Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:37:00 (5495)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að fæðingar hafa átt sér stað á tveimur stofnunum sem reknar hafa verið af tveimur spítölum, annars vegar fæðingardeildinni á Landspítalanum, hins vegar Fæðingarheimili Reykjavíkur sem er handan sömu götu en hefur verið rekin af Borgarspítalanum. Það er langt síðan fyrst var farið að huga að því hvort hægt væri að koma á aukinni hagræðingu í rekstri þessara stofnana. Árið 1990 var þetta athugað sérstaklega með hliðsjón af því að barnalæknar Landspítalans eru á vakt sem barnalæknar Fæðingarheimilisins jafnvel þó annar rekstraraðili hafi þar átt í hlut. Það eru ekki barnalæknar á Borgarspítalanum sem hafa verið á vakt á Fæðingarheimilinu heldur barnalæknar Landspítalans. Það var því árið 1990 sem farið var að huga að því hvort ekki væri hægt að draga úr tvöföldu vaktkerfi tveggja stofnana með sama hlutverk sitt hvoru megin við sömu götu með því að fæðingarlæknarnir á Landspítalanum tækju einnig að sér vaktir og þjónustu við fæðandi konur á Fæðingarheimilinu hinum megin við götuna, þannig að ekki þyrftu að vera tvöfaldar heils sólarhrings vaktir á sambærilegum stofnunum hlið við hlið. Sú ráðstöfun var talin geta sparað 4--5 millj. kr. en ekki náðist samkomulag um að framkvæma þetta.
    Við undirbúning fjárlagagerðar nú þurftum við að draga mjög saman og m.a. lækka framlög til ýmissar þjónustu á vegum heilbrigðiskerfisins. Það var ósköp eðlilegt að í því sambandi hafi verið leitað leiða til þess að gera það þannig að varðveita mætti þjónustuna eins lengi og kostur var með því að draga úr

tvíverknaði. Niðurstaðan varð sú að það var talið unnt og samþykkt af hálfu Ríkisspítalanna að þeir gætu tekið við starfsemi þeirri sem á sér stað á Fæðingarheimilinu og rekið það ásamt fæðingardeildinni með sömu vöktum, með 7--10 stöðugildum í staðinn fyrir 25. Lækkunin á framlaginu vegna Fæðingarheimilisins skapast þannig fyrst og fremst af því að stöðugildum í tengslum við rekstur þess er fækkað úr 25 í 7--10. Samkvæmt rekstraráætlun sem bæði stjórn Borgarspítala og stjórnendur Landspítalans hafa samþykkt, sparar það um 28 millj. kr. í rekstri á ári. Þannig er það ekki rétt, virðulegi forseti, að þarna sé ekki um neinn rekstrarsparnað að ræða. Þarna er um að ræða 28 millj. kr. rekstrarsparnað á ári.
    Mér finnst mjög erfitt, virðulegi forseti, að geta ekki skýrt málið frekar á þeim stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar. Ég get gert það miklu betur og vildi gjarnan hafa fengið möguleika til þess, en það get ég ekki á tveimur mínútum og verð því að láta staðar numið hér.