Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 18:04:00 (5588)

     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem ég flyt ásamt hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að því á grundvelli laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að viðkomandi sveitarfélög taki við rekstri dagvistarstofnana fyrir börn sem nú eru reknar af sjúkrahúsum á kostnað ríkissjóðs.``
    Í grg. sem fylgir till. segir m.a.:
    ,,Lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga tóku gildi 1. janúar árið 1990. Fyrir þann tíma greiddi ríkið 50% af byggingarkostnaði dagvistarheimila og sveitarfélögin greiddu hin 50% og sáu svo um reksturinn. Með nýjum lögum er sveitarfélögum gert að sjá um stofnkostnað og rekstrarkostnað með þeirri undantekningu þó að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kemur fámennustu sveitarfélögunum til aðstoðar með framlögum.
    Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn er ég lagði fram á hinu háa Alþingi um rekstur dagvistarheimila fyrir börn á vegum sjúkrahúsanna í Reykjavík kemur m.a. eftirfarandi fram:
    ,,Á árinu 1990 greiddu Ríkisspítalar 115 millj. kr. fyrir vistun á dagheimilum og 7,9 millj. kr. fyrir vistun hjá dagmæðrum. Borgarspítali greiddi 68,7 millj. kr. fyrir vistun á dagheimilum og 1,2 millj. kr. fyrir vistun hjá dagmæðrum. Ríkisspítalar reka átta leikskóla og skóladagheimili með samtals 250 rými í Reykjavík. Borgarspítali rekur þrjá leikskóla og eitt skóladagheimili eða 130 rými og Landakotsspítali rekur þrjú dagvistarheimili með 85 rými. Heildarkostnaður Landakotsspítala af rekstri dagvistunarstarfsemi er 33,3 millj. kr. Börnin sem vistar njóta eru nokkru fleiri en plássin segja til um og helgast þetta af því að sum börnin mæta þrjá daga í viku og önnur fjóra eða fimm daga eftir því hversu mikið foreldrið vinnur á spítalanum. Landspítali og Landakotsspítali hafa borgað að fullu stofnkostnað dagvistarheimila sinna en Borgarspítali hefur ekki tekið þátt í stofnkostnaði dagvistarheimila spítalans. Reykjavíkurborg hefur greitt að fullu stofnkostnað heimilanna fyrir Borgarspítalann en ekki tekið þátt í öðrum stofnkostnaði dagvistarheimila spítala í Reykjavík og tekur engan þátt í rekstarkostnaði. Sjúkrahúsin í Reykjavík hafa farið út í rekstur dagvistarstofnana fyrir börn til þess að laða að það starfsfólk sem er torfengið, einkum hjúkrunarfræðinga, og miðað við fjölda starfsmanna á þessum spítölum er fjöldi dagvistarrýma lítill. Sjúkrahúsin mundu ekki reka dagvistarheimili ef nægilegt framboð væri á dagvistarrými í Reykjavík fyrir börn.```` --- Hér var tekið niður í svar hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn um rekstur dagvistarstofnana fyrir börn í Reykjavík.
    ,,Af þessum upplýsingum má ljóst vera að ríkissjóður tekur mikinn þátt í rekstri dagvistarstofnana á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem gildi tóku 1. janúar árið 1990, er hér um að ræða að minnsta kosti 230 millj. kr. rekstrarkostnað á ári fyrir ríkissjóð`` --- ef miðað er við rekstrarkostnað fyrir árið 1990 og áætlað er að þessi tala sé að minnsta kosti komin upp í 250 millj. kr. kostnað á yfirstandandi ári, ef tekið er heilt ár. --- ,,Hér sitja sveitarfélög í landinu ekki við sama borð gagnvart lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á meðan sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu sjá um svo umfangsmikinn dagheimilarekstur með framlögum úr ríkissjóði.``
    Virðulegi forseti. Hér er um byggðamál að ræða. Við erum að fjalla um sérréttindi nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem felast í því að ríkissjóður greiðir rekstrarkostnað dagvistarstofnana og stofnkostnað fyrir starfsfólk sjúkrahúsanna í Reykjavík með beinum framlögum.
    Ef við lítum á lögin sem tóku gildi 1. jan. 1990, er skýrt tekið fram þar hvernig að þessum málum skuli staðið. Þar segir í 2. gr. laganna um rekstur dagvistarheimila fyrir börn:
    ,,Bygging og rekstur dagvistarheimila er í verkahring sveitarfélaga.``
    Í 3. gr. laganna segir:
    ,,Sveitarstjórn getur veitt aðilum sem reka vilja dagvistarheimili í samræmi við markmið þessara laga styrki til byggingar og reksturs eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætun sveitarstjórnar. Áður en framkvæmdir hefjast skal ganga frá samningi milli sveitarstjórnar og félags um styrk og skilyrði varðandi rekstur heimilisins.``
    Mér er ekki kunnugt um að slíkur samningur sé í gildi á milli sjúkrahúsanna og t.d. Reykjavíkurborgar og mér er heldur ekki kunnugt um að slíkur samningur sé í gildi um rekstur dagvistunarstofnana fyrir börn á milli sjúkrahúsanna og ríkissjóðs. Ég tel mjög brýnt að sú nefnd sem fær þetta mál til skoðunar athugi lagagildi og heimildir sjúkrahúsanna og þar með ríkissjóðs til þess að taka þátt í þessari starfsemi og skoði sérstaklega í því sambandi lögin um rekstur dagvistunarheimila fyrir börn.
    Ég vil taka skýrt fram að ekki er verið að vega að því starfsfólki sem starfar á sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu, þvert á móti. Réttur hvers og eins á að vera sá að koma börnum sínum til dagvistunar ef sá óskar. Hitt er ljóst og það kemur glögglega fram í þeim upplýsingum sem fyrir liggja að Reykjavíkurborg hefur staðið sig mjög illa í því að fullnægja dagvistunarþörfinni í borginni. Það hefur m.a. orðið til þess að Ríkisspítalarnir hafa ekki treyst sér til að reka starfsemi sína og laða starfsfólk til nauðsynlegra starfa á sjúkrahúsunum öðruvísi en að bjóða upp á þessa þjónustu. Með öðrum orðum er ríkissjóður misnotaður til þess að fara fram hjá gildandi lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Mér verður hugsað til litlu byggðarlaganna á landsbyggðinni sem setja það að fullnægja dagvistunarþörfinni í fyrsta sæti. Þau setja það á forgangslista að fullnægja því að öll börn sem óska eftir dagvistun komist þar að til þess að foreldrarnir geti tekið þátt í atvinnulífinu. Ég held að gott sé að hugsa til þess að atvinnulífið á landsbyggðinni sem byggist á sjávarútvegi fengi ekki þrifist öðruvísi en að sveitarfélögin settu þetta mál í forgangsröð. Ekki það að byggja ráðhús úti í tjörn heldur það að fullnægja eftirspurn dagvistunarþarfar fyrir börn.
    Virðulegi forseti. Einnig er rétt að beina augum okkar að þeirri fjárfestingar- og rekstrarstefnu sem ríkisvaldið hefur haldið fram, jafnvel síðustu tvo áratugi. Það er staðreynd að samkeppni fer fram um vinnuafl í ákveðnum skilningi í landinu. Ríkisvaldið hefur sóað fjármunum á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu, í rekstur og við það að þenja út stofnanir sínar. Ríkistryggð störf hafa verið talin eftirsóknarverðari og borgað betur en störf á landsbyggðinni í hefðbundnum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Fyrst og fremst hafa ríkisstörfin á suðvesturhorni landsins sogað landsbyggðarfólkið til sín

og valdið þeim aðstöðumun og byggðaröskun sem við hefur blasað mörg undanfarin ár en þeirri þróun verður að snúa við. Hér er verið að stíga skref í þá átt með þessari till. til þál. að reyna að snúa þeirri þróun við og efla landsbyggðina með því að draga úr framlögum, sem standast ekki lög, til rekstrar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga að sjá um eins og öll sveitarfélög gera í landinu. Einnig má velta upp þeirri spurningu ef það hefur viðgengist á einu kjörtímabili að greiddur hefur verið einn milljarður króna á núvirði úr ríkissjóði fyrir þessa starfsemi, sem á sannarlega að vera á vegum Reykjavíkurborgar, hvort það kynni að vera um aðrar slíkar holur að ræða í ríkisfjármálunum og þarf þá að fara að skerpa skilin annars vegar á milli reksturs sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar reksturs ríkissjóðs. Kann að vera að skilin á milli ríkissjóðs og t.d. Reykjavíkurborgar séu víða svo óglögg tæpast sé hægt að greina í millum?
    Við stöndum frammi fyrir því að skera niður framlög til heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að skref sem við ættum að huga að að stíga sé að láta sveitarfélögin taka við þeirri þjónustu og því starfi sem þeim ber samkvæmt lögum frá Alþingi. Það ætti í raun að vera fyrsta skref sem ætti að stíga.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til félmn.