EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:50:00 (5563)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér hafi verið flutt söguleg ræða og rétt sem sagt hefur verið m.a. af hv. 4. þm. Reykv. að í máli eins og þessu er nauðsynlegt að alþm. allir finni hjá sér þá skyldukvöð og ábyrgð að reyna að stuðla að sem víðtækastri, efnislegri samstöðu. Það eitt að Alþingi samþykkti sjálfstæða athugun á stjórnarskrárhlið þessa máls þar sem allir flokkar næðu saman um að ákveða þá athugun held ég að væri mikilvægur liður í að leiða menn saman í þessu efni. Það er rétt sem hv. 4. þm. Reykv. sagði áðan að menn eiga ekki að umgangast alvörumál af þessu tagi af neinum gantaskap eða stráksskap heldur fara vandlega yfir hlutina. Þess vegna er óhjákvæmilegt að beina þeirri áskorun til hæstv. utanrrh. að hann taki undir það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að sú nefnd sem hér er gerð tillaga um verði kosin og ákveðin með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir. Því eins og utanrrh. skilur er það tortryggilegt, því miður, að hann skipi nefnd eftir að stór hluti Alþingis hefur lagt til að önnur nefnd verði skipuð. Málið hefur þá það yfirbragð að utanrrh. sé að reyna að taka málið frá Alþingi af því að hann treystir því ekki og vill að aðrir fjalli um málið á hans eigin forsendum. Ef utanrrh. vill á annað borð að farið verði með þetta mál á eðlilegan og sanngjarnan hátt gagnvart þjóðinni allri er mjög mikilvægt að hann fallist á að sú nefnd verði skipuð sem hér er gerð tillaga um.