Sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:35:00 (5523)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér talaði hið vegalausa barn Framsfl. og kunni bersýnilega ekki fótum sínum forráð. Ég taldi að við værum að ræða hið ágæta mál sem tveir þingmenn Sjálfstfl. hafa flutt en svo kemur hinn vegalausi þingmaður, hv. þm. Jóhannes Geir, í pontu og talar um lánamál námsmanna, um Byggðastofnun en ekkert um málið sem er til umræðu. Hann varpar því síðan framan í þingmenn að í salnum sé staddur múlbundinn þingflokksformaður Alþfl. og múlbinding hans komi fram í því að honum sé bannað að skrifa upp á frv. Ég veit ekki betur en ég sé búinn að skrifa upp á tillögur og frv. framsóknarmanna, ábyggilega hálft dúsín eða svo, á þessu þingi. Ég veit því ekki hvar hinn vegalausi þingmaður hefur verið staddur. Hann hefur ekki verið staddur á þessu Alþingi. En ég verð auðvitað að segja að það eru ákveðin rök fyrir því að ég kalla hann vegalausan þingmann. Það er vegna þess að hann kemur hér upp og bersýnilegt er að í brjósti þingmannsins bærist frjálslyndið og það stríkkar stundum á tjóðrinu, hann langar stundum að vera í flokki með okkur hinum, frjálslyndu þingmönnunum, en framsóknartaugin kippir honum auðvitað alltaf til baka. Hann kemur og segir að vitaskuld vilji hann styðja hið ágæta frumkvæði forsrh. sem varðar flutning Byggðastofnunar út á land. Þegar hann horfir svo fram í salinn kemur það náttúrlega fram að það eru ekki allir framsóknarmenn á sama máli. Þá er honum kippt aftur til baka og hann segir: Það er holur tónn í þessu. Ef það er hægt að sýna mér að ekki er holklaki undir þá skal ég styðja það, örugglega, kannski, ef.
    Ástæðan fyrir því að ég og aðrir þingmenn stjórnarflokkanna vildum ekki ljá nafn okkar á frv. hans um flutning ríkisstofnana út á land er auðvitað sú að mjög skýr stefnumótun liggur fyrir hjá ríkisstjórninni í þessum málum. Þingmaðurinn kann t.d. þá bók sem stundum er kölluð hvíta músin en heitir hvíta bókin, miklu betur en ég og vísar oft í hana hér. Hann veit að hún er öll útbíuð í yfirlýsingum um að flytja eigi ríkisstofnanir út á land. Þegar hann talar um að holur tónn sé í þessu þá vill svo til að nákvæmlega í þeirri ágætu tillögu sem nú er til umræðu er einmitt verið að ræða um að flytja rannsókna- og upplýsingastofnanir sem tengjast sjávarútvegi út á land.
    Að endingu skora ég á þennan ágæta þingmann að koma hingað upp og segja okkur hvort hann sé með eða á móti tillögu forsrh. um að flytja Byggðastofnun til Akureyrar. Eða er hann bara svona gamall og hefðbundinn framsóknarmaður, bæði með og á móti?