Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:03:00 (5533)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Embætti þjóðminjavarðar er tvímælalaust eitt fremsta virðingarstarf íslenskrar menningar. Þjóðin hefur verið þessarar skoðunar lengi og hefur það kannski aldrei betur komið í ljós en þegar Kristján Eldjárn var kosinn forseti Íslands árið 1968. Nú hefur hins vegar skipt um í íslensku stjórnarfari á öllum sviðum. Nú hefur verið ákveðið að ráða sem þjóðminjavörð í embætti þeirra Matthíasar Þórðarsonar, Kristjáns Eldjárns og Þórs Magnússonar, mann sem hefur að vísu BA-próf í sögu og hefur verið starfsmaður Sjálfstfl. Annað hefur hann ekkert til síns ágætis. Ákvörðun Ólafs G. Einarssonar, hæstv. menntmrh., um að ráða Guðmund Magnússon sem þjóðminjavörð í tvö ár er margfalt hneyksli, en vissulega þó aðeins hápunkturinn á ráðningu hans á mönnum til starfa í æðstu embætti. Nægir þar að nefna framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna og ráðningu skólastjóra Leiklistarskólans.
    Í síðustu ríkisstjórn beitti ég mér fyrir því að embættisveitingavald yrði í raun tekið af menntmrh. í öllum háskólastofnunum. Því miður fengu menningarstofnanirnar ekki sömu lagameðferð. Það voru alvarleg mistök en skýrast af því að enginn --- ég segi enginn --- hafði hugmyndaflug til þess að ímynda sér að ráðherra gripi til annarrar eins ósvinnu og þeirrar sem nú liggur fyrir að því er varðar ráðningu þjóðminjavarðar. Þess vegna er nú hætta á því, í fullri alvöru, virðulegi forseti, að t.d. Hannes Hólmsteinn Gissurarson verði ráðinn forstjóri Þjóðarbókhlöðunnar og Sveinn Andri Sveinsson næsti landsbókavörður, svo tvö dæmi séu nefnd, því miður býsna nærtæk.
    Ég sagði margfalt hneyksli. Í fyrsta lagi vegna þess að ráðning Guðmundar Magnússonar er fráleit frá faglegu sjónarmiði. Þjóðminjavörður á að vera æðsti maður íslenskrar þjóðminjamenningar innan lands og utan, t.d. á alþjóðavettvangi og alþjóðlegum ráðstefnum af ýmsu tagi. Þar mæta sérfræðingar úr öllum heiminum og það er augljóst að starfandi þjóðminjavörður og settur mun ekki ráða við það hlutverk.
    Í öðru lagi vegna þess að freklega er gengið fram hjá öllu starfsliði Þjóðminjasafns Íslands, þjóðminjaverði og starfsfólki hans. Ekkert samráð er haft við þessa aðila. Ráðningin er eins og blaut tuska framan í þetta fólk og alla þá sem bera virðingu fyrir rannsóknum og vísindalegu starfi í íslensku þjóðfélagi.
    Í þriðja lagi ber svo að gagnrýna þessa ráðningu á þeim forsendum að það eru lög brotin af því að safnstjóri á samkvæmt lögum að taka við og leysa þjóðminjavörð af. Því spyr ég hæstv. menntmrh., virðulegi forseti:
    1. Af hverju auglýsti hann ekki starfið úr því hann taldi nauðsynlegt að setja annan mann í það?
    2. Af hverju gekk hann fram hjá starfsmönnum safnsins?
    3. Af hverju bað hann þjóðminjaráð ekki um tillögur?
    4. Hvaða fagleg rök eru fyrir því að ráða Guðmund Magnússon til starfans?
    5. Tók hæstv. menntmrh. þessa ákvörðun í samráði við forsrh. og fjmrh. og Alþýðuflokkinn?
    Og að lokum: Er ráðherra reiðubúinn til þess að afturkalla þessa dæmalausu ákvörðun sína?