Veitinga- og gististaðir

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:00:00 (5491)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. frá hæstv. samgrh. sem breytir ákvæðum laga um veitinga- og gististaði. Því miður er það ekki sú heildarendurskoðun laga um ferðaþjónustu að líta dagsins ljós sem hæstv. ráðherra hafði þó boðað og lofað að yrði eitt af hans fyrstu málum á þessu þingi. Sömuleiðis eru um það ákvæði í stjórnarsáttmála. Niðurstaðan er því miður sú að hæstv. ráðherra hróflar í raun og veru ekki við meginlagabálkinum, lögum um skipan ferðamála, en er með breytingar á öðrum atriðum laga á þessu sviði. Þannig er á engan hátt samræmi í endurskoðun á þessum málum sem æskilegt hefði verið og stefnt hafði verið að af hálfu fyrri ríkisstjórnar með heildarendurskoðun allra helstu lagaákvæða sem varða ferðaþjónustuna sem atvinnugrein.
    Það frv. sem hæstv. samgrh. sá ekki ástæðu til að hafa ýkja mörg orð um í framsöguræðu sinni, lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér en þó er ýmislegt í því sem ég tel að þurfi að athuga.

    Í fyrsta lagi vil ég nefna 2. gr. frv. þar sem mælt er fyrir um skilyrði þess að stunda starfsemi samkvæmt lögunum. Þar segir:
    ,,Ábyrgðaraðili, einstaklingur eða félag, þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði til að stunda starfsemi samkvæmt lögum þessum:`` --- Þ.e. starfsemi á sviði veitinga- og gistiþjónustu eða þess rekstrar í landinu. Og svo koma skilyrðin:
 .,,a. vera fjárráða,
    b. hafa forræði á búi sínu,
    c. eiga varnarþing á Íslandi.``
    Með öðrum orðum, það eru engin önnur takmarkandi ákvæði hvað varðar eignarhald erlendra aðila í greininni samkvæmt frv. en þau að viðkomandi þurfi að eiga varnarþing á Íslandi.
    Nú er það nánast formsatriði að skrá viðkomandi fyrirtæki hér á landi og láta það eiga varnarþing hér. Í því felst í sjálfu sér engin takmörkun af neinu tagi varðandi reksturinn sem slíkan eða eignarhald í honum. Þetta vekur nokkra athygli vegna þess að í gildandi lögum, nr. 67/1985, er eitt af þremur skilyrðum þess að öðlast leyfi til atvinnurekstrar að umsækjandi sé heimilisfastur á Íslandi og hafi verið það síðustu ár. Það má veita félagi þennan rétt, fullnægi ábyrgðarmaður þess sama skilyrði, þ.e. sé heimilisfastur á Íslandi og hafi verið það síðustu ár.
    Nú er það svo að samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri skuli gilda þær takmarkanir sem annars vegar er að finna í þeim lögum sem afgreidd voru á Alþingi 15. mars. 1991 eða þær takmarkanir sem er að finna í sérlögum. Í 3. gr. laga um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, segir svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum sem í þessum lögum eða sérlögum greinir.``
    Þannig er alveg ljóst að þegar lögin um fjárfestingar erlendra aðila voru sett lágu fyrir þær takmarkanir sem voru fyrir hendi og eru enn í lögum um veitinga-og gististaði á fjárfestingum erlendra aðila í greininni. Mér er nær að halda að hefði því ekki verið til að dreifa hefðu menn hneigst til þess að skoða ferðaþjónustuna sérstaklega jafnvel að setja inn um hana takmarkandi ákvæði eins og sett var til að mynda inn í lög um flugrekstur. Ferðaþjónustan var talsvert til umræðu í þessu sambandi og menn viðurkenna að hún sé ein af hinum viðkvæmu atvinnugreinum þar sem full ástæða er til að gæta sín á að Íslendingar missi ekki um of forræði á greininni úr sínum höndum. Þar koma ekki bara til efnislegar hagsmunaástæður, heldur líka hitt að ferðaþjónustan byggir á nýtingu viðkvæmrar auðlindar sem er náttúra landsins. Ég hygg að ekki þurfi langar, miklar eða flóknar röksemdafærslur til að leiða að því líkum að það sé ákaflega óheppilegt að við Íslendingar missum um of tökin á þróun mála í greininni.
    Um flugreksturinn segir t.d. í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri að samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundi flugrekstur hér á landi megi á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%. Með öðrum orðum tryggð er meirihlutaeignaraðild Íslendinga í öllum þeim fyrirtækjum sem með flugrekstur fara í landinu.
    Þetta ákvæði var sett sérstaklega inn til þess að tryggja stöðu okkar og til þess að Íslendingar gætu í gegnum meirihlutaeignaraðild jafnan nýtt sér gagnkvæmnisrétt sinn á grundvelli loftferðasamninga í flugrekstri. Takmarkandi ákvæði voru sett inn um bankastarfsemi t.d. og fleiri slík svið þar sem ástæða þótti til og ekki var ákvæðum í sérlögum til að dreifa sem menn töldu fullnægjandi. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. samgrh. í fyrsta lagi: Hvað veldur þeirri stefnubreytingu sem birtist í því að í 2. gr. frv. er ekki að finna nein takmarkandi ákvæði varðandi eignarhald útlendinga í þessum atvinnurekstri? Hvað veldur því að ákvæði um heimilisfesti einstaklinga eða ábyrgðarmanna lögaðila á Íslandi sem forsendu atvinnuleyfis eða skráningar, eins og lagt er til skv. 3. gr. frv., er fellt niður? Er ný stefna á ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn um að opna gáttirnar mun meira í þessum efnum en gert var við setningu laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á sínum tíma, fyrir ekki lengri tíma en einu ári rúmu?
    Í öðru lagi spyr ég um þá breytingu sem felst í 2. gr. frv. borið saman við 2. gr. gildandi laga. Þar er í 3. mgr. kveðið á um að nafn á fyrirtæki og/eða atvinnustarfsemi skuli falla að hljóðkerfi og beygingum í íslensku máli. Væntanlega hefur þótt ástæða til að taka þetta fram og undirstrika í lögum um þessa tegund starfsemi eða þjónustu sem á mikil viðskipti við erlenda menn og ástæða til að ætla að tilhneigingar mundi gæta til þess að taka upp erlendar nafngiftir og nota jafnvel erlent mál í ríkum mæli. Þess vegna er þetta ákvæði í gildandi lögum sem tryggir það að nafn á fyrirtæki eða atvinnustarfsemi í þessari grein skuli falla að hljóðkerfi og beygingum í íslensku máli. Fróðlegt er að vita hvað hæstv. samgrh. segir í öðru lagi um þetta atriði og bið ég hann að skrá þessar spurningar hjá sér og reyna að svara þeim skilmerkilega.
    Hæstv. ráðherra hefur á köflum nokkuð gert af því að gerast gæslumaður hinnar íslensku tungu og er það vel. Það kemur þess vegna nokkuð á óvart að hann skuli vera forgöngumaður um að fella niður verndandi ákvæði af þessu tagi og ætluð voru til þess að hamla gegn erlendum áhrifum í málinu. E.t.v. er það mat hæstv. ráðherra að fullnægjandi ákvæði séu í almennum lögum á þessu sviði, óþarft að taka það fram sérstaklega í lögum um veitinga- og gististaði. En þá væri æskilegt að hæstv. ráðherra svaraði því og gerði okkur þá grein fyrir því að ekki er um mistök eða aðgæsluleysi að ræða.
    Í þriðja lagi varðandi 2. gr. frv. Þar er í síðustu mgr. gildandi laga eftirfarandi setning, með leyfi

forseta:
    ,,Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um menntun starfsfólks veitinga- og gististaða sem lög þessi taka til og binda leyfi samkvæmt lögum þessum skilyrðum er að því lúta.``
    Með öðrum orðum er beinlínis gert ráð fyrir því að kröfur um menntun starfsfólks sem vinnur í greininni geti verið forsenda starfsleyfis, þetta tvennt bundið saman í leyfisveitingunni. Þetta er allt fellt niður skv. 2. gr. frv. hæstv. ráðherra og verður þess vegna ekki séð að þau ákvæði sem síðan koma í 5. gr. frv. og gera ráð fyrir að samgrh. sé heimilt að setja í reglugerð ákvæði um menntun starfsfólks og um búnað og flokkun gisti- og veitingastaða --- með því að horfið er frá leyfisveitingunni og yfir í skráningu sem frv. byggir á er jafnframt lokað fyrir þann möguleika að forsenda leyfisveitingarinnar geti verið að fullnægt sé tilteknum menntunarkröfum. Þarna er sambandið rofið með því að hverfa frá leyfisveitingunni og mér sýnist alveg ljóst að það sé ekki jafnsterk staða af hálfu yfirvalda til að tryggja að starfsemin byggi á nægjanlega vel þjálfuðu og menntuðu starfsfólki eða viðleitni sé a.m.k. í gangi til að tryggja að svo sé. Skráningin byggir á allt öðrum forsendum eins og ég kem nú að.
    Ég spyr hæstv. samgrh. í þriðja lagi hvað valdi því að tekin er út úr lögunum sú heimild, sem ráðherra hefur haft, að skilyrða leyfisveitingu sem í þessu tilfelli gæti verið skráningin við það að tilteknum kröfum um menntun starfsfólks sé fullnægt. Það er auðvitað venjulegt í fjölmörgum greinum atvinnulífs að starfsleyfi séu bundin því að tilteknum menntunarkröfum sé fullnægt og er þá sama hvort átt er við t.d. ýmsa samgönguþætti þar sem ákveðin réttindi eru forsenda rekstrarleyfis fyrir skipum, flugvélum o.s.frv. ekki bara þeirra sem stjórna viðkomandi förum heldur líka þeirra sem annast viðhald og eftirlit eða öryggismál, samanber flugrekstrarstjóra og öryggisstjóra í flugrekstri. Sambærilegar kröfur eru auðvitað um allt í atvinnulífinu og ég sé ekki í fljótu bragði að ástæða sé til að slaka á kröfum hvað þetta snertir í ferðaþjónustu.
    Ég sé ekkert sem mælir með því að einmitt núna séu aðstæður þannig, þegar sem betur fer talsvert er af sérmenntuðu fólki á þessu sviði sem er loksins að koma til starfa í ferðaþjónustu, að þá sé rétti tíminn til að fella úr gildi þá einu möguleika sem í lögum hafa verið til að binda starfsleyfi við ákveðnar menntunarkröfur. Mér finnst það alger tímaskekkja og koma úr hörðustu átt og satt best að segja ansi sláandi fyrir það metnaðarleysi sem ég tel að sé í þessu frv. og undir einhverri misskilinni hugsjón af því tagi að hlutirnir séu yfirleitt betri þeim mun stjórnlausari sem þeir eru. Það er ekki mín skoðun. Ég held að fátt hafi sannað okkur að það sé til bóta að sleppa með öllu að gera ákveðnar menntunarkröfur eða hafa eftirlit með starfsemi á viðkvæmu sviði af þessu tagi. Það á ekkert skylt við einhverja áráttu til að vilja miðstýra hlutunum eða hafa þar einhverja ríkisforsjá. Þvert á móti er einmitt forsenda þess að unnt sé að láta einkarekstur annast starfsemi af þessu tagi að fyrir hendi séu skýrar kröfur um metnað og gæði í þeirri þjónustu, þannig að engin hætta sé á því að þar sé slakað á.
    Í 3. gr. frv. eru svo ákvæði um þessa skráningu sem á að koma í stað leyfisveitingar áður og þó auðvitað ekki í stað hennar vegna þess að um einhliða skráningu er þarna að ræða, þ.e. að alls ekki er gert ráð fyrir því að lögreglustjóri synji um skráningu í neinum þeim tilvikum sem kröfum samkvæmt ákvörðunum annarra aðila er fullnægt, þ.e. hafi sveitarstjórn, eldvarnaeftirlit eða heilbrigðisnefnd ekki lagst gegn eða fundið eitthvað athugavert við áform viðkomandi aðila um rekstur þá ber lögreglustjóra að skrá viðkomandi aðila og hefur ekkert vald í þeim efnum, hann er einhvers konar fundaritari hjá þessum aðilum. Ég veit í sjálfu sér ekki hvort það er nein ástæða til að vera að ónáða lögreglustjóra sérstaklega við það að færa þessa skrá úr því að ekkert vald fylgir skráningarréttinum. Þarna er ósköp einfaldlega um einhliða skráningu að ræða.
    En þá kem ég að fjórða atriðinu sem ég vil spyrja hæstv. samgrh. um og það er ósköp einfaldlega: Hvers vegna er Vinnueftirlitið fellt niður úr upptalningu þeirra aðila í 3. gr. sem hins vegar samkvæmt gildandi lögum skulu gera úttekt á vinnustöðum af þessu tagi og samþykkja þá? Í 3. gr. gildandi laga um veitinga- og gististaði laga, nr. 67/1985, segir einfaldlega:
    ,,Lögreglustjóri veitir leyfi samkvæmt lögum þessum, að fenginni umsögn sveitastjórnar, eldvarnaeftirlits, heilbrigðisnefndar og vinnueftirlits.``
    Hér er Vinnueftirlitið ekki nefnt á nafn. Það hlýtur þá að merkja að þarna eigi að verða sú breyting á að hætt verði að hafa samband við Vinnueftirlitið um starfsemi af þessu tagi og Vinnueftirlitið fái ekki til umsagnar umsóknir aðila um atvinnurekstur á þessu sviði. Ég sé ekki í fljótu bragði hvers vegna rök falla til þess að fella vinnueftirlitið eitt þarna út og held að það sé ekki síður ástæða til að þeir aðilar hafi þarna hönd í bagga heldur en aðrir sem hingað til hafa komið að því að gefa umsögn. Er þetta stefnubreyting til að auðvelda mönnum að hafa rýmri kröfur varðandi aðbúnað starfsfólks eða e.t.v. ráða starfsfólk sem ekki fullnægir þeim almennu ákvæðum eða hvers aðbúnaður fullnægir ekki þeim almennu ákvæðum sem ætlast er til samkvæmt íslenskri löggjöf? Á þetta e.t.v. að auðvelda mönnum að ráða hér inn ófaglært erlent verkafólk á einhverjum svörtum kjörum til að starfa við uppvaskið í íslenskum veitingahúsum? Er það metnaðurinn sem í þessu felst, að innleiða það fyrirkomulag sem við þekkjum sums staðar erlendis frá? Það er von að spurt sé. Ég vona að hæstv. ráðherra sé ekki svo upptekinn við bókalestur að hann a.m.k. nái þessari spurningu. Hver er ástæðan fyrir því að allt valdsvið Vinnueftirlitsins er fellt út úr frv. hæstv. ráðherra?
    Sú er og breyting á að skv. 3. gr. gildandi laga er leyfið bundið við nafn og stað og er ekki framseljanlegt. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að hvert leyfi er gefið út á viðkomandi aðila beint á hans nafn og á viðkomandi stað og er ekki framseljanlegt öðrum. Þetta þýðir og að verði eigendaskipti á staðnum eða annar aðili taki þar við rekstri eða starfsemin flytji sig um set þá er sjálfkrafa gefið út nýtt leyfi. Þannig er það samkvæmt gildandi lögum en verður ekki samkvæmt frv. því að þar er einmitt gert ráð fyrir því að nýr ábyrgðaraðili geti tekið við rekstrinum og sé þá eingöngu tilkynnt um það til viðkomandi lögreglustjóra. Það verður ekki séð að þá skuli fara fram endurskráning heldur eingöngu tilkynnt til viðkomandi lögreglustjóra. Hann hefur jú eins og ég hef áður gert grein fyrir nánast engin völd í þessu sambandi, er eingöngu ritari fyrir hæstv. samgrh. í þessu skyni og þess vegna virðist það þjóna ákaflega takmörkuðum tilgangi að tilkynning berist honum um það að nýr ábyrgðaraðili hafi tekið við þessari starfsemi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það e.t.v. einnig svo að það sé ekki eingöngu hægt að tilkynna um nýjan ábyrgðaraðila heldur jafnvel nýjan stað fyrir atvinnustarfsemi sem áður hefur fengist skráð? Í öllu falli er orðalagið þarna galopið borið saman við það sem er í gildandi lögum. En þar er beinlínis og skýrt tekið fram að leyfið skuli bundið við stað og nafn og ekki vera framseljanlegt. Ég sé engin sérstök rök mæla með því að horfið sé frá því að leyfið skuli binda við stað og nafn og endurútgefast --- eða skráning þá ef því væri til að dreifa --- endurútgefast þá ef breyting verður á högum annars hvors eða í öðru hvoru sambandinu, þ.e. nýr ábyrgðaraðili taki við rekstrinum eða nýr staður komi til sögunnar.
    Herra forseti. Ég tel að það þurfi að athuga ýmislegt í þessu frv. þótt það sé ekki mikið að vöxtum og sé nærri eins stutt og framsöguræða hæstv. samgrh. var áðan. Ég held að þarna sé einmitt verið að breyta í vissum tilvikum býsna viðkvæmum atriðum og menn þurfi að átta sig á því hvað fyrir þeim vakir í þeim efnum. Er það ætlunin að gera grundvallarbreytingu á varðandi svigrúm erlendra aðila til rekstrar í þessari viðkvæmu atvinnugrein? Er ástæða til að henda Vinnueftirlitinu algjörlega út úr eftirliti með þessari starfsemi eða umsögnum um skráningu eða starfsleyfi nýrra aðila o.s.frv.? Ég ítreka því spurningar mínar til hæstv. ráðherra í þessu sambandi.
    Að lokum skal svo taka fram og til að geta fagnað því að vera frv. sammála í einhverju að ég sé í sjálfu sér ekki að það sé nema að mörgu leyti eðlilegt að hverfa frá því að binda flokkun gististaða og veitingastaða, eins og verið hefur, í lög. Þar er að mínu mati komið út í framkvæmdaratriði af því tagi sem að mörgu leyti er eðlilegra að hafa í reglugerð og um það get ég þess vegna vel orðið sammála að það megi alveg eins, og sé kannski heppilegra, sjá fyrir þeim hlutum í reglugerð. Það er ekkert stórmál í mínum huga og skiptir í sjálfu sér ekki sköpum hvort þessi flokkun er að einhverju eða að öllu leyti byggð á lagastoð eða hvort hún er alfarið gerð með reglugerð. Það geta verið viss rök fyrir því að æskilegt sé að geta breytt henni ef breytingar verða t.d. á aðstæðum í atvinnugreininni eða hugsanlegar breytingar verða samkvæmt alþjóðlegum stöðlum eða viðmiðunum sem hér geta haft áhrif, t.d. um gæðastaðla fyrir þjónustuna. Við þekkjum tilraunir til þess erlendis frá, alþjóðlegar að nokkru leyti, að reyna að gæðastaðla þessa þjónustu, stjörnumerkja hótel o.s.frv. Það er að vísu allfjarri því að þar sé um einhverja viðurkennda alþjóðlega kvarða að ræða eins og sumir því miður virðast halda og gefa sér að fjögurra stjörnu hótel þýði alls staðar það sama í heiminum, svo er því miður ekki. Menn geta farið harkalega flatt á því að trúa á sum fimm stjörnu hótelin í ákveðnum ónefndum heimsálfum. En það er ekki endilega það sem er til umræðu hér heldur hvernig hyggilegast er fyrir okkur að búa um þessa hluti hvað framkvæmdina snertir hjá okkur. Ég get vel fallist á að um þetta efni sé fyrst og fremst mælt fyrir í reglugerð. Ég teldi þó koma til greina að hafa grófa flokkun inni í lögunum, einhvers konar ramma sem væri þannig að ekki væri ástæða til að ætla að hann tæki miklum breytingum svona að breyttu breytanda á milli ára. En síðan væri það nánar útfært í reglugerð.
    Íslendingar hafa að nokkru leyti sérstakar aðstæður hvað þetta snertir. Við erum til að mynda að nýta í miklum mæli í rekstri ferðaþjónustunnar á sumrin húsnæði sem upphaflega er ekki hannað sem hótelhúsnæði. Þar á ég sérstaklega við heimavistarskóla. Þeir sem hafa svolítið skoðað hvernig slíkt falli að t.d. alþjóðlegri flokkun gististaða eða veitingastaða þekkja væntanlega að við Íslendingar getum rekist þar á viss vandkvæði Íslendingar ef við ætlum algerlega að heimfæra erlendar reglur upp á okkar flokkun. Það er þess vegna ýmislegt sem gerir það að verkum að við þurfum að geta að nokkru leyti haft okkar eigin útgáfu í gangi að þessu leyti.
    Herra forseti. Ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. samgrh. og ætla ekki að lengja mál mitt meira en bíð eftir að fá að heyra svör hans. Ég tel sem sagt ýmislegt við þetta frv. að athuga og er ekki endilega þeirrar skoðunar að því fylgi þau tímamót í íslenskri ferðaþjónustu að það sé í sjálfu sér mikil ástæða til að hraða framgangi þess í þinginu eða láta það hafa forgang fram yfir önnur brýn mál. Líka vegna þess að ég tel það auðvitað ákaflega dapurlegt að ekki skuli þrátt fyrir allt hafa komið fram í þinginu einhver heildstæð tilraun til að endurskoða málefni ferðaþjónustunnar og þá helst í einu og sama frv. Mér eru það auðvitað mikil vonbrigði, og sennilega meiri vonbrigði en hæstv. samgrh. sjálfum, að hann skuli ekki hafa náð fram markmiðum sínum um heildarendurskoðun á lögum um málefni ferðaþjónustunnar og harma auðvitað alveg sérstaklega hin fögru fyrirheit sem hæstv. samgrh. gaf, þá að vísu óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu, að hann mundi beita sér fyrir og vildi stórbæta starfsskilyrði ferðaþjónustunnar, m.a. fella niður af henni virðisaukaskatt, að þau skuli ekki hafa litið dagsins ljós. Það er auðvitað mikið áfall fyrir greinina og auðvitað hæstv. samgrh. líka að hafa orðið að viðurkenna að hafa engu komið fram í þeim efnum. En það er annar handleggur og fyrst er að heyra svör hæstv. samgrh. við þeim

spurningum sem hann hefur fengið frá mér og fleiri hv. ræðumönnum.