EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:27:00 (5573)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var einkar athyglisverð ræða. Ég fylgdist með hv. 3. þm. Reykv. meðan hv. 4. þm. Reykv. talaði fyrr í dag og ég tók eftir því að hann var einkar glaðbeittur á svipinn og ánægður með framlag hans í þessum umræðum. Síðan kemur hann í ræðustólinn og veitist sérstaklega að hv. 4. þm. Reykv. með alveg einkar sérkennilegum hætti þegar um er að ræða tvo menn úr sama flokknum.
    Auðvitað er grundvallarmunur á því hvort Alþingi ákveður að setja niður nefnd eftir tilnefningum til að fjalla um svona mál annars vegar og svo hinu að utanrrh. velji menn í þessu skyni. Á því er reginmunur og hv. 3. þm. Reykv. verður að gera sér grein fyrir því að auðvitað lítur Alþingi það stórt á sig --- liggur mér við að segja --- að það á að hafa forustu í grundvallarmáli af þessu tagi. Ég tel ef hæstv. ríkisstjórn og Sjálfstfl. að einhverji leyti ætli að leggjast gegn þeirri till. sem hér er á dagskrá, þá bendi það til þess að menn óttist að þeir hafi óhreint mél í pokahorninu, þeir þori ekki að láta óháða aðila fara yfir málið. Ótti þeirra við að samþykkja tillögu af þessu tagi kemur því upp um þá og þann veruleika að þeir gera sér grein fyrir því að niðurstöður nefndar af þessu tagi gætu orðið svipaðar og niðurstöður fjölmargra lögfræðinga sem hafa gert grein fyrir sjónarmiðum sínum, t.d. í Svíþjóð núna síðustu dagana. En ræða hv. 3. þm. Reykv. var fróðleg, hún var eftirminnileg, virðulegi forseti.