Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 22:26:00 (5513)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil að gefnu tilefni gagnrýna mjög að það er harla erfitt fyrir hv. þm. að átta sig á því hvað er til umræðu hverju sinni. Þegar ég fór heim í kvöld var 10. mál til umræðu og þetta mál er nr. 25 á dagskránni. Ég átti frekar á dauða mínum von en að þetta mál yrði til umræðu í kvöld. Það er satt að segja orðið afar erfitt að átta sig á undir hvaða mál menn eiga að búa sig hverju sinni. En látum þeirri umræðu lokið.
    Vegna þess máls sem er á dagskrá, 25. mál dagsins, vil ég byrja á því að vekja athygli manna á því að sl. fimmtudag var ég með fsp. um það í þinginu hvenær hæstv. ríkisstjórn hygðist staðfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Hann var undirritaður af þáv. hæstv. forsrh. árið 1989. Hæstv. utanrrh. sagði að það mundi verða gert á næstu dögum og bar við önnum í ráðuneyti sínu og raunar meðferð hjá hæstv. dómsmrh. sem hefði tekið nokkurn tíma, svo og þýðing og annað slíkt.

    En því minnist ég á þennan samning, sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að einmitt þar eru ákvæði um ýmislegt af því sem nú birtist í frv. til barnalaga. Til þess að rifja það upp vil ég, með leyfi forseta, aðeins geta þess sem þar eru meginatriði. Í 2. gr. samningsins segir t.d.: ,,Eru aðildarríki skuldbundin til að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn kveður á um án mismununar af nokkru tagi, t.d. vegna félagslegrar aðstöðu, ætternis eða annarra aðstæðna barns eða foreldra þess.`` Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn. Á því er t.d. byggt frv. til laga um embætti umboðsmanns barna og skal vikið að því seinna.
    Í þessum sáttmála Sameinuðu þjóðanna eru mörg ákvæði sem ekki er ástæða til að fara hér ofan í hvert fyrir sig. Þar er t.d. í 9. gr. ákvæði um rétt barns til að viðhalda tengslum við foreldri sem það býr ekki hjá. Í samningnum er m.a. ákvæði um að tryggja börnum rétt til að tjá sig þegar foreldrar deila um forræði o.s.frv. Sú er von mín að á þessu þingi náist að bera fram þáltill. um að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði staðfestur og það er einn þáttur þessa máls.
    Fyrir þinginu liggja nú þrjú mál sem öll vinna að því að framkvæma þessi ákvæði í sáttmála Sameinuðu þjóðanna en það er það frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um vernd barna og ungmenna og frv. til laga um umboðsmann barna. Það væri vel eins og hv. 9. þm. Reykv. hefur svo margítrekað í kvöld og væri Alþingi til sóma ef tækist að afgreiða þessi mál.
    En það er eins og vant er að við erum að ræða á síðkvöldum um mál sem miklu fleiri hv. þm. ættu að taka þátt í að ræða. Það eru málefni barnanna sem eru u.þ.b. 1 / 4 landsmanna og því harla stór hópur sem hið háa Alþingi ber ábyrgð á. Ég ætla samt að víkja að örfáum atriðum sem mér finnst skipta máli. Hér er auðvitað ekki um pólitískt mál að ræða, ekki flokkspólitískt í þeim skilningi heldur viðkvæm og vandmeðfarin mál sem okkur ber öllum að ræða um af fyllstu alvöru og ábyrgð.
    Fyrst er þá til að taka það sem er kannski mestur ásteytingarsteinn. Það er sameiginlegt forræði barna. Þar skiptir auðvitað höfuðmáli að það eru ekki foreldrarnir sem eiga rétt á að umgangast börn sín heldur á barnið rétt á að umgangast báða foreldra sína hvort sem þeir kjósa að búa saman eða ekki. Ég lýsti því við framsögu, við 1. umr., að ég sé þeirrar skoðunar að það sé siðferðileg skylda hins háa Alþingis að kveða upp úr um það að báðir foreldrar beri ábyrgð á barni sínu og skipti engu máli hvort foreldrar búa saman eða ekki. Það er barninu fyrir bestu að um það náist samkomulag. Og vissulega er ég ekki það barn að ég skil að í mörgum slíkum tilvikum getur verið um að ræða mjög erfið mál. En Alþingi hlýtur að móta þá stefnu að báðir foreldrar beri ábyrgð á barni sínu þar til það hefur náð fullorðinsárum og að ósamkomulagsmál hljóti að verða undantekningartilvik sem verður að taka á eins og best verður á kosið með aðstoð yfirvalda hverju sinni.
    Ég lagði á það mikla áherslu í máli mínu þá, og ég held að um það séum við öll sammála, að því aðeins sé sameiginleg forsjá möguleg að í fyrsta lagi sé um samkomulag milli foreldra að ræða og í öðru lagi að barnið eigi lögheimili hjá öðru foreldri. Lögð var á það áhersla að barn verði að hafa þá tilfinningu að það eigi heimili sitt á einum stað þar sem það hefur sína hluti í kringum sig, vini sína og sem sagt það umhverfi sem hver einasta manneskja þarf á að halda. Ég hlýt að styðja sameiginlega forsjá þótt mér sé fullkomlega ljóst að það getur skapað vandamál. En þau vandamál verða viðkomandi yfirvöld að leysa hverju sinni.
    Ég hef hins vegar miklu meiri áhyggjur af úrskurðarvaldinu. Mér finnst óheppilegt að hægt sé að kjósa um það hver skeri úr um sameiginlega forsjá eða forsjármál almennt. Ég tel að dómsmrn. eigi því aðeins að úrskurða að um málið sé samkomulag. Ég held að við eigum aldrei að rugla saman framkvæmdarvaldi og dómsvaldi.
    Við þekkjum það frá skilnaðarmálum að ráðuneytið getur úrskurðað um málefni hjóna sem kjósa að slíta hjónabandi ef um það er samkomulag. Auðvitað eiga dómstólar að úrskurða um mál sem ekki er samkomulag um. Ég vil biðja hv. 6. þm. Reykv., formann nefndarinnar, að huga vandlega að þessu atriði. Við vorum raunar báðar á fundi hjá Kvenréttindafélagi Íslands ekki alls fyrir löngu, þar sem menn lýstu miklum efasemdum um þetta atriði málsins og ég gerði það líka við 1. umr. Ég held að þarna sé verið að rugla saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Það á ekki að vera neitt val um það. Ef ágreiningur er hljóta dómstólar að skera úr. Það má þá mikið breytast og verður að breyta heimildum um aukningu starfsmanna hins opinbera á þessu ári ef lögin eiga að taka gildi um mitt ár því að við vitum það nákvæmlega að dómsmrn. hefur á engan hátt yfir því starfsliði að ráða sem getur metið slík mál. Jafnvel þó að umsagnar sé leitað annars staðar hlýtur þetta auðvitað að bera í sér að á vegum ráðuneytisins verður að vera sérstök deild sem fjallar um þessi mál. Þetta vil ég í allri vinsemd biðja nefndina að athuga vegna þess að að öðru leyti held ég að margt sé til bóta í frv. og margt skýrara en áður. Þó eru auðvitað enn vafamál í frv. Það er eins og maður sé að hjakka í sama hjólfarinu ár eftir ár.
    Eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um eru mörg ár, ég man ekki einu sinni hvaða ár það var, síðan við nokkrir hv. þm. bárum fram frv. til laga um fjölskylduráðgjöf sem ekki náði fram að ganga. Margítrekað hef ég borið fram fyrirspurnir til hæstv. dómsmrh. vegna framkvæmdar á þál. sem Alþingi samþykkti og ég var fyrsti flm. að um réttarstöðu barna sem getin eru við tæknifrjóvgun. Hæstv. ráðherra hefur ævinlega svarað því til, og ég held að þeir séu orðnir fleiri en einn, að nú sé þetta alveg að koma, að nefndin, sem búin er að sitja að störfum síðan ég veit ekki hvenær, það eru alla vega orðin mörg mörg ár síðan hún var skipuð, sé u.þ.b. að skila áliti. En því miður bólar ekki á því enn þá. Þrátt fyrir 3. gr. frv.

og að mig minnir 55. gr. er afskaplega lauslega tekið á þessum málum og alveg ljóst að upp gætu komið hin skelfilegustu vandamál barna, og þá ítreka ég barna, sem getin eru á þennan hátt, komi til flókinna mála af öllu tagi, t.d. erfðamála. Mér finnst ekki fyrirbyggt að vefengingarmál geti komið upp. Nú vil ég taka það fram að þegar þáltill. mín var samþykkt voru menn ekki komnir eins langt og þeir eru núna svo að vel getur verið að orðið tæknifrjóvgun sé úrelt vegna þess að síðan hafa menn farið að stunda glasafrjóvganir og þróunin hefur orðið mjög hröð í þessum efnum. Ég hef ekki sett mig alveg inn í það á síðustu árum því svo langt er síðan að ég hef áhyggjur af að hér séu mál á ferðinni sem ekki séu nægilega tryggð og það verði ekki mörg ár þangað til að fyrstu börnin, sem svo hamingjusamlega hafa orðið til þrátt fyrir erfiðleika foreldra, nái þeim aldri að þau fari að skynja réttindi sín. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt og vil, hæstv. forseti, biðja hæstv. dómsrmh. að segja mér það aftur, nokkrum mánuðum eftir að ég spurði hann síðast, hvort einhver hreyfing sé á störfum þessarar nefndar. Það er satt að segja með hreinum ólíkindum hversu seinvirk hún virðist vera.
    Ég gat þess við 1. umr. að enginn hefði enn burði til að tryggja samkynhneigðu fólki rétt til að ala upp börn. Ekki alls fyrir löngu, bara fyrir nokkrum kvöldum, flutti hv. 10. þm. Reykv. framsöguræðu fyrir þáltill. um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðum. Flutningsmenn studdu við bakið á hv. 1. flm. en aðrir hv. þm. héldu sig farsællega fjarverandi eða treystu sér ekki til að taka á þessu máli. Ég held að fyrr eða síðar verði að taka á því máli hvort tvær konur, sem kjósa að búa saman, eða tveir karlmenn, hafi rétt til að ættleiða barn sem ég hygg að þeir hafi ekki núna. Eitt er víst að kona sem býr með konu hefur ekki rétt til tæknifrjóvgunar. Pempíuskapur hins háa Alþingis í þessum málum er auðvitað fjarri öllu lagi. Ég er sannfærð um að í okkar góða landi hafa fjölmargir slíkir aðilar alið upp hamingjusama og vel þroskaða borgara án þess að um það væri sérstaklega rætt. Menn voru ekki að tala um slíkt og enginn að skipta sér af því. En nú hafa menn kosið að ræða slík mál opinskátt og þá ber auðvitað hinu háa Alþingi að fylgjast með þeirri umræðu og taka afstöðu samkvæmt því.
    Hv. 5. þm. Reykv. barmaði sér yfir því áðan að frv. til laga um embætti umboðsmanns barna hefði ekki náð fram að ganga á síðasta þingi. Við því var ekki að búast vegna þess að það var alls ekki borið fram á síðasta þingi. Það var borið fram á 109. löggjafarþingi í fyrsta skipti og síðan á 110. og á 113. þingi. Það var ekki fyrir síðasta þingi og er þess vegna borið fram núna í fjórða sinn. Satt að segja verður að játast að 1. flm. var orðinn harla þreyttur á að bera þetta mál fram en þegar frv. til barnalaga kom fram, og eins og ég hygg að hv. 9. þm. Reykv. hafi lesið af bls. 17 í greinargerð með því frv., þá er sérstaklega talað um að sifjalaganefnd sé enn þá þeirrar skoðunar sem hún var árið 1981, að best fari á að skipa því máli með sérlögum og því hafi nefndin ekki fjallað um það í þessu frv. Mér fannst mér þar með bera skylda til að leggja frv. fram einu sinni enn. Eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um, ég heyrði að vísu ekki alla hans ræðu, ég kom inn í hana miðja, komu þingmenn allra flokka að frv. Og það er alveg rétt. Sjálfur hv. núv. félmrh. var meðflutningsmaður minn þegar málið var flutt fyrst. Ég tók það skýrt fram þegar ég samdi greinargerð með frv. --- vegna þess að ég hef ekki lagt það í vana minn að eigna mér það sem ég ekki á --- að í upphaflegu greinargerðinni segði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hugmyndin að stofnun embættis umboðsmanns barna er ekki ný. Árið 1978 fluttu þingmenn Alþfl. till. til þál. um umbætur í málefnum barna og í greinargerð með henni var m.a. lagt til að slíkt embætti yrði stofnað. Árni Gunnarsson var 1. flm. tillögunnar en hún varð ekki útrædd. Í þessari tillögu hv. þáv. þm. Árna Gunnarssonar var getið um ótalmörg atriði en tillagan sjálf fjallaði um umbætur í málefnum barna.`` Og ein af tillögum hans var að stofnað yrði embætti umboðsmanns barna. Það er því ákaflega erfitt að sjá hvar þessi andstaða við frv. er.
    Hv. 5. þm. Reykv. undraðist að þetta mál skyldi ekki fyrir löngu hafa náð fram að ganga þar sem ég hefði verið stuðningsmaður þeirra ríkisstjórna sem um það hafa fjallað. Það er erfitt að útskýra fyrir hv. þm. Sjálfstfl. að einfaldur meiri hluti dugar ekki á Alþingi, hann dugar í borgarstjórn Reykjavíkur en hann dugar ekki hér. Það var svo sannarlega ekki vegna óvilja hv. 2. þm. Austurl., Jóns Kristjánssonar, sem var formaður hv. allshn. á síðasta kjörtímabili, að málið náði ekki fram að ganga. Það eru ýmsar leiðir til að tefja mál eins og menn ættu að vera farnir að kunna, t.d. með því að bíða eftir umsögnum, með því að biðja um fleiri og fleiri til viðtals o.s.frv. Þannig daga mál uppi. Það er auðvitað það sem er að gerast núna, tíminn er að renna út.
    Hv. 17. þm. Reykv., þingflokksformaður Alþfl., sagði fyrir nokkrum dögum þegar ég gerði athugasemd við hversu hægt gengi að koma þessu máli út úr nefnd að hann mundi sjá til þess og hann gæti talað fyrir hönd stjórnarflokkanna að þetta mál fengi afgreiðslu og ég dreg ekki í efa að hann hefur mælt þar af heilum hug. Enda, eins og ég hef þegar sagt, er þetta mál upphaflega nefnt í herbúðum Alþfl. árið 1978. Það var raunar ári áður en ég kom sjálf inn á þing svo ekki skal ég þakka mér það eins og ég hef þegar getið um. Krafa okkar alþýðubandalagsmanna, sem leggjum mikla áherslu á þetta mál, er sú að það verði ljóst hverjir eru á móti málinu. Hv. þm. Sjálfstfl. verða þá að segja það upphátt að þeir vilji ekki þetta embætti.
    Lengi vel var fólk að hafa áhyggjur af því að embætti umboðsmanns barna mundi koma inn í störf barnaverndarnefnda. Ef menn hafa lesið frv. ætti að vera ljóst að engin hætta er á því vegna þess að umboðsmaður barna á ekki að fást við einkamál, hann á að fylgjast með að stjórnvaldsaðgerðir séu ekki gerðar nema hagsmunir barna séu tryggðir. Með nýju frv. til laga um vernd barna og ungmenna, nái það frv.

fram að ganga, er hættan engin vegna þess að þar er hreinlega byggt fyrir það. Ég vil því biðja nefndarmenn í hv. allshn. og formann hennar að líta á þessi mál í samhengi.
    Eins og þegar hefur komið fram hjá hv. 9. þm. Reykv. er um óverulegan kostnað að ræða. Málið var borið undir umboðsmann Alþingis, þau rök voru einnig notuð að hann ætti að tryggja hagsmuni barna. Ég held að enginn hv. alþm. dragi í efa hæfni umboðsmanns Alþingis en hann taldi að full ástæða væri til að stofna til embættis umboðsmanns barna því að það væri alveg ljóst að þar þyrfti nokkra sérhæfingu og sérkunnáttu. Hann sagði jafnframt í sínu áliti að auðvitað gæti svo farið að hann tæki að sér málefni barns ef á þyrfti að halda. En hann taldi æskilegt að þetta embætti yrði til og hann lagði líka til að það yrði ekki, eins og menn höfðu haft hugmyndir um, innan síns eigin embættis. Hann vildi hafa þetta embætti alveg sjálfstætt.
    Kostnaður, eins og hér hefur þegar komið fram, er ekki mikill við stofnun þessa embættis á þessum eyðslutímum, sem við horfum upp á hvern einasta dag í þögulli undrun, þegar verið er að halda veislur sem eru margfalt dýrari en þetta embætti á ársgrundvelli. Við getum varla tekið það alvarlega að þetta sé of stór biti fyrir hæstv. ríkisstjórn, að vinna að hagsmunum 1 / 4 landsmanna og þeirra sem kannski eru viðkvæmastir og dýrmætastir í þessu landi.
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki aðrar athugasemdir við frv. en þær sem ég hef þegar minnst á. Ég vil sjá lítils háttar breytingu á þessum tvöfalda úrskurði sem lagður er til og þeim tveim atriðum sem ég hef þegar getið um sem eru ákvæði varðandi réttindi barna sem getin eru við tæknifrjóvgun. Ég býst við að það sé tómt mál að ætlast til að úr þessu verði gerð bragarbót á réttindum samkynhneigðra en ég hygg að úr því gæti ræst ef sú tillaga sem talað var fyrir fyrir nokkrum kvöldum verður tekin til afgreiðslu.
    Aðeins að lokum, hæstv. forseti. Það er áreiðanlega ekki því að kenna að Alþingi er nú í einni málstofu hversu hægt gengur að afgreiða mál úr nefndum. Það kom mér satt að segja á óvart að heyra hv. 5. þm. Reykv. hafa áhyggjur af þessu. Ég vænti þess að hann sé ekki búinn að gleyma þegar ekki var fundarfært í þingnefndum neðri deildar vegna þess að menn voru á öðrum fundi í nefndum sameinaðs þings og allt rakst hvað á annars horn. Hér störfuðu 24 þingnefndir og menn voru á hlaupum á milli herbergja og sinntu auðvitað hvorugu verkinu þannig að ég held að því sé ekki um að kenna.
    Ég vil minna hv. þingheim og hæstv. forseta á að þangað til fyrir þremur árum voru ekki einu sinni starfsmenn þingnefnda í þinginu og þingmenn urðu sjálfir að ganga frá nefndarálitum, safna saman gögnum og undirbúa fundi og annað slíkt, þannig að þingið hefur ekki þá afsökun að hér sé um eitthvað flóknara kerfi að ræða nema síður sé. Menn hafa allan þann tíma sem þeir kjósa sér til að vinna að þeim málum sem berast til nefnda og það er ekkert ofverkið hv. þingmanna að skila góðri vinnu þar. En hv. þm. hafa sér að vísu nokkuð til afsökunar þegar þinginu er svo komið að það er algengara en ekki að menn standi í ræðustól klukkan ellefu á kvöldin, kvöld eftir kvöld. Áður mótmæltu menn því ef talað var yfirleitt um kvöldfund og ég held það hefði ekki komið til greina að fara fram á kvöldfund tvisvar í viku hvað þá oft í viku. Sú var tíðin að föstudagar áttu að vera til vinnu í nefndum. Nú sitjum við hér fram á kvöld, einnig á föstudögum, þannig að ég held að hv. 5. þm. Reykv. ætti að ræða við forsætisnefnd þingsins um óskir sínar að fá einhvern vinnufrið í nefndum fyrir fundahaldi hér.