Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 18:16:00 (5589)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir ekki löngu komust sveitarfélögin í landinu og ríkisvaldið að ákveðinni niðurstöðu um verkaskiptingu þessara aðila. Meðal þess sem þá var ákveðið var að sú breyting yrði gerð á stofnkostnaði og rekstri dagvistunarstofnana í landinu að þær yrðu alfarið á vegum sveitarfélaganna. Með þessum lögum, sem þarna voru samþykkt, var sveitarfélögunum tryggð ákveðin fjármögnun til þess að standa undir þessum rekstri og undir þessum stofnkostnaði, enda var það talið að vel væri þá séð fyrir þörfum sveitarfélaganna eftir að þessi uppskipti höfðu farið fram. Þess vegna kemur það nokkuð á óvart þegar það er upplýst, og fram kemur m.a. í þessari þáltill. sem ég er annar meðflutningsmaður að, að svo er málum háttað að í stærsta og öflugasta sveitarfélagi landsins er rekstur hluta dagvistunarstofnana ekki fjármagnaður af sveitarfélaginu eins og ráð er fyrir gert í nýlega samþykktum lögum, heldur er sá háttur hafður á að ein af stofnunum ríkisins, Ríkisspítalarnir, er látin standa undir rekstrinum.
    Ég geri mér mætavel grein fyrir því að þessu er þannig varið vegna þess að menn hafa komist að því að til þess að hægt sé að ráða starfsfólk til starfa á sjúkrastofnunum í þessu sveitarfélagi og sums staðar annars staðar, hefur þurft að greiða fyrir það með sérstökum hlunnindum. Hlunnindum af því taginu að útvega dagvistunarpláss fyrir börn þessa starfsfólks í því skyni að auðvelda því að hefja þar störf.
    Út af fyrir sig geri ég ekki athugasemdir við það þó að menn taki þá ákvörðun að greiða fyrir því að hægt sé að ráða fólk til starfa við einhverja tiltekna atvinnustarfsemi og gera það með þeim hætti að borga í hlunnindum af því tagi sem hér er verið að gera. Það sem er hins vegar óeðlilegt við þetta mál er sú staðreynd að það er ekki sá aðili sem er gert ráð fyrir að greiði þessi hlunnindi í lögum sem stendur straum af þessum kostnaði, heldur einhver allt annar aðili, í þessu tilviki ríkisvaldið. Það eru nýsamþykkt lög um þetta mál og það hefur verið gert ráð fyrir því að eftir þeim lögum væri unnið uns annað er samþykkt og þess vegna vekur þetta allmikla furðu.
    Þetta er þeim mun sérkennilegra sé það skoðað í öðru ljósi, í ljósi þess hvernig sveitarfélögin úti á landi hafa orðið að bregðast við.
    Eins og allir vita hefur verið ríkjandi alvarlegur kennaraskortur víðs vegar um landsbyggðina. Sá sem hér stendur stóð í því í ein átta ár og átta sumur að reyna að ráða kennara til starfa við lítinn grunnskóla úti á landi. Til þess að það reyndist mögulegt varð þetta sveitarfélag, þessi skóli, eins og flest önnur sveitarfélög utan landnáms Ingólfs Arnarsonar, að taka upp þá hætti að greiða fyrir ráðningu kennaranna með því að borga sérstaka hlunnindastyrki í því skyni að laða fólk til starfa. Nýlega hefur verið gerð sérstök hlunnindakönnun í grunnskólum á Vestfjörðum sem leiðir sitthvað athyglisvert í ljós. Hún leiðir það m.a. í ljós að í litlum skóla, sem hér er tekið dæmi af, er aðkomufólki borgaður sérstakur flutningsstyrkur upp á 25 þús. kr. í því skyni að auðvelda ráðningu kennara til starfa. Það er líka um það að ræða að sérstök húsnæðishlunnindi eru greidd til þess að auðvelda ráðningu þessa fólks til starfa sem svarar til 96 þús. kr. á hvern einasta kennara sem kemur til starfa við þennan skóla.
    Hver er það sem á að borga samkvæmt lögum laun til kennara? Það er ríkið. Hver er það sem borgar húsnæðishlunnindin og önnur þessi hlunnindi til þess að þetta fólk fáist til starfa úti á landi? Það eru sveitarfélögin. Með öðrum orðum, hér er allt með öðrum róm, í þessu tilviki eru það hin litlu, fámennu og fátæku sveitarfélög sem skattleggja sjálf sig, skattleggja þegna sína alveg sérstaklega, til þess að geta keppt um og fengið kennara til starfa svo hægt sé að halda uppi þeirri eðlilegu lágmarksþjónustu sem er uppfræðsla barna og unglinga á skyldunámsstigi.
    Ég er dreg þetta fram vegna þess að þetta er auðvitað alveg þveröfugt við það sem hefur tíðkast við suma af Ríkisspítölunum þar sem ríkið hefur verið að greiða fyrir þjónustu sem sveitarfélaginu er ætlað að standa straum af, en í þessum tilvikum, í öllum þessum skólum úti um land þá er það sveitarfélagið sem greiðir það sem ríkinu ber til þess að geta staðið straum af því sem öllum finnst eðlilegt, að uppfræða börn og unglinga í landinu á skyldunámsstigi.
    Ég tel að þessi staðreynd sé með þeim hætti að það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera það sem hér er lagt til í þessari till. til þál. að ríkisstjórninni sé falið að vinna að því á grundvelli laga við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að viðkomandi sveitarfélög taki við rekstri dagvistunarstofnana fyrir börn sem nú eru reknar af sjúkrahúsum á kostnað ríkissjóðs. Ég er alls ekki að gera lítið úr þeirri þörf sem er á dagvistunarrými fyrir starfsfólk sjúkrahúsanna nema síður sé. Ég held að það blasi við að þessi þörf er til staðar og ég er ekkert að gera lítið úr því að e.t.v. sé nauðsynlegt að til þess að hægt sé að fá starfsfólk til vinnu við þessi störf þurfi að greiða fyrir því með einhverjum hætti, t.d. með dagvistunarhlunnindum af þessu tagi.
    Það sem hins vegar er óeðlilegt við þetta mál er sú staðreynd að sá sem stendur straum af þessum kostnaði er ríkið en ætti að vera sveitarfélagið.
    Ég hef hér rakið dæmi um hlunnindagreiðslur sem hafa viðgengist varðandi grunnskólana. Ef við tækjum upp þessa fyrirmynd þá er það auðvitað alveg ljóst að þau sveitarfélög sem hýsa viðkomandi sjúkrastofnanir og teldu það nauðsynlegt til þess að hægt væri að halda uppi þeirri starfsemi sem þar fer fram eiga að greiða fyrir því með því að auðvelda þessu starfsfólki sérstaklega að fá dagvistunarpláss fyrir börnin sín. Það er ekki ríkið sem á að gera það. Það liggur alveg klárlega fyrir í lögum. Það eru sveitarfélögin og þess vegna er mjög eðlilegt að þess sé óskað að teknar séu upp viðræður við þessi sveitarfélög að þau komi til skjalanna þar sem þeim ber.
    Ég vek sérstaka athygli á því að ekki er verið að leggja til neinn þjösnaskap, hér er ekki verið að leggja það til að ríkið komi og taki þá ákvörðun, einn, tveir og þrír, einhliða ákvörðun að hætta nú þegar að starfrækja þessar dagvistunarstofnanir. Hér er verið að leggja það til að taka upp viðræður og eiga um það samstarf við sveitarfélögin að þetta gerist.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þessi tillaga fái eðlilega og góða meðferð í þeirri nefnd sem tekur hana til umfjöllunar og vænti þess að hún fái þinglega meðferð á þessu þingi.