Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:45:00 (5546)


     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Efling reglulegrar íþróttaiðkunar kvenna er að mínu mati veigamikill þáttur sem getur stuðlað að jafnrétti. Regluleg íþróttaiðkun eflir ekki aðeins þol og þrek, hún eflir einnig sjálfstraustið, trú á eigin mátt.
    Um langan aldur hafa hefðbundnir leikir pilta falist að stórum hluta í íþróttum og tengdum leikjum enda var þá undirbúið undir framtíðina þar sem karlmenn skyldu stunda erfiðis- og áhættustörf. Þetta hefur ekki átt við um stúlkur. Leikjaform þeirra hefur að minni hluta til byggst á íþróttum og tengdum

leikjum, leikir þeirra hafa frekar beinst að væntanlegu móðurhlutverki og kvenímynd. Sem betur fer hafa áherslur í leikjum þeirra breyst á undanförnum árum og íþróttaiðkun aukist. En með breyttum þjóðfélagsaðstæðum og breyttu hlutverki kynjanna, þar sem jafnar kröfur eru gerðar til beggja, er hins vegar nauðsynlegt að bæði kynin verði hvött til að undirbúa sig undir lífsstarfið og halda sér við í samræmi við nútímakröfur. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að stúlkur eða konur, sem stundað hafa reglulega íþróttaiðkun, einkum flokka- eða keppnisíþróttir, hafa að meðaltali nokkra yfirburði á vinnumarkaðnum umfram stöllur sínar. Sem dæmi má nefna eftirfarandi þætti: Meiri yfirsýn yfir verkefni, meiri hæfileika til að beita skipulagðri ,,taktík`` eða leikfléttum í starfi, meiri keppnisanda, þær kunna betur að þola tap og aðskilja betur verkefni frá persónulegum tilfinningum.
    Þessi till. til þál. beinist því ekki að því að jafna fjárveitingu og aðstöðu milli kynjanna íþróttanna vegna heldur hvetur tillagan til þess að kynin standi jafnar að vígi til að takast á við þau verkefni sem bíða kvenna og karla sameiginlega í nútímaþjóðlífi sem byggist á jafnri þátttöku og jöfnum kröfum til kvenna og karla í atvinnulífinu.