Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:31:00 (5545)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er á þskj. 194 um eflingu íþróttaiðkunar kvenna.
    Flm. þessarar tillögu eru allar konur sem sæti eiga á Alþingi. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að gert verði átak til að efla íþróttaiðkun kvenna. Áhersla verði lögð á mikilvægi íþrótta í líkamlegu og félagslegu uppeldi og sem fyrirbyggjandi aðgerðir til að bæta heilsu og vinnuþrek. Fjárframlög ríkisins til íþrótta skulu veitt með það að markmiði að gera íþróttaiðkun kvenna og karla jafnhátt undir höfði.``
    Flestir ættu að geta verið sammála um hve mikilvægar íþróttir eru bæði fyrir líkamlegt og félagslegt uppeldi fólks. Það sem hefur verið ágreiningsefni þeirra sem fjalla um íþróttir er hins vegar þær áherslur sem ríkjandi eru hjá þeim sem ráða ferðinni í þessum málum. Mest áherslu hefur verið lögð á þjálfun meistaraflokks karla og landsliða karla í boltaíþróttum. Þessi lið fá einnig mesta fjármagnið.
    Ég tel fulla ástæðu til að efast um réttmæti þessa. Sem dæmi um þetta þá þarf íslenska kvennalandsliðið í handknattleik sjálft að afla fjár til að geta tekið þátt í mótum erlendis. Nú fyrir skömmu, föstudaginn 3. apríl, var haldið svokallað kvennakvöld á Hótel Íslandi og í boðsbréfi, sem allar konur á Alþingi fengu og mjög margar konur í þjóðfélaginu segir, með leyfi forseta:
    ,,Ástæðan fyrir þessu kvöldi er sú að íslenska kvennalandsliðið í handknattleik þarf alfarið að standa straum af kostnaði vegna starfsemi sinnar og til að framhald megi verða á þeirri starfsemi hefur landsliðsnefnd ákveðið að fara út í þessa fjáröflunarleið.`` Konurnar í handknattleik þurfa sem sagt sjálfar að kosta ferð sína til að geta tekið þátt í móti á erlendri grundu. Þetta þurfa karlarnir ekki að gera á sama hátt.
    Á Íslandi stunda um 100 þús. manns íþróttir innan íþróttahreyfingarinnar og er áætlað að um þriðjungur sé konur. Orsakirnar fyrir því að svo fáar konur stunda íþróttir eru margar. Konur innan íþróttahreyfingarinnar og þeir, sem vilja leggja aukna áherslu á kvennaíþróttir, benda á margvíslegar ástæður. Má hér nefna nokkrar. Margir forráðamenn íþróttafélaganna vilja ekki hefja unglingastarf í stelpuíþróttum. Telja jafnvel að það henti stelpum illa að stunda ákveðnar íþróttum. Margoft hefur verið sagt t.d. að fótbolti passi ekki fyrir stelpur og þess vegna eigi ekkert að hafa sérstaka flokka fyrir stelpur. Virðing fyrir kvennaíþróttum ríkir ekki hér á landi. Auðvitað þarf að breyta þessu.
    Þegar félög ráða þjálfara er sagt af mörgum að fyrst sé ráðið til meistaraflokks karla síðan eru ráðnir þjálfarar fyrir yngri flokka og kvennaflokka sem verða þá afgangsstærðir. Ég tek fram að þetta þekki ég ekki af eigin raun. Ég hef sjálf ekki starfað í þessu. Ég hef eingöngu verið foreldri, á tvo stráka, þannig að ég hef ekki dæmi um þetta nema frá öðrum. Þetta hefur mér verið sagt.
    Það er allt of algengt að þegar tímum í íþróttahúsum er úthlutað fá stúlknaflokkar og kvennaflokkar undantekningarlítið færri tíma en strákar. Karlaflokkar fá oft þann tíma sem þeim hentar en konur mæta afgangi. Þegar ég segi karlaflokkar þá eru það auðvitað yngri krakkarnir sem oft fá verri tíma en þeir sem eldri eru.
    Meiri hluti fjármagns íþróttafélaganna fer í að reka meistaraflokk karla en langtum minni áhersla er lögð á að veita fjármagni til kvennaíþróttanna. Ég hef þegar nefnt að fyrir íþróttakeppnir erlendis þurfa konurnar oft að standa í því í margar vikur að afla fjár og hafa varla tíma til að æfa.
    Það eru líka allt of fáar konur í stjórnunarstöðum í íþróttahreyfingunni og í forustu hennar. Ef ég man rétt þá eru t.d. eingöngu þrjár konur í stjórn HSÍ af 21. Þannig að það er margt sem þarf að breyta að mínu mati í þessum efnum.
    Fjölmiðlar endurspegla oft viðhorf íþróttahreyfingarinnar til kvennaíþrótta. Mjög lítið er fjallað um hvað konur eru að gera í íþróttum á íþróttasíðum dagblaðanna. Það er ekki boðleg skýring að fólk vilji ekki lesa um það sem konur eru að gera á íþróttasviðinu. Margt af því sem þær eru að gera er mjög áhugavert. Og fyrir okkur konur er mjög áhugavert að fylgjast með konum í íþróttum. Ég vil taka það fram með sjálfa mig að ég hef gaman af að horfa á íþróttir og horfi mjög mikið á karlaíþróttir vegna þess að það er mjög lítið um kvennaíþróttir í sjónvarpinu. En fyrir skömmu var sýndur leikur frá Kína frá heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu og einn skemmtilegasti knattspyrnuleikur sem ég hef séð var sú kvennaknattspyrna sem þar var sýnd. Það er líka í eina skiptið sem ég hef haft tækifæri til að horfa á kvennaknattspyrnu fyrir utan að ég hef að vísu horft á leiki. Ég hef horft á kvennafótbolta tvisvar sinnum upp á Akranesi sem er allt of sjaldan.
    Sundíþróttin er ein þeirra íþrótta þar sem nokkurt jafnræði virðist vera í uppbyggingu milli stelpna og stráka. Strákar og stelpur fá að byrja á æfingum á sama aldri og umfjöllun um stelpur og stráka í fjölmiðlum er ósköp svipuð þó hún sé að vísu ekki mikil. Sami þjálfari er fyrir bæði kynin og ef farið er í keppnisferðir er ekki spurt um kynferði þegar ákveðið er hverjir skuli taka þátt í ferðinni.
    Af þeim, sem iðka sund sem keppnisgrein, er um 72% konur. Stúlkur hafa besta möguleika á að stunda sund, fimleika og ballett. Það eru taldar stelpuíþróttir og það er mikið fyrir þær gert og þjálfun hefst snemma. Kröfurnar í þessum greinum eru hins vegar mjög miklar og þess eru dæmi að stúlkur æfi allt upp í 30 tíma á viku í fimleikum og sundfólk æfir allt að 4--6 tíma á dag. Það eru ekki allir sem vilja þjálfa svo mikið. Það eru mjög margir sem gjarnan vildu taka þátt í reglulegri þjálfun en ekki svo stífri þjálfun sem þarna er um að ræða.
    Konur hafa hins vegar mjög mikinn áhuga á íþróttum og það er mjög algengt að konur stundi íþróttir á líkamsræktarstöðum. Á Reykjavíkursvæðinu hefur komið í ljós að hlutfall kvenna, sem stunda þar æfingar, er vel yfir 50% þó aðeins þriðjungur af þeim sem eru í íþróttahreyfingunni séu konur. Það er ekki vegna þess að þær vilji ekki stunda íþróttir.
     Í flestum tilvikum þurfa konur því að borga mikið meira fyrir að fá að stunda sínar íþróttir því það er auðvitað nokkuð dýrt að stunda íþróttir á þessum heilsuræktarstöðvum þó það sé á einstaka stað niðurgreitt að einhverju leyti.
    Það er mjög mikilvægt fyrir heilsu og vinnuþrek að stunda íþróttir. Fullvíst má telja að hluti skýringa á því hvers vegna konur þurfa að leita læknis og til sjúkraþjálfara vegna álagssjúkdóma megi finna í að færri konur stunda íþróttir en karlar. Fjármunir íþróttahreyfingarinnar koma úr ýmsum áttum. Þar má nefna styrki frá ríki og bæjarfélögum, svo og lottó, getraunir, happdrætti, auglýsingar, sjónvarpstekjur vegna útsendinga, innkoma af leikjum, áhorfendur koma og greiða sig inn þannig að ríkissjóður, bæjarfélög, ríkisfyrirtæki, almenn fyrirtæki og almenningur styrkja íþróttahreyfinguna og ég vona flestir í þeirri góðu trú að allir, bæði konur og karlar, strákar og stelpur, njóti jafnt. En því miður þá virðist ekki svo vera.
    Í Noregi var gert átak í kvennaíþróttum með góðum árangri. Á árunum 1984--1986 ákvað norska handknattleikssambandið að verja jafnmiklum fjármunum til uppbyggingar kvenna- og karlalandsliða sinna. Þá voru bæði liðin í svokölluðum C-hópi keppnisþjóða. Árið 1986 varð norska kvennalandsliðið nr. 3 á heimsmeistaramóti kvenna og hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 1988. Á þessu gætum við heilmikið lært. Og ættum þess vegna að stefna að því að verja jafnmiklum fjármunum í kvenna- og karlaíþróttir.
    En það er ekki nóg að verja eingöngu fé í keppnisíþróttir. Það er mjög mikilvægt að styðja almenningsíþróttir og þannig er fjármunum vel varið. Þar eru þeir sem vilja stunda íþróttir án þess að stefna að því að verða endilega framarlega í keppni og þar eru konur mjög fjölmennar.
    Ég vil minnast á átak sem gert var á Seltjarnarnesi og greint er frá m.a. í Nesfréttum, sem er blað gefið út á Seltjarnarnesi, í nóvember 1991. Þar segir frá því að Margrét Jónsdóttir íþróttakennari hafi verið ráðin á vegum bæjarfélagsins til að stýra svokölluðum trimmklúbbi. Í honum eru flestir á aldursbilinu 30--55 ára. Það eru aðallega konur, allt upp í 60 ára, en auðvitað eru karlar þar líka. Þau hafa gengið nokkrum sinnum í viku og fara síðan oft í sund á eftir og læra sumir að synda sem ekki hafa kunnað það fyrir og sagt er frá því í blaðinu að allt upp í 40 manns taki þátt í þessum trimmhópi. Þannig að áhuginn er alls staðar mjög mikill á íþróttum sem betur fer. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta er undirstaða og mikilvægt fyrir okkur sem erum allt of mörg mikið kyrrsetufólk og þurfum auðvitað að stunda íþróttir til að halda heilsunni.
    Mig langar, virðulegur forseti, áður en ég lýk máli mínu að minnast á athugun sem gerð var af hálfu Félagsvísindastofnunar fyrir ÍSÍ um íþróttaefni í fjölmiðlum. Þar kemur fram að hlutur kvenna í fjölmiðlum, þ.e. í ljósvakamiðlum og dagblöðum, er ákaflega rýr. Eins og ég sagði áðan þá eru konur um 1 / 3 þeirra sem stunda íþróttir í skipulögðum íþróttahreyfingum. Hlutur kvenna í fjölmiðlunum er einungis um 8% í ljósvakamiðlunum og 11% í dagblöðunum sem sýnir auðvitað að það er mjög mikil skekkja á þessu sviði ef eingöngu er miðað við þær konur sem taka þátt í íþróttum. En auðvitað væri það æskilegast að jafnmargar konur og karlar tækju þátt í íþróttahreyfingunni bæði í stjórnum, nefndum og ráðum en það sem skiptir auðvitað mestu máli er að taka þátt.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til málinu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.