Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:33:00 (5494)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Mig langar fyrst til þess að fá svör við því hvort hæstv. forsrh. muni vera í húsinu vegna þess að ég kom þeim boðum sérstaklega til hans að ég óskaði eftir því að hann yrði viðstaddur þessa umræðu. Það er vegna forsögu málsins. Gæti ég fengið svar við því áður en ég hef mál mitt, hvort forsrh. sé í húsinu? ( Forseti: Forseti getur upplýst að hæstv. forsrh. er í húsinu og forseti mun gera ráðstafanir til þess að hann verði viðstaddur umræðuna.) Ég þakka forseta fyrir.
    Ástæðan fyrir því að ég vek máls á Fæðingarheimilinu er sú að framtíð þess er nú í verulegri hættu. Eina ferðina enn standa velunnarar Fæðingarheimilisins andspænis því að þeir hafa verið dregnir á asnaeyrum. Eina ferðina enn standa misvitrir stjórnmálamenn með vonda ráðgjafa að atlögu gegn Fæðingarheimilinu og þetta er sú alvarlegasta sem hingað til hefur verið gerð vegna þess að verðandi mæðrum var í síðustu viku vísað frá Fæðingarheimilinu. Þar áttu engar fæðingar sér stað í fjóra daga. Nú er búið að bjarga málinu tímabundið fyrir horn, en það er engu að síður ráðgert að leggja alveg af fæðingar á Fæðingarheimilinu eftir sumarleyfi. Og hver er ástæðan fyrir þessu? ,,Peningar,`` segir hæstv. heilbr.- og trmrh. ,,Ég á þá ekki til,`` segir hann.
    Þetta svar er einfaldlega rangt og stenst ekki. Vilji hæstv. heilbr.- og trmrh. spara þá heldur hann lífi í Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar. Konur hætta ekki að eiga börn þó að Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar leggist af. Það er ekki hægt að halda í sér barni mikið lengur en níu mánuði, hæstv. heilbr.- og trmrh. Þau tæplega 500 börn sem að öllu eðlilegu mundu fæðast á Fæðingarheimilinu munu væntanlega fæðast á fæðingardeild Landspítalans og kostnaðurinn kemur niður þar. Í stað þess að leggja 60 millj. kr. í Fæðingarheimilið sem fæðingarstofnun á nú að leggja 30 millj. kr. í rekstur sængurlegu á heimilinu. Því til viðbótar bætist svo kostnaður við fæðingarnar Landspítalamegin. Það þarf enginn að segja mér að Landspítalinn geti bætt við sig 500 fæðingum með engum tilkostnaði. Það þarf enginn að segja mér það.
    Fæðingardeildin var á sínum tíma hönnuð fyrir 2.200 fæðingar. Þar eru nú þegar 2.800 fæðingar og verða um 3.300 eftir breytingu ef að líkum lætur. Þetta eru ekki boðlegar aðstæður, hvorki fyrir konur né starfsfólk. Það er ekki hægt að fæða börn í akkorði.
    Í Bandaríkjunum hafa verið gerðar umfangsmiklar kannanir á konum sem ekki eru í áhættuhópi og þær kannanir sýna að því tæknivæddari sem fæðingarstofnun er þeim mun líklegra er að gripið sé inn í fæðinguna með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Ég er því sannfærð um að það verður ekki sparnaður af því að leggja Fæðingarheimilið niður í núverandi mynd.
    Á undanförnum árum hafa reykvískum konum verið gefin margítrekuð loforð um að Fæðingarheimilið fengi að lifa og starfa á sínum eigin forsendum. Fremstur í flokki þar var fyrrv. borgarstjóri og núv. forsrh. Í maí 1990 gerði borgarlögmaður heiðursmannasamkomulag fyrir hans hönd við starfsfólk Fæðingarheimilisins um að tryggja framtíðarrekstur heimilisins. Ég trúi því ekki að óreyndu að forsrh. svíki þetta samkomulag og staðfesti þar með að það hafi verið kosningabrella.
    Ég ætla að beina þeim spurningum núna til heilbr.- og trmrh. og forsrh. hvort þeir ætli að beita sér fyrir því að konur fái að fæða börn sín í friði á Fæðingarheimilinu hér eftir sem hingað til eða ætla þeir að drepa þessa 30 ára stofnun sem konur gáfu konum, með því að breyta henni í legudeild fyrir sængurkonur? Ætla þeir að varðveita sérstöðu heimilisins eða fórna henni? (Forseti hringir.) Forseti, ég er að ljúka máli mínu, það tók smá tíma að leita að forsrh. þannig að ég reikna mér örlítinn tíma til viðbótar. Ég ætla að skora á konur í stjórnarflokkunum sem hér eru að láta í sér heyra og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þær samþykki það sem er að gerast á Fæðingarheimilinu. Ég trúi því heldur ekki fyrr en ég tek á að hæstv. forsrh., sem jafnframt er borgarfulltrúi og 1. þm. Reykv., sýni ekki í verki og orði að hann sé maður sem standi við orð sín. Þögn hans í þessu máli getur ekki varað lengur. Það segir forsaga málsins okkur.