EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:06:00 (5568)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. beindi þeirri spurningu til mín hver afstaða mín væri til þeirrar till. sem hér liggur fyrir. Svar mitt er þetta: Ég er sammála því að við eigum að leita þeirra leiða sem best duga til þess að taka af öll tvímæli um hvort þessi mikli samningur um Evrópska efnahagssvæðið brjóti með nokkrum hætti í bága við íslensku stjórnarskrána. Um þetta held ég að við eigum öll að vera sammála. Þetta eigum við að gera með því að leita til þeirra manna sem að bestu manna yfirsýn eru sérfróðir um það. Í okkar tiltölulega fámenna þjóðfélagi hljóta það fyrst og fremst að vera þeir menn sem gegna embætti prófessors við Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti og forveri hans reyndar einnig, dómari í Hæstarétti sem vegna fyrri afskipta af svipuðum málum er sérfróður um Evrópurétt. Það væri einnig prófessor í réttarfari sem er sérfróður um Evrópurétt sem og væri æskilegt að þar væri viðurkenndur fulltrúi stjórnkerfisins að því er varðar lagahefðir okkar og framkvæmdir stjórnsýslu.
    Ég hygg að það sé hafið yfir allan vafa að þegar leitað er til slíkra manna eru þeir embættisheiðurs síns og sérfræðinafnbótar vegna á engan hátt háðir þeim sem nefnir til, þ.e. framkvæmdarvaldinu. Þetta eru þeir aðilar í þjóðfélaginu sem eru sérfróðir, hafa þekkinguna og hægt er að treysta til þess að hafa það eitt uppi í þessum málum sem samrýmist fræðimannlegum heiðri þeirra. Hér er ekki verið að tilnefna fulltrúa framkvæmdarvaldsins til þess að tala máli stjórnvalda. Um það hygg ég að allir hljóti að verða sammála. Ég hygg þess vegna að sú leið sem hér er stungið upp á sé ráðlegri og betri til þess að kveða niður slíkar efasemdir fremur en að tilnefna fulltrúa félaga, sérstaklega þegar það er rökstutt með þeim hætti sem hér er gert, að haga tilnefningu þannig að hugsanlega ólík viðhorf geti komið fram. Hér er um að ræða faglegt mat en ekki pólitískan vettvang.