Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:56:00 (5502)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef á tilfinningunni eftir að hafa hlustað á umfjöllun þessa máls undanfarna mánuði og ekki síst inni í hv. fjárln. að Borgarspítali hafi viljað losna við ómaga. Rétt einu sinni er Fæðingarheimilið orðið bitbein á milli aðila. Hér á að spara 20--30 millj. kr. er okkur sagt og sparnaðinum á að ná með því að fæðingarlæknar séu á vakt á Landspítala og sinni jafnframt Fæðingarheimilinu. Það er sagt mögulegt vegna þess að svo stutt vegalengd sé þar á milli. Staðreyndin er auðvitað sú að það tekur þó 4--5 mínútur að fara þarna á milli og þær mínútur geta skipt sköpum við fæðingu. Þess vegna verður læknir að vera til staðar á Fæðingarheimilinu. Það má hins vegar ekki, læknar eiga bara að vera starfandi á vakt á Landspítala.
    Yfirleitt má segja að sá sparnaður sem ná á í heilbrigðiskerfinu með þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að í vetur af hálfu hæstv. ríkisstjórnar muni ekki nást. Af hálfu aðstoðarmanns hæstv. heilbrrh. hefur verið yfirlýst að sparnaðurinn sem hægt verði að ná --- og hann svaraði því mjög hikandi þegar hann var spurður --- muni e.t.v. verða á bilinu 180--240 millj. kr. í öllu heilbrigðiskerfinu á Reykjavíkursvæðinu. Hvar stöndum við þá? Hvað verður búið að eyðileggja þegar búið er að framkvæma allar ráðstafanir frá í vetur? Ég held að það verði ekki umreiknað í krónur.