Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:12:00 (5536)

     Drífa Hjartardóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu setning Guðmundar Magnússonar í stöðu þjóðminjavarðar til tveggja ára. Það er einkennilegt að þyrla upp þvílíku moldviðri út af þessari stöðuveitingu og það er af og frá að stöðuveitingin sé hneyksli. Guðmundur Magnússon er vel menntaður til að taka að sér starfið. Hann er áhugasamur og hefur boðað að hann hugsi sér að fara nýjar leiðir til að afla fjár fyrir safnið. Ekki veitir af því að að Þjóðminjasafninu hefur ekki verið hlúð eins og skyldi hvað varðar fjárveitingar.
    Við Íslendingar eigum margar og merkilegar þjóðargersemar sem við höfum ekki sinnt á þann hátt sem okkur ber. Hver sú þjóð sem vill láta líta á sig sem menningarþjóð verður að sýna í verki að á eftir orðum komi athafnir. Allt of lengi höfum við sofið á verðinum og skorið við nögl fjárveitingar til varðveislu menningararfleifðar okkar. Ferðamenn sem hingað koma, jafnt sem Íslendingar sjálfir, vilja og eiga rétt á að fá að kynnast sögu og menningu þjóðarinnar. Við eigum að hafa metnað til að sinna þessum málefnum af einurð og dug. Ég treysti Guðmundi Magnússyni til allra góðra verka. Með honum munu nýjar hugmyndir og ferskir vindar blása um Þjóðminjasafnið.