Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 21:31:00 (5507)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á þskj. 773 ritaði ég undir álit meiri hluta hv. allshn. á frv. til barnalaga með fyrirvara. Komst ég að þeirri niðurstöðu eftir hinar ítarlegu og málefnalegu yfirferð yfir málið í nefndinni að við 2. umr. mundi ég láta í ljós efasemdir mínar um þau ákvæði frv. er lúta að úrlausn ágreinings vegna forsjár barns.
    Áður en ég lýsi skoðun minni á þessum þætti frv. vil ég fara fáeinum orðum um tvo aðra meginþætti þess. Þar vísa ég annars vegar til ákvæðanna um sameiginlega forsjá og hins vegar til þeirra ákvæða sem mæla fyrir um undantekningu frá almennum reglum við málsmeðferð fyrir dómstólum og stjórnvaldi.
    Ljóst er að í málaflokkum eins og þeim sem hér er til umræðu breytast áherslur sérfræðinga í tímans rás. Má jafnvel tala um tískustefnur í því efni. Nú virðast þeir almennt hafa komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að lögfesta heimild fyrir foreldra til að semja um sameiginlega forsjá við skilnað. Er sú meginstefna mótuð í þessu frv. Styðst hún við þróun í nágrannaríkjum og er jafnframt talin eiga stoð í Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins eins og kom fram í máli hv. formanns allshn. í ítarlegri greinargerð hennar fyrir frv. og meirihlutaáliti nefndarinnar.
    Í umsögnum sem allshn. bárust koma víða fram efasemdir um réttmæti þess að lögfesta heimild til að semja um sameiginlega forsjá án þess að beinlínis sé lagst gegn því að það sé gert. Má t.d. vitna til þess sem segir í umsögn Dómarafélags Íslands en þar stendur, með leyfi forseta: ,,Stjórnin vill ekki mæla gegn nýskipan um sameiginlega forsjá foreldra við skilnað og sambúðarslit. Hún óttast hins vegar að sú skipan sé aðeins frestun á erfiðri ákvörðun og muni skapa fleiri vandamál síðar en hún leysir.``     Varnaðarorð af þessu tagi er ekki unnt að sniðganga. E.t.v. má orða þetta svo að með því að hafa heimild til að semja um sameiginlega forsjá barnsins geti foreldrar skotið á frest við skilnað þeim ákvörðunum sem oft valda mestum sársauka. Spurning vaknar um það hvort ákvæðið taki frekar mið af hagsmunum foreldra eða barns. Í frv. eru litlar leiðbeiningar um það hvað felast skuli í samningi um sameiginlega forsjá. Allshn. gerir brtt. sem miðar að slíkum leiðbeiningum þar sem lagt er til að í samningnum verið tekið fram hvar barn eigi lögheimili, jafnframt er sleginn sá varnagli að föst búseta þurfi ekki að fylgja lögheimilinu samkvæmt samningnum enda kynni það að brjóta í bága við ákvæði hans um umgengnisrétt.
    Í áliti minni hluta allshn. kemur fram að hann telur ekki tímabært að taka upp sameiginlega forsjá ,,á meðan ekki er boðið upp á fullnægjandi fjölskylduráðgjöf hér á landi`` eins og segir í álitinu. Þessi skoðun er í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma hjá ýmsum umsagnaraðilum. Þrátt fyrir ítarlegar umræður í nefndinni um nauðsyn og gildi fjölskylduráðgjafar sannfærðist ég ekki um að um órjúfanleg tengsl væri að ræða á milli hennar og sameiginlegrar forsjár og treysti mér því fyllilega til að mæla með heimild til samninga um sameiginlega forsjá án þess að krefjast jafnhliða stóraukinna opinberra útgjalda vegna fjölskylduráðgjafar. Séu ákvæðin um sameiginlega forsjá til hagsbóta fyrir foreldra eru undantekningarnar sem gerðar eru í 61. og 70. gr. frv. tvímælalaust til hagsbóta fyrir börn. Í 61. gr. er fjallað um meðferð sönnunargagna í dómsmálum vegna ágreinings um forsjá barna. Þar segir m.a. að kynna skuli aðilum hvað fram hafi komið um afstöðu barns áður en mál er flutt nema slíkt þyki varhugavert vegna hagsmuna barnsins. Það er síðasta atriðið sem veldur ágreiningi þar sem mælt er fyrir um að dómara sé ekki skylt að skýra málsaðilum frá því sem barn hefur sagt áður en mál er flutt ef það þykir varhugavert vegna hagsmuna barnsins. Dómarafélagið hefur lagt til að þessu ákvæði verði breytt á þann veg að tilvísun til hagsmuna barnsins verði felld úr gildi en dómara gert skylt að kynna aðilum þau aðalatriði sem fram hafi komið.
    Í 70. gr. er fjallað um rétt aðila til að kynna sér gögn máls þegar mál samkvæmt frv. eru til meðferðar og úrlausnar stjórnvalda. Í greininni segir að stjórnvaldi sé heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum sem veita upplýsingar um afstöðu barns ef hagsmunir barnsins krefjast þess. Dómarafélagið vill að aftan við greinina bætist ákvæði þess efnis að stjórnvald megi ekki byggja niðurstöðu sína á þeim gögnum sem leynd hvílir yfir vegna hagsmuna barnsins.
    Rökin fyrir því að halda þessum ákvæðum óbreyttum í frv. byggast á tilliti til hagsmuna barnsins. Barnið kann að segja eitthvað sem gæti orðið ákaflega afdrifaríkt fyrir það ef bærist til annars foreldris eða beggja. Með þessum ákvæðum er vikið frá því sem á að vera grundvallarregla í íslenskum rétti að aðilar máls hafi rétt til að kynna sér allar ástæður sem liggja til þess að dómari eða stjórnvald komist

að niðurstöðu í máli.
    Er ég þá kominn að því atriði í frv. sem veldur því að ég hef fyrirvara á undirritun minni undir nefndarálitið. Er þetta ákvæði að finna í 1. mgr. 34. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar foreldra greinir á um forsjá barns sker dómstóll úr ágreiningsmálinu. Dómsmrn. getur skorið úr ágreiningi um forsjá, séu aðilar sammála um að fela ráðuneytinu úrskurðarvald.``
    Það er þessi síðari setning sem ég las, um að dómsmrn. geti skorið úr ágreiningi um forsjá séu aðilar sammála um að fela ráðuneytinu úrskurðarvald, sem ég tel að sé hæpin og hefði í raun og veru átt að fella niður úr frv. þótt ég geri ekki brtt. þar að lútandi enda kemur fram í greinargerð um þessa málsgrein á bls. 41 í frv., með leyfi forseta, þar sem segir:
    ,,Miklar athuganir hafa farið fram á því hjá sifjalaganefnd, hverjir ættu að leysa úr ágreiningi í forsjármálum. Til greina kom að leggja úrlausn þessara mála gagngert í hendur dómstóla, svo sem er víða um lönd, og er sennilegt að sú verði þróun þessara mála síðar meir hér á landi. Slík tilhögun hefði falið í sér mikið álag fyrir dómstóla. Er þess m.a. að gæta að vitaskuld er ekki við reynslu að styðjast hjá íslenskum dómstólum um meðferð þessara mála. Einnig hefur reynslan leitt í ljós að aðilar hafa til þessa fremur kosið að leita úrlausnar ráðuneytis en fara hina formfastari dómstólaleið til lausnar þessara viðkvæmu mála. Rök þykja standa til þess að hafa hér að svo stöddu tvíþætt úrlausnarkerfi og veita aðilum færi á að leggja mál fyrir stjórnvald ef þeir óska eftir því, en ella fjalli dómstóll um ágreiningsmálið.``
    Hér er sem sagt vikið að því í greinargerð um þessa 1. mgr. 34. gr. að í raun og veru sé um bráðabirgðaákvæði að ræða, að svo stöddu skuli þetta tvíþætta úrlausnarkerfi vera við lýði en gefið til kynna að vilji standi til að fella aðra leiðina úr gildi og er það þá dómsmrn. sem mundi hætta að hafa afskipti af þessum málum.
    Ég tel að það hefði verið í samræmi við þá meginstefnu sem mótuð hefur verið með svokölluðum aðskilnaðarlögum, þ.e. þeim lögum sem miða að því að greina á milli dómsvalds og framkvæmdarvaldsins, að fara í þessu frv. aðeins dómstólaleiðina og sleppa því að heimila framkvæmdarvaldinu afskipti af málum sem þessum.
    Fyrr á þessu þingi flutti hæstv. dómsmrh. frv. til laga til breytingar á þinglýsingalögum og fólst breytingin í því að afnema slíka tvíþætta úrlausnarleið í þinglýsingarmálum. Samkvæmt lögum frá 1989 átti þinglýsingarbeiðandi tveggja kosta völ ef hann vildi ekki sætta sig við úrlausn þinglýsingastjóra. Hann gat annars vegar kært úrlausnina til dómsmrn. og hins vegar farið með málið fyrir dómstól. Í frv. sem hæstv. dómsmrh. flutti í haust og er nú orðið að lögum var hins vegar stefnt að því að einfalda reglur um málskot í þinglýsingarmálum og hafa reglurnar þannig að það yrðu einungis dómstólar sem um þau mál gætu fjallað. Ég tel einnig að í þessu máli, sem hér er um að ræða, þ.e. forsjármálum, hefði betur verið farin sú leið að einskorða sig við dómstólaleiðina og sleppa alfarið að unnt væri að vísa þessu máli til meðferðar í dómsmrn. Einnig er við það að athuga, úr því að sú leið er farin að unnt er að vísa málum til stjórnsýsluaðila, hvort ekki hefði verið skynsamlegra að heimila að vísa því til sýslumanna til úrlausnar heldur en til dómsmrn. þannig að þeir sem í þessum málum standa hefðu þá haft málskotsrétt til dómsmrn. ef þeir sættu sig ekki við meðferð sýslumanns á málinu.
    En þetta er, hæstv. forseti, mín höfuðathugasemd við þetta frv. og á þessum forsendum ritaði ég undir álit meiri hluta allshn. með fyrirvara því ég taldi að það hefði verið skynsamlegra að fara þá leið að hafa úrlausn forsjármála einvörðungu í höndum dómstóla en ekki dómsmrn.
    En eins og ég sagði áður þá geri ég ekki brtt. við þetta á þeirri forsendu að í greinargerð með frv. sjálfu kemur fram að það er litið á dómsmálaráðuneytisleiðina sem tímabundna leið þangað til dómstólaleiðin verði alfarið farin hér á landi.