Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:19:00 (5540)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir að fá þessa umræðu hér fram, enda held ég að hún sé mjög nauðsynleg. Hann taldi upp nokkrar pólitískar embættaveitingar og það mætti bæta við það löngum lista. Ég nefni aðeins tvennt nýlegt sem hann nefndi ekki og það er t.d. þegar Birgir Ísl. Gunnarsson var ráðinn seðlabankastjóri, þegar Jakob Frímann Magnússon var ráðinn sérlegur menningarfulltrúi í utanríkisráðuneytinu og svona mætti auðvitað lengi telja.
    Pólitískar embættisveitingar hafa tíðkast á Íslandi talsvert lengi og það er miður. Þetta eru frumstæð vinnubrögð sem ættu ekki að tíðkast og eru í rauninni móðgun við fagfólk sem nennir ekki að rekast í pólitískum flokkum.
    Hv. 1. þm. Suðurl., Drífa Hjartardóttir, kom upp og varði þessa stöðuveitingu og sagði m.a. að allt of lengi hefðum við Íslendingar skorið fjárveitingar við nögl til Þjóðminjasafnsins. Það er vissulega rétt en stöðuveiting Guðmundar Magnússonar breytir væntanlega engu þar um. Það verður ákveðið á Alþingi af fjárveitingavaldinu hverju sinni nema þá það sé hugmyndin að Guðmundi Magnússyni fylgi einhver sérstakur heimanmundur inn á Þjóðminjasafnið. Það kemur mér á óvart en ég fagna því ef svo er að það á að fara að veita meiri fjármunum til safnsins.
    Ég ætti kannski ekki að standa hér og harma það að Guðmundur Magnússon skyldi ráðinn í þetta starf vegna þess að ég sé það fyrir mér að ég á afskaplega glæsta framtíð fyrir höndum. Ætli ég sé ekki með svipað pungapróf í sagnfræði og Guðmundur Magnússon. ( Gripið fram í: Þú ert ekki fallkandídat.)