EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:22:00 (5572)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. um að kannað verði hvort EES-samningurinn sé í samræmi við íslenska stjórnskipun. Það hlýtur að vera hlutverk okkar alþingismanna að kanna þetta til þrautar og fjalla um það eins og skylda okkar er að kanna um sérhver lög sem sett eru á Alþingi hvort þau brjóti í bága við stjórnarskrána eða ekki. Hin sama skylda hvílir á okkur þegar um er að ræða jafnviðamikinn alþjóðlegan samning og við stöndum frammi fyrir. Í máli manna hefur ekki komið fram neinn ágreiningur um nauðsyn þess að þetta sé rækilega kannað og menn komist að niðurstöðu um það hvernig þessari hlið málsins er háttað.
    Hins vegar er deilan um það hvort Alþingi á að álykta um það að sett skuli á fót nefnd sex sérfróðra manna, nefnd sem verði þannig mynduð að það verði leitað eftir tilnefningu tveggja manna í nefndina frá hverjum eftirtalinna aðila: Dómarafélagi Íslands, lagadeild Háskóla Íslands og Lögmannafélagi Íslands eða hvort menn sætta sig við það sem hefur verið tilkynnt af hæstv. utanrrh. í dag, að hann hefur þegar komið á fót nefnd fjögurra manna til þess að fjalla einmitt um málið og einnig látið þess getið að þingflokkar eða einstakir þingmenn geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina og fengið þar upplýsingar sem þeir telja sig hafa þörf fyrir. Það er nákvæmlega það sama sem segir í niðurlagsorðum þessarar till. til þál. Síðan hefur hæstv. ráðherra sagt að hann hafi beðið nefndina um að skila áliti sínu fyrir júnílok en í till. stendur að nefndin eigi að skila áfangaáliti til Alþingis um athuganir sínar fyrir 15. maí og skýrslu um niðurstöður fyrir 1. júlí 1992, eða fyrir júnílok eins og segir. Spurningin er því ekki sú hvort eigi að kanna þetta. Hún er ekki um það hvort Alþingi eigi að ákveða hverjir kanni þetta heldur um það hvort utanrrh. og ríkisstjórnin geti tilnefnt menn í slíka nefnd eða hvort Dómarafélagið, lagadeildin og Lögmannafélagið eigi að tilnefna þá. Ég held nú að sem alþingismaður kjósi ég frekar að ríkisstjórnin og utanrrh. tilnefni menn í slíka nefnd og beri ábyrgð á því en stofnanir úti í bæ sem Alþingi hefur engan aðgang að og hefur ekki nokkur tök á að kalla hér fyrir og eiga orðastað við um jafnmikilvægt mál og þetta. Við höfum engin tök á því að ræða við stjórn Dómarafélagsins, forstöðumenn lagadeildar Háskóla Íslands eða Lögmannafélagsins um það hverja menn þeir tilnefndu í slíka nefnd. Án þess að ég ætli að

hrapa að neinni niðurstöðu í því efni þá held ég að mér dytti nú í hug að þessir aðilar kæmu einmitt fram með svipuð nöfn og hæstv. utanrrh. hefur hér nefnt og eru reiðubúnir til að taka þetta starf að sér. Mér sýnist því að hv. tillögumenn ættu að fagna því frumkvæði sem ráðherrann hefur tilkynnt hér í dag og taka því vel en vera ekki að agnúast út í hæstv. ráðherra fyrir að taka á þessu máli með þeim hætti sem gert hefur verið þar sem hefur verið sett niður nefnd sérfróðra manna til þess að kanna þetta atriði einmitt eins og þáltill. gerir ráð fyrir. Það er alls ekki hægt að segja sem svo að Alþingi ætli að ákveða hverjir verða í nefndinni heldur á það að vera samkvæmt tillögunni Dómarafélagið, lagadeildin og Lögmannafélagið. Ég skil ekki hvers vegna mönnum datt sérstaklega í hug Lögmannafélagið í þessu sambandi. Ég átta mig nú ekki á því hvers vegna þessir þrír aðilar eru taldir betur hæfir til þess að setja menn í þessa nefnd en hæstv. ríkisstjórn undir forustu utanrrh.
    Varðandi það sem hefur verið sagt um umboð ráðherra til þess að ganga frá samningnum þá kemur mér mjög á óvart að heyra stuðningsmenn fyrrv. ríkisstjórnar ræða nú þetta mál. Málið var rætt ítarlega á Alþingi haustið 1989. Sjálfstfl. var með tillögu um það að Alþingi samþykkti umboð fyrir samningamenn Íslands í þessu máli. Þeirri tillögu var hafnað af stuðningsmönnum þáv. ríkisstjórnar. Þeir töldu að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin ættu að hafa umboð til að gera þennan samning og ganga frá honum. Síðan standa þeir nú og láta eins og það sé eitthvert furðuverk að utanrrh. skuli hafa slíkt umboð. Þeir hefðu þá betur fallist á tillögu Sjálfstfl. í október 1989 og samþykkt að Alþingi veitti ríkisstjórninni og utanrrh. umboð í málinu en því var hafnað þá og síðan hefur utanrrh. staðið að þeirri samningagerð í ljósi þeirra ákvarðana sem núv. stjórnrandstæðingar en þáv. stuðningsmenn ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar tóku haustið 1989 í mjög hörðum deilum á hinu háa Alþingi.