Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 21:42:00 (5508)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka að þetta mál hefur fengið rækilega meðferð að því er virðist. Þetta er stórt mál sem hér er á ferðinni og snertir mjög stóran hluta þjóðarinnar sem á tiltölulega fáa talsmenn á Alþingi. Þess vegna er það mikilvægt og fagnaðarefni að Alþingi skuli gefa sér góðan tíma til að fara yfir mál af þessu tagi. En þetta mál hefur með ýmsum hætti af og til verið til meðferðar í þessari virðulegu stofnun undanfarinn áratug, allt frá árinu 1976--1977, ýmist með afgreiðslu á lögum eða framlagningu á frv. og brtt. við gildandi lög.
    Ég tel ástæðu til að fagna því en vil hins vegar koma á framfæri af minni hálfu tveimur athugasemdum við málið í heild um leið og ég lýsi því yfir að ég styð málið almennt séð en hef þessar tvær athugasemdir að gera.
    Það fyrsta sem ég vil nefna lýtur að þeirri staðreynd að þegar frv. til barnalaga árið 1981 var samið þá benti sifjalaganefnd á nauðsyn á því að athugað yrði hvort stofna ætti embætti sérstaks umboðsmanns barna. Þessi nefnd setti fram hugmyndir sínar um slíkan umboðsmann í fylgiskjali með frv., á árinu 1981, eins og frv. var lagt fram af þáv. hæstv. dómsmrh., Friðjóni Þórðarsyni. Nefndin var þá þeirrar skoðunar að hentugast væri að setja sérlög um umboðsmanninn og það þyrfti að gæta þar vel tengsla við barnaverndarlög og barnalög og þau úrræði til verndar börnum er felast í þeim lögum. Nokkrum árum eftir að frv. til barnalaga var samþykkt var komið á fót embætti umboðsmanns Alþingis sem er auðvitað einnig mikil réttarbót að því er varðar rétt barna. En á síðustu þingum hafa verið flutt frv. til laga um umboðsmann

barna af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem 1. flm. og forustumanni þess máls, leyfi ég mér að segja. Þar er með öðrum orðum gert ráð fyrir sérlögum um þetta efni og það er skoðun sifjalaganefndar, og kemur reyndar fram í greingargerð þess frv. sem við erum að fjalla um, að fari best á því að skipa því máli með sérlögum. Og sifjalaganefnd segir í greinargerð sem birtist í þessu frv. á bls. 17 að hún hafi ekki fjallað um málið um umboðsmann barna af því að það var búið að flytja það á Alþingi með öðrum hætti, en tekur í rauninni eindregið efnislega undir nauðsyn þess að sett verði lög um umboðsmann barna. Og vegna hvers geri ég þessa athugasemd á þessum stað, virðulegur forseti? Jú, af þeirri ástæðu að ég tel að það sé mjög æskilegt að þar sem um frv. um umboðsmann barna hefur verið fjallað á mörgum þingum þá verði það mál tekið til meðferðar og afgreiðslu á þessu þingi líka, málið sem lýtur að umboðsmanni barna. Og ég vil leggja á það áherslu fyrir hönd þingflokks Alþb. að við gerum það að verulega þungu áherslumáli nú á vordögum þessa þings, hvenær svo sem því lýkur, að frv. um umboðsmann barna verði að lögum á þessu þingi um leið og Alþingi afgreiðir ný barnalög.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta haldist í hendur. Og ég vil spyrja hv. formann allshn. að því hvernig staðan er í þessu máli að því er varðar umboðsmann barna í hv. allshn. og hvort þess sé ekki að vænta að það mál verði afgreitt hið fyrsta út úr þeirri nefnd þannig að hið háa Alþingi geti tekið afstöðu til þess mjög um svipað leyti og þetta mál verður til meðferðar.
    Ég tel að það sé mjög mikilvægt að niðurstöður í þessu máli fáist núna hið allra fyrsta og á þessu vori og vildi koma því sjónarmiði sérstaklega á framfæri. Ég bendi á að frv. um embætti umboðsmanns barna hefur verið flutt hér á Alþingi aftur og aftur. Það var fyrst flutt á 109. löggjafarþingi og voru flm. þá Guðrún Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín S. Kvaran og Hjörleifur Guttormsson. Það var endurflutt á 110. löggjafarþingi og þá voru flm. Guðrún Helgadóttir, Árni Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson. Síðan er þetta frv. nú flutt í þriðja sinn, að vísu nokkuð breytt frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir með hliðsjón af þeim breytingarábendingum sem fram hafa komið frá ýmsum aðilum en það er rétt að benda á, og því las ég upp þessi nöfn, að í rauninni eru flm. þessa frv. um umboðsmann barna bæði nú og áður þingmenn sem nú eru í öllum þeim flokkum sem fulltrúa eiga hér á Alþingi Íslendinga þannig að ég trúi því ekki að um málið sé nokkur ágreiningur. Fjárhagsleg útgjöld í þessu efni eru smámunir samkvæmt umsögn fjmrh. sem birtist sem fylgiskjal með frv. um umboðsmann barna eins og það hefur verið lagt fram á þessu þingi. Þetta vildi ég nefna í fyrsta lagi og segja það jafnframt í tengslum við það að ég teldi auðvitað mjög mikilvægt og í raun og veru væri það glæsileg niðurstaða að mörgu leyti ef það tækist allt í senn að afgreiða ný barnalög, lög um umboðsmann barna og ný lög um vernd barna og ungmenna á sama tíma þinginu.
    Frv. til laga um vernd barna og ungmenna var flutt á síðasta þingi og af þáv. ríkisstjórn. Það var fjallað um það í menntmn. efri deildar. Hún gerði nokkrar brtt. við málið. Það varð ekki útrætt en um það náðist algert samkomulag. Og í því samkomulagsformi hefur það nú verið endurflutt af hæstv. ríkisstjórn og það bendir því allt til þess að um það eigi einnig að geta náðst samkomulag á þessu þingi. Þess vegna tel ég að það væri myndarleg niðurstaða á þessu þingi ef öll þessi þrjú mál næðu lendingu. Bæði þau mál sem hér eru flutt af hæstv. ríkisstjórn og eins það mál sem hér er flutt um umboðsmann barna af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur o.fl.
    Ég vil skjóta því hér inn, virðulegur forseti, í sambandi við frv. um vernd barna og ungmenna að ég heyri það mér til mikillar furðu að það mál hefur verið sent til félmn. Ég var ekki hér í þinginu síðustu daga og kann ekki rökin fyrir því. Það kunna að vera einhver rök fyrir því en um vernd barna og ungmenna hefur alltaf verið fjallað í menntmn. af því að málið heyrir undir menntmrh. Þó svo að í því frv. sé gert ráð fyrir að flytja málið til félmrh., það er allt annað mál. Það eru mýmörg dæmi um að frv. hafi verið flutt um að flytja málaflokka á milli ráðuneyta en þá hafa málin alltaf byrjað í þeirri fagnefnd sem tilheyrir viðkomandi ráðuneyti eða sem fjallar um viðkomandi ráðuneyti. Það átti t.d. við um lög um mannanöfn sem sett voru á síðasta þingi þar sem frv. var flutt af menntmrh. og lagt til að málið yrði flutt til dómsmrn. Þá var því að sjálfsögðu ekki vísað til allshn. heldur til menntmn. Nú heyri ég mér til furðu að þessi hefð hefur verið brotin af einhverjum ástæðum, vafalaust efnislegum ástæðum, það er fróðlegt til umhugsunar, og frv. vísað til félmn. Satt að segja kann ég ekki að meta það vegna þess að ég er íhaldssamur eins og hv. þm. vita sem hér hafa verið jafnlengi og ég. Ég vil ekki breyta venjum nema rök séu fyrir því.
    Einnig hefur hv. 9. þm. Reykn. rætt talsvert um mikilvægt mál sem fjallar um svokallaða sameiginlega forsjá. Ég segi alveg eins og er að ég tel að menn þurfi aðeins að staldra við í þeim efnum. Mér finnst það ekki liggja alveg á borðinu að ákveða eigi að opnað verði fyrir sameiginlega forsjá nema því fylgi vönduð fjölskylduráðgjöf. Það eru engar tillögur uppi um vandaða fjölskylduráðgjöf. Ég held að þau sjónarmið sem liggja að baki hugmyndinni um sameiginlega forsjá taki ekki síður mið af hagsmunum foreldra en barnsins. Það er erfitt fyrir barn að standa frammi fyrir sameiginlegri forsjá þegar annað foreldrið á heima á Kópaskeri en hitt á Eyrarbakka. Það er erfitt fyrir barn að standa frammi fyrir sameiginlegri forsjá ef annað foreldrið á heima í Breiðholti í Reykjavík en hitt vestur í bæ. Þetta er miklu flóknara og viðkvæmara mál en menn ímynda sér í fljótu bragði. Ég segi alveg eins og er að ég á mjög erfitt með að sjá að þetta leysi vanda. Hvaða vanda á að leysa í raun og veru? Jú, þegar foreldrarnir geta ekki komið sér saman um að annað þeirra hafi forsjá barnsins geti þau komið sér saman um að hætta að deila með því

að bæði hafi forsjána, sem getur auðvitað orðið hvorugt þegar fram í sækir. Þó það geti hentað vel að forsjáin verði sameiginleg á þeirri stundu þegar skilnaður á sér stað og það geti gengið vel í byrjun getur það orðið erfiðara og flóknara síðar. Ég er því ansi hræddur um að þarna eigi menn að ganga býsna varlega um og ekki að slá því algerlega föstu að sameiginleg forsjá sé lausn á nokkrum vanda. Ég satt að segja óttast að hún sé flóknari fyrir barnið en sú staða sem er núna.
    Ég hef heyrt það einhvers staðar sagt að þetta styðjist við einhver rök frá útlöndum, þetta sé svona í útlöndum. Með fullri virðingu fyrir útlöndum verð ég nú að segja að mér er alveg sama um það. Það eru engin rök fyrir því að við þurfum að vera alveg eins og aðrir. Enda væri ég nú ekki í þeim góða flokki sem ég er í ef ég vildi endilega vera eins og allir aðrir. (Gripið fram í.) Framsfl. var að kalla fram í en því miður heyrði ég ekki það sem hann sagði. Hann verður að neyta réttar síns til andsvars á eftir.
    Virðulegi forseti. Ég held að í rauninni vanti rök fyrir slíkri sameiginlegri forsjá. Ég sé að umsagnaraðilar sem hv. minni hluti allshn. vitnar til eru flestir hlynntir sameiginlegri forsjá en í umsögn Barnaheilla segir t.d. að enda verði gerðar ráðstafanir til að efla fjölskylduráðgjöf hér á landi.
    Í umsögn fulltrúaráðs Foreldrasamtakanna segir m.a.: ,,Skortur á fjölskylduráðgjöf er alvarleg brotalöm í kerfinu sem þarfnast úrlausnar hið fyrsta.``
    Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar sem hefur mjög mikla reynslu í að fjalla um mál af þessu tagi segir: ,,Ýmislegt í rökum með þessum breytingum höfðar frekar til hagsmuna foreldra en barna.``
    Ég held að full ástæða væri til þess að við hérna inni hlustuðum svolítið á það sem Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar segir. Ég efast um að margar stofnanir í landinu hafi meiri reynslu af því að fást við erfitt mál af þessu tagi en Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, hún segir að þetta höfði frekar til hagsmuna foreldra en barna.
    Og síðan segir í umsögn Félagsmálastofnunar: ,,Samræming við norræna löggjöf telst tæpast haldbær rök þar sem ekki er um hliðstæða þjónustu að ræða hér og á það fyrst og fremst við um sára vöntun á fjölskylduráðgjöf hér á landi.``
    Í umsögn Dómarafélags Íslands segir m.a. um 33. gr. frv.: ,,Stjórnin vill ekki mæla gegn nýskipan um sameiginlega forsjá foreldra við skilnað og sambúðarslit. Hún óttast hins vegar að sú skipan sé aðeins frestun á erfiðri ákvörðun og muni skapa fleiri vandamál síðar en hún leysir.``
    Í rauninni segja allir aðilar: Ja, sameiginleg forsjá, við skulum hafa hana enda sé allt í lagi að öðru leyti. En það er ekki þannig hjá okkur. Við erum ekki búin að koma hér upp t.d. fjölskylduráðgjafarstofnun.
    Það var rétt sem kom fram áðan að fjölskylduráðgjöf þjóðkirkjunnar, fjölskylduþjónusta held ég að hún heiti, hefur verið starfrækt um nokkurt skeið en biðlistarnir eru endalausir. Það er því augljóst mál að við erum að stíga skref sem við erum kannski ekki að öllu leyti tilbúin að stíga.
    Ég tek það fram að ég er fyrst og fremst að tala fyrir mig í þessu efni. Við höfum ekki rætt þetta á mínum flokksvettvangi sérstaklega.
    Á Alþingi hefur verið flutt frv. um fjölskylduráðgjöf. Það var líklega lagt fram á þinginu 1979--1980 og flutt af þingmönnunum Guðrúnu Helgadóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Matthíasi Bjarnasyni og Níelsi Árna Lund. Þetta frv. gerði ráð fyrir að í barnalög eins og þau voru þá, nr. 9/1981, yrði bætt inn ákvæði um fjölskylduráðgjöf. Í framhaldi af þessu þingmannafrv. og jákvæðum umsögnum um það frá fjöldamörgum aðilum, m.a. í ræðum á Alþingi og af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga, var þetta mál flutt á nýjan leik og lagt fram sem frv. þar sem gert var ráð fyrir að lög yrðu sett um fjölskylduráðgjöf. Í 1. gr. þess frv. segir: ,,Gera skal ráðstafanir til þess að foreldrar eigi kost á fjölskylduráðgjöf er taki til fræðslu um uppeldi barna, leiðbeiningar í sambúðar- og skilnaðarmálum og annarra málefna er varða hag og þroska barna og fjölskyldna þeirra. Félmrn. skal starfrækja miðstöð fjölskylduráðgjafar og skal sálfræðingur veita henni forstöðu. Miðstöðin verði á höfuðborgarsvæðinu í fyrstu en frekari útfærsla verði ákveðin þegar reynsla liggur fyrir af starfsemi stöðvarinnar í þrjú ár. Félmrn. setur reglugerð um hvernig háttað verði greiðslu fyrir þjónustu miðstöðvarinnar samkvæmt gjaldskrá.``
    Með öðrum orðum lá þetta mál fyrir, var flutt og rætt um leið og barnalögin nr. 9/1981 voru upphaflega sett á sínum tíma. Þó málið hafi þá verið til umræðu hefur í raun og veru ekkert gerst í málinu síðan. Og ég tel að eitt af því sem hefur spillt því hafi verið þessi dæmalausu lög um verkaskiptingu ríkis- og sveitarfélaga sem banna ríkinu að koma nálægt rekstri stofnana af þessu tagi. Ég tel að þau rök trufli eðlilega félagslega þróun í landinu að þessu leyti, því miður, af því að hér er verið að segja að þetta sé verkefni sveitarfélaga en við vitum svo að það er bara eitt sveitarfélag á Íslandi sem ræður við þetta og það er sveitarfélagið Reykjavík, hin gera það ekki. Þess vegna hefði þurft að leggja af stað með svona stofnun á vegum ríkisins til að byrja og á meðan verið væri að þróa málið. Síðan hefði auðvitað verið hugsanlegt að sveitarfélögin eða samtök þeirra, landshlutasamtök eða hvað það nú er, hefðu í framhaldi tekið utan um málið.
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessu hefði ég auðvitað fulla ástæðu til þess að spyrja hæstv. félmrh. um hvað sé að frétta af málinu um fjölskylduráðgjöf af því að það er verið að tala um fjölskylduráðgjöf á öllum þessum pappírum. Hvað er hæstv. félmrh. að gera í því máli? Er það að einhverju leyti ríkisstjórnin í heild eða dómsmrh., eða hver er það? Vegna þess að öll rökin með hinni sameiginlegu forsjá eru þau að komið verði upp góðri fjölskylduráðgjöf en hún er ekki til eins og sakir standa.

    Ég vil þess vegna segja það fyrir mitt leyti að ég tel að það komi að mörgu leyti til greina að velta því fyrir sér hvaða afstöðu maður hefur í raun til 3. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 33. gr. Ég hef satt að segja ekki alveg gert það upp við mig af því að ég hef ekki komið að málinu í umræðum áður, hvort eða hvaða leið maður kann að fara í þessu efni, en verð að segja það að maður á að vera varkár í svona málum. Þetta verkar pínulítið þannig að menn séu að leggja af stað út í ferðalag á forsendum sem eru ekki til. Af því að þessar stofnanir eru ekki til er þetta hálfgerð ferð án fyrirheits sem menn eru að leggja út í hér.
    Hv. 9. þm. Reykn. hefur lagt til að gildistökuákvæðinu verði breytt þannig að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1995. Enda verði þá búið að setja öfluga fjölskylduráðgjöf á laggirnar. Ég skil alveg hvað hv. þm. er að fara og tel að sjónarmið hennar séu gild í þessu efni. En auðvitað er þetta mjög veik brtt. vegna þess að varla er hægt að orða brtt. með þessum hætti ,,enda verði þá búið að setja öfluga fjölskylduráðgjöf á laggirnar.`` Hver á að meta það hvort hún er öflug eða ekki? En ég skil þann hug sem er á bak við þessa till. hjá hv. flm. og tel hann góðra gjalda verðan. Auðvitað væri eðlilegast, virðulegi forseti, að loka þessum hring með afgreiðslu á barnalögum, lögum um umboðsmann barna, lögum um vernd barna og ungmenna og lögum um fjölskylduráðgjöf líka. Þá væru menn komnir með myndarlega, mér liggur við að segja glæsilega afgreiðslu á þessum málaflokki í framhaldi af umræðu sem hefur farið fram á Alþingi í mörg ár á vegum fjölmargra ríkisstjórna og ætti að geta náðst gott samkomulag um.
    Ég vildi koma þessum athugasemdum mínum á framfæri, virðulegi forseti, um leið og ég endurtek það sem ég sagði í upphafi að það er áherslumál af hálfu þingflokks Alþb. að frv. um umboðsmann barna verði afgreitt á þessu þingi. Við sjáum ekkert því til fyrirstöðu. Það hefur aftur og aftur verið til meðferðar hér, hefur fengið fjöldamargar jákvæðar umsagnir og kostnaður getur ekki staðið því máli fyrir þrifum. Sifjalaganefnd hefur lagt til að það mál verði að lögum þannig að ég endurtek að það er áherslumál af okkar hálfu fyrir lok þess þings sem nú stendur yfir, virðulegi forseti.