Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 22:52:00 (5514)


     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla hv. 14. þm. Reykv. um að hv. þingflokksformaður Alþfl. hefði heitið því að frv. til laga um umboðsmann barna yrði afgreitt úr allshn., þá sagði hv. 17. þm. Reykv., ef ég man rétt, að frv. yrði afgreitt með viðunandi hætti í nefndinni og það var það eina sem hann sagði. Ég verð að lýsa því yfir fyrir mína hönd sem er nýkominn inn á Alþingi og nýkominn í hv. allshn. að ég vil fá minn tíma til að athuga þetta frv. Það hefur verið sent til umsagnar og umsagnir munu berast, vonandi fyrir 24. apríl, og síðan verður nefndin að sjálfsögðu að fá sinn tíma til þess að ræða málið. Það hefur komið fram að það hefur oft verið lagt fram á þingi áður og ekki fengist afgreitt. Nú sitja þingmenn uppi með að það hafa margir nýir menn komið inn á Alþingi sem þurfa þá einnig að skoða málið og fá sinn tíma til þess.