EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:52:00 (5564)



     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni orða hv. 4. þm. Reykv., formanns utanrmn., vil ég taka fram eftirfarandi:
    Setning fangamarks samningamanna á texta EES-samningsins hefur þá merkingu að samningsgerð er lokið. Þeir staðfesta þar með að hér sé kominn texti þess samnings sem báðir aðilar eru ásáttir um. Það hefur enga þjóðréttarlega merkingu. Í því felst ekki þjóðréttarleg skuldbinding eins og ég hef margrætt um við hv. formann utanrmn. og reyndar

í utanrmn. Til þjóðréttarlegrar skuldbindingar er ekki stofnað fyrr en ráðherrar þeirra 19 aðildarríkja hafa undirritað þennan samning og þá er það að sjálfsögðu með fyrirvara um samþykki þjóðþinga og Evrópubandalagsþings. Þetta er öllum hv. þm. væntanlega ljóst.
    Til frekari áréttingar er kannski rétt að taka það fram að þann 14. febr. undirrituðu aðalsamningamenn þann texta sem þá lá fyrir sem einnig táknaði að samningum væri þar með lokið. Ef ekki hefði komið til ein minni háttar formbreyting nú á seinustu stundu eftir seinni álitsgerð Evrópubandalagsdómstólsins þá hefðu samningamenn ekki þurft að setja fangamark sitt á þennan texta. Þjóðréttarleg skuldbinding er engin fyrr en utanrrh. aðildarríkjanna hafa undirritað samninginn og þá er hún skilyrt með samþykki þjóðþinga.