Sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:37:00 (5524)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér talaði sá hv. þm. sem fyrir nokkrum dögum fékk skrifaða um sig heila grein í einu glanstímaritanna þar sem honum var sérstaklega lýst sem fulltrúa hinnar vegalausu '68-kynslóðar í pólitík. Ég náði því ekki alveg upp í ræðu hans um vegaleysið.
    Hins vegar varðandi skýr markmið í hinni hvítu bók skal ég segja það hér og nú að ég hef aldrei gert nokkurn skapaðan hlut með nokkuð sem stendur í stjórnarsáttmála fyrr ég sé eitthvað af því í verki. Og ég hef af því bitra og langa reynslu. Ég geri því í sjálfu sér ekkert með fyrirheit í hinni hvítu bók fyrr en ég sé þess merki í starfi ríkisstjórnar eða Alþingis að þetta sé eitthvað meira en stafir á blaði. Enn þá hefur ekkert komið fram annað en mjög óljósar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um flutning Byggðastofnunar. Ég bendi hv. þm. á að svarræða hæstv. forsrh. um flutning ríkisstofnana og flutning stofnana út á land snerist nánast öll um það að tína fram mótrök gegn slíkum flutningi. Af klókindum setti hæstv. forsrh. það að vísu fram sem skoðanir annarra manna. Ég veit ekki hver tilgangurinn var með því að eyða nánast öllum þeim knappa tíma sem hann hafði í að lesa upp íslenskan og erlendan rökstuðning gegn slíkum verknaði. Það mundi hv. þm. sjá ef hann læsi það sem þar stóð og var sagt.