Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 15:15:00 (5550)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég byrja á því sem ég hafði hugsað mér að gera að meginumræðuefni mínu vil ég aðeins fá að víkja orðum mínum að hv. síðasta ræðumanni sem ég efast ekki um að hefur mikla og góða þekkingu á íþróttum, alla vega einhverri hlið þeirra. Spurningin er hins vegar sú: Hvað er svona hættulegt við það að gera báðum kynjunum jafnhátt undir höfði? Það skil ég ekki og það get ég ekki og mun aldrei skilja. Ég held að það hljóti að vera mjög jákvætt að gera fólki jafnhátt undir höfði ef það hefur áhuga á að stunda íþróttir. Ég vona að mér hafi hreinlega misheyrst.
    Það sem ég held hins vegar að sé meginatriði er að hér hafa einatt verið nokkur átök á milli þeirra sem vilja fyrst og fremst veita fjármagni til keppnisíþrótta og svo hinna sem vilja fremur að athyglinni sé beint að almenningsíþróttum. Báðir hafa auðvitað nokkuð til síns máls. Það er ekki nokkur vafi að keppnisíþróttir hafa að mörgu leyti eflt íþróttaáhuga og það er heldur ekki vafi að almenn íþróttaiðkun er lyftistöng fyrir þá sem stunda keppnisíþróttir. Hér ætti því að vera samstaða og samfella en ekki sundrung. Það á hins vegar ekki að þýða að ekki ætti að vera hægt að snúa sér að því að sinna þeim sem standa höllum fæti. Ég þekki það bæði sem kona, sem hefur stundað íþróttir bæði innan ungmennafélaga og á þeim frjálsa markaði sem margir leita á eftir að þeir eru komnir á fullorðinsár og ungmennafélagið fullnægir e.t.v. ekki lengur þörfunum, og sem foreldri stúlku sem er afskaplega áhugasöm um fótbolta. Ég þykist vita um hvað ég er að tala þegar ég segi að ekki veiti af átaki. Ég er ekki að segja að aðrir megi ekki fá sitt og séu ekki alls góðs maklegir. Ég er bara að benda á að þarna er virkilega þörf á að veita meiri orku og meira fjármagni einnig til sérstaks átaks vegna íþróttaiðkunar kvenna.
    Ekki er langt síðan á Alþingi var samþykkt ályktun um heilbrigði allra árið 2000. Markmiði þessarar ályktunar hefur verið best lýst þannig að það sé að bæta árum við lífið og lífi við árin. Eitt af því, sem er mjög mikilvægt í því sambandi, er að það sé heilbrigt líf sem fólk á kost á að stunda og vaxandi almenn íþróttaiðkun er hluti af þeirri öldu meðvitundar um ábyrgð hvers einstaklings á heilsu sinni, velferð og umhverfi sem við sem höfum betur fer orðið vitni að að undanförnu.
    Þátttakendafjöldi í almennum íþróttum og val á íþróttagreinum markast af ýmsu. Við getum ekki litið fram hjá því. Í fyrsta lagi markast fjöldi þátttekanda af þeirri aðstöðu sem er fyrir hendi og þeirri athygli sem íþróttin nýtur, m.a. í umfjöllun fjölmiðla. Einnig þeirri hvatningu sem er fyrir hendi t.d. í skólum og í starfi frjálsu félaganna. Auðvitað hefur það svo mikið að segja upp á hvers konar þjálfun boðið er. Og þar gildir það að til þeirrar þjálfunar verður að vanda.
    Því miður verður að segjast eins og er að að ýmsu leyti hafa konur staðið höllum fæti og þess vegna er þörf sérstaks átaks. Það þýðir ekki að gera þurfi verr við aðra heldur að koma á meiri jöfnuði. Á það hefur verið bent að nú þegar hafi karlafélögin, einkum þau sem tilheyra keppnisíþróttum, ákveðna sjóði og ákveðna möguleika á fjáröflun upp á eigin spýtur líka. Og það er svo sjálfsagt að mínu mati að ekki þarf að ræða það að það skiptir verulegu máli að sem flestir hafi sem besta aðstöðu.
    Ég vil einnig geta þess að það er mjög mikilvægt að spinna saman þá frjálsu íþróttastarfsemi sem stendur til boða og íþróttir í skólum. Mér hefur fundist nokkuð á það skorta og ég er ekki tilbúin til að koma með sundurliðaða lausn á þeim málum en ég held

að það væri vel þess virði að líta á að þarna væri e.t.v. um einhverja valáfanga að ræða innan skólakerfisins þar sem nemendur hefðu möguleika á að sækja út fyrir þá íþróttakennslu sem er í skólum. Það þarf jafnframt að vanda mjög vel til þeirrar íþróttakennslu sem þar stendur til boða og ég tel að margt sé þar raunar vel gert. Jafnframt þarf líka að hyggja vel að því að sú þjálfun sem boðið er upp á standist lágmarkskröfur og tilsögn sé rétt og góð og að hvatning sé mikil. Gott dæmi um jákvæða hvatningu er t.d. trimmhópurinn sem hv. 1. flm. tillögunnar nefndi. Auk þess vil ég geta mjög merkilegs átaks sem gert hefur verið í Garðabæ til að ýta sérstaklega undir íþróttaiðkun kvenna. Flestir þekkja sennilega best til eins hlutar af því sem þar hefur verið staðið fyrir en það er kvennahlaupið í Garðabæ sem þúsundir kvenna hafa tekið þátt í. Það er að mínu mati dæmi um mjög jákvætt og gott átak. Þarna var ákveðið að verja ákveðnum fjármunum til þess að ýta undir íþróttaiðkun kvenna og það lét ekki á sér standa, viðbrögðin voru afskaplega góð.
    Mér finnst full ástæða til að geta þess sem vel er gert og það ætti líka að vera okkur lærdómsríkt til að þann draga lærdóm að ef sérstakt átak er gert þá skilar það sér ef vel er að því staðið. Sem foreldri og kona sem hefur áhuga á íþróttum er mér það mikið hjartans mál að vel verði að þessu staðið.