EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:54:00 (5565)


     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þörfin á því að hæstv. utanrrh. sendi þetta skeyti sem ég var að tala um er meiri nú en áður en hann tók til máls. Ef það var svo að 14. febr. hafi þetta allt saman verið klappað og klárt og þess vegna ekki þurft að setja stafi aftur hefðum við líklega ekki farið að ræða neitt saman aftur. Það hefur ekkert verið ákveðið í þessu máli allan þann tíma sem ég hef verið að mótmæla þessum fullyrðingum um að einhver samningur væri kominn á og enn er sagt að það hafi bara verið eitthvað smávægilegt sem þyrfti að snurfusa, þetta væri allt saman klappað og klárt.
    Það er ekki vilji Íslendinga að það sé allt klappað og klárt. Þess vegna þarf ráðherrann að segja hver mergurinn málsins sé og ég er alltaf að lýsa því.
    Erfitt hefur verið að fá að vita hvað þessir stafir merktu á hverju stigi. Þess vegna þarf að gera það ljóst að skoðun hans og okkar allra er að stafirnir þýði ekki neitt annað en að viðræðum sé lokið en ekki að komið væri samkomulag. Það er fráleitt. Enginn hér inni vill skrifa undir það að komið sé á samkomulag án þess að við höfum fengið að skoða það. Utanrmn. hefur haft síðasta skjalið í um einn sólarhring eða svo. Vel getur verið að einhvers staðar finnist einhver svo gáfaður maður að hann geti áttað sig á þessu. Ég er viss um að enginn hér inni er svo gáfaður, alla vega ekki ég, að geta áttað sig á að það sé hættulaust að skrifa undir þennan texta. Það einasta sem getur bjargað þessum málum og heiðri allra hér inni er að þetta verði sagt nú, ef ekki er búið að skrifa undir. Stafirnir þýða ekkert annað en að umræðum sé lokið af hálfu samningamanna og þá taka stjórnvöld og Alþingi við. Þetta kostar tvær krónur eða svo og ég skal borga þær.