EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:57:00 (5583)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vildi ég taka hv. þm. vara við því að leggja út orð hv. 4. þm. Austurl. á þann veg að hann hafi frá þeim tíðindum að segja að EES-samningurinn hafi þegar verið úrskurðaður á þann veg að hann brjóti í bága við sænsku stjórnarskrána. Hv. þm. las upp minnispunkta sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur afhent í utanrmn. sem er þeirra endursögn af frétt 9. apríl í sænsku blaði. Frá því er að segja að þetta mál hefur verið rætt ítarlega í Svíþjóð síðan og m.a. gat ég þess að ég hefði falið sendiherra okkar í Stokkhólmi að afla rækilegra upplýsinga um það mál og að sjálfsögðu höfum við haft samband við sænsk stjórnvöld. Þar skiptir meginmáli að lagaumboðsmaður sænska þingsins segir í endursögn sendiherrans:
    ,,Málið er afgreitt af minni hálfu og hann viti ekki betur en ráðherrann hafi tekið mark á ofangreindum athugasemdum og telji ólíklegt að krafist verði breytinga á stjórnarskrá.``
    Í annan stað vara ég eindregið við því að menn geri úlfalda úr mýflugu í leit að ágreiningsmálum. Umræðan hefur leitt það í ljós og hafið er yfir allan vafa að menn vilja taka af öll tvímæli um hvort þessi samningur samræmist íslensku stjórnarskránni. Á því leikur enginn vafi, um það eru allir sammála. Tvær leiðir eru færar í því efni samkvæmt því sem fyrir liggur. Önnur er sú að leita til stjórna tveggja félaga sem í bland eru stéttarfélög og lagadeildar Háskólans. Hin er sú tillaga sem fyrir liggur og ég hef tilkynnt að leita til þeirra manna sem gerst þekkja þetta mál. Það mun oft hafa verið kveðið svo að orði í fornu máli að fela þeim mönnum að ráða málinu til lykta að bestu manna yfirsýn. Ég held að þeir menn sem ég nefndi hér áðan séu óumdeilanlega þeir sem Alþingi Íslendinga geti treyst fyrir sérfræðiþekkingu og fyrir því að fjalla um málið með gersamlega óhlutdrægum hætti. Það gengur ekki að segja: Við viljum fá menn sem eru óháðir pólitísku flokkunum. Ráðherrar, ríkisstjórn þorir ekki að leita til einhverra annarra manna. Með öðrum orðum er gefið í skyn að þessir menn séu handbendi ríkisstjórnar. Það gengur ekki, því trúir enginn. Menn meina það ekki vegna þess að ég tel, án þess að ég vilji gera mönnum upp skoðanir, að sjálfsögðu líklegast að lagadeild Háskólans mundi benda á þá menn innan lagadeildarinnar sem sérfróðastir eru um þessi mál. Það kæmi í sama stað niður að Dómarafélagið sem veit að það getur ekki leitað til dómara nema í sérstökum tilvikum mundi gera það líka. Hitt er svo annað mál að ég hef mínar efasemdir um að Lögmannafélagið sem slíkt sé rétti aðilinn til þess. Það skyldi þó ekki fara svo að menn séu að deila um hvernig leita eigi til manna en niðurstaðan yrði sú að leitað yrði til þeirra manna sem við öll teljum að hefðu besta yfirsýn yfir þetta mál. (Gripið fram í.) Það er ekki málið.