þarna vildi ég gjarnan fá það upplýst því mitt mat á þessum lagagreinum er einfaldlega að Ferðamálaráð eigi að annast það hlutverk sem því er falið með þessum lögum, þ.e. að fara með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgrn., en framkvæmdastjórn sé ekki til þess sett að taka ákvarðanir eða stefnumótandi málefni upp fyrir hönd Ferðamálaráðs heldur fyrst og fremst að fara með framkvæmd mála milli funda. Þetta er ástæðan fyrir því að ég vildi gjarnan fá nánar skýrt hvað felst í orðunum ,,stjórn Ferðamálaráðs``.
    Fleiri atriði eru í þessu. Það er nýmæli að ekki er gert ráð fyrir leyfi til veitingarekstrar eða starfrækslu gististaða. Ég velti því verulega fyrir mér hvort það ákvæði sé til bóta eða ekki. Ég hallast frekar að því að það sé ekki til bóta. Það er verið að slaka á kröfum að mínu mati til þess að setja upp starfsemi af þessu tagi á sama tíma og við blasir allt í kringum okkur að margir fara út í þennan rekstur sem

ekki hafa til þess þekkingu og hafa farið býsna flatt á því og kostað þjóðfélagið þó nokkurt fjármagn í gjaldþrotum. Ég held að frekar sé ástæða til að herða þessar kröfur en rýmka þær. Svo er líka annað sem manni dettur í hug. Fyrir nokkrum vikum var afar litskrúðug frásögn fréttamanns, sem staddur var úti á Ítalíu, af veitingastað þar í landi. Það var greinilegt að sá veitingastaður hefði ekki fengið leyfi hér samkvæmt gildandi lögum til veitingarekstrar. Fátt eitt af því sem þar var lýst hefði verið til þess fallið að við hefðum getað sætt okkur við slíkan matsölustað. Nú er ég kannski ekki að segja að þetta muni leiða til þess að við fáum eitthvað í þá veru en samt sem áður tel ég fulla ástæðu til að við fylgjumst með því að íslenskir matsölu- og gististaðir standi undir þeim væntingum sem við viljum að gerðar séu til þeirra og að þeir séu samboðnir þeirri þjónustu sem við viljum veita bæði innlendum og erlendum ferðamönnum.
    Enn fremur stendur í athugasemdum við lagafrv., með leyfi forseta: ,,Í frv. er ekki gert ráð fyrir að flokkun veitinga- og gististaða sé bundin í lög, heldur skuli kveðið á um hana í reglugerð.`` Þetta get ég ekki lesið út úr lögunum því að í 5. gr. lagafrv. stendur ekki að setja skuli í reglugerð heldur segir þar að samgrh. sé heimilt að setja í reglugerð. Þarna stangast á texti frv. og aftur athugasemdir. Ég vek athygli á því að það er alls ekki svo að það skuli gera þetta heldur er heimild fyrir hendi.
    Það er líka rétt að velta því fyrir sér hvort flokkun eigi heima í reglugerð frekar en lögum eins og áður var. Í fyrri lögum, nr. 67/1985, er gert ráð fyrir að flokkun sé með ákveðnum hætti sem þar er nánar tilgreint. Hérna er ráð fyrir því gert að heimilt sé að setja um þetta reglugerð, það er alls ekki skilyrt í lögunum að setja skuli reglugerð heldur að samgrh. sé þetta heimilt. Ég er ekki viss um að þetta sé til bóta eða að það eigi heima í reglugerð. Ég held að rétt sé hjá okkur að kveða á um frumskipulag þessara mála með skýrum hætti og það eigi heima áfram í þessum lögum eins og hefur verið. Hitt get ég vel fallist á að 13. gr. fyrri laga þurfi ekki endilega að vera í lögum þar sem kveðið er á um að gististað sé heimilt að halda farangri gesta til tryggingar skuldum þeirra. Það mætti kannski eiga heima annars staðar. Mér er reyndar ekki kunnugt um að hvað miklu leyti þetta hefur verið gert.
    Þá kem ég hér að atriði sem mér finnst vera mjög sérkennilegt og óska sérstaklega skýringar á. Það er í 1. gr. þar sem kveðið er á um til hverra lögin taka. Þar segir að þau taki til sölu á gistingu, sölu veitinga, annarra en áfengis, og leigu á samkomusölum í atvinnuskyni --- síðan er bætt við klausu sem kemur mjög á óvart --- þar með er talinni veitinga- og gistisölu ferðabænda.`` Hver er ástæðan fyrir því að þeir eru teknir þarna með alveg sérstaklega en ekki einhverjir aðrir? Af hverju þá ekki Eddu-hótel á Íslandi sem eru sérstakur flokkur? Af hverju ekki gistiheimili á höfuðborgarsvæðinu eða hvaðeina annað? Hver er skýringin á því að veitinga- og gistisala ferðabænda á þarna sérstakan sess í 1. gr.? Tæpast er skýringin á því sú að þessi þjónusta hafi ekki staðið sig eða staðið undir þeim kröfum sem gerðar hafa verið til hennar vegna þess að það er nýlega staðfest að svo er. Þeir hafa fyllilega staðið undir þessum kröfum. Framkvæmdastjóri Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda fullyrti í fjölmiðlum árið 1991 að ferðaþjónustubændur störfuðu flestir án leyfis og uppfylltu ekki þessi skilyrði. Þetta varð til þess að Hollustuvernd ríkisins var fengin til að rannsaka þessi mál. Sú rannsókn leiddi í ljós að 90% ferðaþjónustubænda höfðu gild heilbrigðisleyfi og í sumum tilfellum, þar sem leyfi voru ekki fyrir hendi, voru eðlilegar skýringar á því, t.d. að það vantaði heilbrigðisfulltrúa á staðinn eða svæðið til að taka staðinn út. Það var m.a. ástæðan fyrir því sem á vantaði þarna. Þess vegna finnst mér afar sérkennilegt að þessi þjónusta skuli tekin út sérstaklega og látið að því liggja með þeim hætti að það þurfi aldeilis að taka til hendinni. En staðreyndin er sú, eins og ég hef rakið, að Ferðaþjónusta bænda hefur frekar rutt brautina að því að uppfylltar séu þessar kröfur. Mér finnst skrýtið að Ferðaþjónusta bænda, sem hefur verið sá vaxtarbroddur í ferðaþjónustunni sem langmest hefur vaxið undanfarin ár og líklega hefur verið okkur til hvað mests sóma og staðið að verulegri landkynningu, skuli fá þessa hnútu hér í frv. til laga og vildi gjarnan fá skýringu á því hvort einhver sérstök ástæða sé fyrir því eða hvort þetta er þarna inni af handahófi og þá af hverju.
    Að öðru leyti hef ég á þessu stigi ekki fleiri athugasemdir en mér finnst dálítið sérkennilegt að sjá hvernig frv. er unnið og hvernig það er sett fram þar sem hvað rekst á annars horn.