EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:48:00 (5562)


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hv. þm., Eyjólfi Konráð Jónssyni, fyrir þau orð sem hann mælti hér. Ég vona að þau komist til skila til þjóðarinnar. Það voru mikil alvöruorð borin fram af manni sem hefur verið í varðstöðu fyrir íslenska hagsmuni á undanförnum áratugum varðandi fullveldismál okkar og sókn í þeim efnum.
    Hér fékk framkvæmdarvaldið, hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin öll, skilaboð frá formanni utanrmn., álit hans á þeim gjörningi sem hæstv. ráðherra segir okkur að sé verið að setja fangamark undir fyrir hans hönd, ráðherrans, en jafnframt áskorun um það að þessu verði forðað. Hafi það verið gert eða verði það gert, þá sé það ómerkt og formaður utanrmn. Alþingis tekur undir eða segir að hér sé stjórnarskrárbrot á ferðinni að hans mati. Auðvitað verður þetta mál að hafa sinn gang, en það skiptir miklu að Alþingi leggi sig fram um að fjalla um það með þeim hætti sem hér er lagt til og sem formaður utanrmn. hefur tekið eindregið undir, að kjósa til þess nefnd með þeim hætti sem tillaga þessi gerir ráð fyrir. Ég ítreka þakkir mínar til formanns utanrmn., til hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar.