Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:51:00 (5500)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir að hefja umræður á Alþingi um málefni Fæðingarheimilisins. Sú óvissa sem ríkir almennt víða heilbrigðismálum er með þeim hætti að útilokað er að sætta sig við hana. Stofnanir í fjársvelti eiga sér aðeins eitt val, þ.e. að draga verulega úr þjónustu við skjólstæðinga sína og þetta á sér stað alls staðar. Stofnunum er að blæða út víðast hvar.
    Víðast úti á landi geta barnshafandi konur ekki fætt á heimaslóðum sínum vegna þess að dregið er úr þjónustu á fæðingarstofnunum þar. Hvert fara þessar konur? Þær fara að öllum líkindum á Landspítalann í Reykjavík, það er endastöðin. Á sama tíma á fæðingardeildin á Landspítalanum að taka við öllum fæðingum á Fæðingarheimilinu ef ég skil rétt.
    Það er alveg ljóst að það fjársvelti, sem er almennt í heilbrigðisgeiranum, gerir mikinn óskunda og sorglegast er að hæstv. heilbrrh. gerir sér enga grein fyrir því, og hann talaði áðan um að koma þurfi í veg fyrir tvíverknað í fæðingu. Ég skil ekki almennilega hvað hæstv. heilbrrh. er að tala um en hann skýrir það trúlega hér á eftir. Hann talar um að það að fæðingar séu bæði á fæðingardeild Landspítalans og Fæðingarheimilinu sé svo mikill tvíverknaður, og ekki skipti svo miklu máli hvar konur fæða, það skipti ekki máli í hvaða húsi. Um þetta fjallar málið alls ekki, hæstv. heilbrrh., og ég vona svo sannarlega að þessar tölur verði skoðaðar betur sem liggja að baki, þessar 28 millj. sem hæstv. heilbrrh. ætlar að spara. Ég er alveg viss um að þarna liggja ekki réttir útreikningar að baki vegna því að engir útreikningar liggja að baki því hvað kostar að fæða á fæðingardeild Landspítalans. Því er ekki hægt að gera samanburð. En ef hæstv. heilbrrh. hefur þessar tölur þá væri gott að fá þær hér.