EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:15:00 (5557)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera langorður um þessa tillögu þótt mikilvæg sé. Ánægjulegt er að sjá að hæstv. utanrrh. er genginn í salinn úr veisluhöldum í næsta húsi og illt að hann heyrði ekki ræðu framsögumanns sem drap á mörg þau mikilvægu atriði sem þarf að athuga í þessu sambandi, þ.e. EES-samninginn og íslensku stjórnarskrána.
    Nú hygg ég að megi telja nokkuð víst að af hálfu EB, nema e.t.v. EB-þingsins, sé ekkert því til fyrirstöðu að taka EES-samninginn til vandlegrar athugunar. Ég lít svo á að mikilvægast sé að gera það nú þegar, nota þann tíma sem er fram undan til að skoða vandlega öll atriði þessa mikilvæga samnings, kynna samninginn vel fyrir þjóðinni, athuga hvort þessi samningur geti orðið eins konar varnargirðing gegn því að við sogumst inn í Evrópubandalagið, athuga t.d. hvort unnt sé að líta á þennan samning sem, ef ég á nota það orð, anddyri að sérsamningi okkar við Evrópubandalagið en ekki sem anddyri að aðgangi að Evrópubandalaginu. Athuga þarf í því sambandi hvort unnt er að breyta ýmsum ákvæðum þessa samnings þannig að viðunandi geti orðið í sérsamningi okkar við Evrópubandalagið. Það er einnig afar nauðsynlegt að skoða hvernig settar verða upp þær hindranir eða girðingar sem lofað hefur verið þar sem fyrirvarar hafa ekki fengist samþykktir eins og við landakaupum og t.d. óeðlilegri fjárfestingu í orkukaupum og fleiru þess háttar.
    Eitt hið allra mikilvægasta sem þarf að skoða er einmitt samningurinn og íslenska stjórnarskráin. Það er satt að segja nokkuð undarlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki þegar hafa beitt sér fyrir slíkri formlegri athugun. Ég veit að rætt hefur verið við einstaka lögfræðinga en ítarleg athugun á þessu atriði hefur ekki farið fram að því er ég best veit.
    Aðrar þjóðir hafa ráðist í slíkt, t.d. Svíar, og þar eru nú komnar upp verulegar efasemdir um samninginn gagnvart sænsku stjórnarskránni, svo miklar jafnvel að ekki er talið útilokað að sænska ríkisstjórnin telji sér nauðsynlegt að gera vissar lagabreytingar.
    Við höfum hlustað á einstaka lögfræðinga, eins og rakið var af hv. frummælanda, og þeim ber ekki saman. Ég hlustaði nýlega á allítarlegt erindi frá Stefáni Má Stefánssyni prófessor um þetta atriði og eins og kom fram hjá hv. frummælanda telur prófessorinn að samningurinn stangist ekki á við stjórnarskrána en hann orðaði það sjálfur svo að ýmis atriði hans væru á gráu svæði, m.a. þau atriði sem hv. frummælandi rakti áðan og ég ætla ekki að fara að endurtaka. Ég tel að það sé í raun æðimikið sagt af manni sem kynnti sér samninginn vel að ýmis atriði hans séu á gráu svæði. A.m.k. er grátt svæði of grátt fyrir mig í þessu sambandi og ég vil ógjarnan sjá t.d. Hæstarétt Íslands komast að þeirri niðurstöðu síðar að einhver atriði samningsins séu ekki á gráu heldur á svörtu svæði, þ.e. gangi gegn íslensku stjórnarskránni. Ég held því að eitt af þeim atriðum sem ég nefndi í upphafi míns máls að nú þurfi að athuga og athuga mjög vel sé einmitt samningurinn með tilliti til stjórnarskrárinnar. Mér er ljóst að þetta er nokkuð mikið verk en ég veit að nokkrir lögfræðingar hafa skoðað samninginn og því ætti að vera unnt að ná saman sérfróðum mönnum sem gera þetta tiltölulega fljótt. Það verður aldrei gert á einni nóttu. Það tekur nokkurn tíma en þeir gætu gert það tiltölulega fljótt og vandlega.
    Ég er meðflutningsmaður að þessari tillögu, ekki til þess að lýsa andstöðu við samninginn eða fylgi við hann heldur til að lýsa þeirri bjargföstu skoðun minni að þegar svona viðamikill samningur er gerður verði að gæta allra slíkra grundvallaratriða. Það mega engar efasemdir vera um stjórnmálalegt eða stjórnarskrárlegt gildi þessa samnings. Það er von mín að hæstv. utanrrh., sem hefur unnið í þessum málum í mörg ár og hlýtur að vera það ekki síður kappsmál en mér og öðrum sem að þessari tillögu standa að samningurinn haldi,

bregði fljótt og vel við og láti slíka athugun fara fram.