Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:00:00 (5519)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Þar sem til mín hefur verið beint nokkrum athugasemdum þá tel ég rétt að fjalla örlítið um þær þó búið sé að ræða mjög ítarlega um þetta frv. og ég vil þakka hv. þm. fyrir þær umræður.
    Fyrst tók til máls hv. 9. þm. Reykn., Ragnhildur Eggertsdóttir, og gerði grein fyrir minnihlutaáliti Kvennalistans í allshn. og tók þar sérstaklega fram að varðandi sameiginlega forsjá yrðu hagsmunir barnsins að vera foreldrum að leiðarljósi. Þess vegna verði að vera fjölskylduráðgjöf til að leiðbeina foreldrum í því efni.
    Eins og áður hefur verið sagt má skilja þau sjónarmið sem hér liggja að baki en þegar hefur verið lýst ýmissi þjónustu sem til boða stendur en það er einmitt markmið sameiginlegrar forsjár að efla foreldraskyldur beggja foreldra og að byggt sé á samkomulagi foreldra.
    Það eru margir sem bíða eftir þessari heimild og það er ljóst að skipt forsjá getur einnig valdið foreldrum erfiðleikum og verið börnum erfið ákvörðun. Þess vegna er í því sambandi rétt að benda á að það getur verið mjög erfitt fyrir foreldri að þurfa nánast gefa eftir forsjá barns.
    Einnig þekkja margir til vandamála er snerta umgengnisrétt og því er von til þess að heimild til sameiginlegrar forsjár verði til að leysa eitthvað úr þeim vandamálum sem þar geta verið á ferðinni.
    Að sjálfsögðu er um mjög vandmeðfarið mál að ræða og ekki algilt að það verði til þess að leysa erfiðustu málin, en getur samt orðið til þess að leysa ýmis ágreiningsmál og er það vel. En þó er aðalatriðið, eins og ýmsir hafa reyndar bent á í þessum umræðum, að þarna er verið að efla foreldraskyldur beggja foreldra og eins og kveðið er á um í sáttmála Sameinuðu þjóðanna. En að sjálfsögðu eiga hagsmunir barnsins að vera foreldrum að leiðarljósi.
    En þetta er einungis heimild sem frv. mælir fyrir um, það er engin skylda og byggir alfarið á samkomulagi foreldra. Þessu ákvæði er lýst mjög rækilega í athugasemdum með frv. og ég hvet hv. þm. eindregið til að kynna sér það sem þar kemur fram í löngu og miklu máli.
    Hv. 3. þm. Reykv. gerði grein fyrir sínum fyrirvara varðandi þetta frv. og talaði um tískustefnur, þar á meðal væri sameiginleg forsjá. Ég get ekki tekið undir þau orð, ég held einmitt að í þessu úrræði sé staðfestur skilningur manna á því enn frekar að báðir foreldrar beri ábyrgð á uppeldi og þroska

barna sinna. Hann vísaði einnig í varnaðarorð frá stjórn Dómarafélagsins, m.a. í því efni að þarna sé e.t.v. verið að fresta erfiðum ákvörðunum, og vissulega eru þetta varnaðarorð sem má hafa í huga. Það er þess vegna því meiri ástæða til að hvetja til þess, bæði gagnvart dómsmrn. og sýslumönnum og þeim sem eiga um þessi mál að sýsla, að foreldrar séu upplýstir rækilega um réttarstöðu sína og barna sinna ef þeir ákveða að ná samkomulagi um sameiginlega forsjá.
    Hann nefndi enn fremur 61. og 70. gr. frv. sem væru tvímælalaust til hagsbóta fyrir börn. Þessi atriði voru einmitt ítarlega rætt í allshn. og ræddi ég þau sérstaklega í framsögu minni áðan en að því er ég best man var það einungis Dómarafélagið sem gerði athugasemdir við þessi ákvæði en fjölmargar umsagnir bárust að sjálfsögðu um frv. í heild sinni.
    Varðandi þetta tvíþætta úrlausnarkerfi, þ.e. að dómstólaleiðin verði aðalreglan en hins vegar geti foreldrar farið fyrir dómsmrn. ef þeir eru sammála um það, þá er það álit meiri hluta nefndarmanna að það þyki rétt að bjóða upp á stjórnvaldsleiðina enda þótt dómstólaleiðin sé aðalreglan og það hefur líka verið bent á að í athugasemdum með frv. er gert ráð fyrir því að þessi leið, þ.e. dómstólaleiðin, verði þróunin. En til að byrja með a.m.k. sé rétt að foreldrar geti, ef þeir eru því sammála, farið með mál sitt fyrir dómsmrn. svona svipað og um gerðardóm væri að ræða og báðir aðilar sammála því. Þetta er þjónusta við fólk og ódýrari kostur enda þótt það séu vissulega skiljanleg sjónarmið og í samræmi við aðskilnað dóms- og framkvæmdarvalds að dómstólaleiðin væri alfarið farin.
    Hv. 9. þm. Reykv. ræddi nokkuð um þetta mál einnig og taldi fagnaðarefni að málið hefði fengið svo vandaða meðferð í allshn. og rifjaði upp að tillögur um sameiginlega forsjá hafi áður komið fram. Það er líka rétt. En hins vegar komu þær tillögur kannski fram í því formi að það var ekki neitt skýrt í sjálfu sér hvað fólst í þessu úrræði þannig að það er kannski fyrst núna sem menn átta sig á því hvaða reglur eiga að gilda og t.d. það atriði að það foreldri, sem barn verður með lögheimili hjá, fái réttarstöðu einstæðs foreldris skiptir mjög miklu máli í augum sumra þar sem það foreldri á þá rétt á meðlagsgreiðslum frá hinu foreldrinu, það hefur rétt einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum, varðandi dagvistun o.s.frv. Þetta er afar mikilvægt.
    Hv. þm. gerði nokkuð að umræðuefni að sifjalaganefnd hafði haft á því áhuga að e.t.v. ætti að stofna sérstakt embætti umboðsmanns barna og hv. 14. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir hafði líka mörg stór orð um það mál. Þetta mál er til meðferðar í allshn. eins og ég mun gera betur grein fyrir á eftir.
    Hv. þm. Svavar Gestsson hafði einnig áhyggjur af heimildinni um sameiginlega forsjá og af því að hún tæki ekki síður mið af hagsmunum foreldranna en barnanna og það lægi ekki á þessari heimild. Ég tel að ég hafi gert grein fyrir áliti meiri hluta nefndarmanna hvað þetta atriði varðar og að sjálfsögðu legg ég á það ríka áherslu að það er ekki verið að skerða þá grunnreglu að foreldrar geti eftir sem áður farið með skipta forsjá barna sinna ef þau kjósa það.
    Það er að vísu rétt að ýmsir umsagnaraðilar hafa bent á þörf þess að koma upp fjölskylduráðgjöf jafnhliða úrræðinu um sameiginlega forsjá en það voru þó ekki allir og það má í sjálfu sér segja að það séu skiljanleg sjónarmið en þó hefur áður verið bent á það að þessi þjónusta er á mörgum stöðum í þjóðfélaginu. Það sem hefur kannski verið svolítill misskilningur í þessu efni er þegar t.d. kemur fram í minnihlutaáliti að ráðgjöfin eigi að vera til staðar áður en foreldrar taka ákvörðun um sameiginlega forsjá, þá er sýslumönnum og þeim sem um þessi mál eiga að fjalla fyllilega treystandi til þess að útskýra fyrir fólki hvaða réttaráhrif felast í þessari heimild. Hins vegar má frekar taka undir það atriði að þörf væri á slíkri fjölskylduráðgjöf þar sem foreldrar eiga í deilum um forræði barna sinna, en ekki þegar þau eru sammála um að fara þessa leið.
    Hv. 5. þm. Reykv. kom með nokkrar athugasemdir og ég svaraði þeim áðan. Það voru athugasemdir varðandi 15. gr. frv. um sérstök framlög sem ég hefði talið rétt að kæmu fram í framsögu en fórst hins vegar fyrir og tel ég það miður en hef þó leiðrétt það.
    Varðandi sameiginlega forsjá og brtt. meiri hlutans þar sem ákveðið var að bæta því við að kveða á um það að barnið skuli eiga lögheimili á öðrum staðnum og hafa að jafnaði búsetu, þá er rétt að taka það fram eins og reyndar var gert í framsögu að þarna er um að ræða frávik frá lögheimilislögum þar sem búseta og lögheimili fara yfirleitt saman en það á ekki við í þessu tilviki. Ég tel rétt að það komi hér skýrt fram vegna þess að slíkt væri andstætt eðli sameiginlegrar forsjár eins og hv. þm. benti á. Ég hygg því að það sé ekki ágreiningur um það í nefndinni að við höfðum þá túlkun í huga.
    Varðandi 13. gr. frv., þ.e. að framfærsluskyldan falli niður þegar börn ganga í hjónaband, nema sýslumaður ákveði annað, þá er nauðsynlegt að hafa í huga að hér er átt við ungmenni sem eru undir 18 ára aldri, þ.e. ungmenni sem þurfa að fá undanþágu frá dómsmrn. til þess að mega ganga í hjónaband og það eru mjög fá tilvik. Ætli þau séu nema tvö til þrjú á ári og er alveg ljóst að þetta ákvæði í 13. gr. yrði einungis notað í algjörum undantekningartilvikum.
    Varðandi 4. mgr. 34. gr., ákvæði um það að rétt sé að spyrja 12 ára barn um álit varðandi forræðisdeilur, þá þótti nefndinni rétt að hafa það ákvæði áfram í frv. í stað þess að fella alla aldursviðmiðun úr gildi þar sem við töldum að það mundi tryggja enn betur rétt barna sem hafa náð þessum þroska þó að sjálfsögðu sé erfitt að miða þroska barna alfarið við aldur. Þetta er líka spurning um afmælisdag og ýmislegt fleira sem kemur þar inn í. Auðvitað er æskilegt að leita álits sem flestra barna, en það er líka fyllilega heimilt samkvæmt frv. að gera það og hefur verið í framkvæmd.

    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir lýsti sig sammála frv. í meginatriðum og einkum þessu merkilega nýmæli um sameiginlega forsjá. Hún taldi að það væri réttur barnsins að slík heimild væri fyrir hendi og að Alþingi ætti að móta þá stefnu að báðir foreldrar beri ábyrgð á barni sínu. Hún hafði hins vegar meiri áhyggur af þessu tvíþætta úrlausnarkerfi. Hún hafði mörg orð um það mál sem hún er 1. flm. að, um umboðsmann barna, og bæði hún og hv. 9. þm. Reykv. lögðu fyrir mig fyrirspurn um hvernig þetta mál stæði í allshn. Þá vil ég upplýsa það að frv. um umboðsmann barna, þ.e. 123. mál þingsins, var vísað til allshn. þann 4. des. sl. Umsagnir sem borist höfðu á 113. löggjafarþingi voru settar í möppur nefndarmanna um miðjan janúar, en það voru umsagnir frá Sálfræðingafélagi Íslands, Foreldrasamtökunum, Þroskahjálp, Barnaheill, Stéttarfélagi ísl. félagsráðgjafa, Barnavinafélaginu Sumargjöf, Félagi ísl. sérkennara, Félagi þroskaþjálfa, Fóstrufélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og fjmrn. Það var því opið fyrir alla nefndarmenn að taka upp umræðu um málið þegar frá þeim tíma, á fundum nefndarinnar. Þetta gilti að sjálfsögðu einnig um fulltrúa Alþb. í nefndinni.
    Til viðbótar taldi allshn. rétt að senda málið til umsagnar eftirtaldra aðila: Barnaverndarráðs, Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, félmrn., Kennarasambands Íslands, Félags barnalækna, sifjalaganefndar, Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands, umboðsmanns Alþingis og dómsmrn. Umsagnarfrestur er til 24. apríl nk.
    Eins og hér hefur verið viðurkennt í umræðum í kvöld hefur verið óvanalega mikið annríki í allshn. og víst er að ekki vinnst tími til að ljúka þar einhverjum málum og þar á meðal málum sem komu inn í nefndina þó nokkuð á undan þessu frv. um umboðsmann barna sem hér er um rætt. Þetta mál er hins vegar til umfjöllunar í nefndinni svo að þau ummæli eru ekki réttmæt að þessu máli hafi ekki verið sinnt með eðlilegum hætti. Hitt er annað mál að það geta ekki talist eðlileg vinnubrögð af hálfu löggjafans á Alþingi að fara fram á það að það frv. sem hér er til umfjöllunar verði ekki afgreitt fyrr en frv. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og fleiri þingmanna sé afgreitt.