Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 18:44:00 (5594)



     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þessi till. til þál. hefur fengið í umræðum á Alþingi. Ég vil taka það skýrt fram að hér er ekki verið að leggja til að loka dagvistunarstofnunum fyrir börn sem reknar eru af sjúkrahúsunum í Reykjavík og nágrenni. Hér er verið að leggja til að þeir sem samkvæmt lögum eiga að reka og borga reksturinn af dvalarheimilum fyrir börn geri það, þ.e. sveitarfélögin. Sú regla gildir um þessi efni samkvæmt lögum og sveitarfélög hafa tekið mark á úti um allt land, en Reykjavík og nokkur nágrannasveitarfélög virðast njóta sérkjara, njóta sérstakra forréttinda er nema . . .  (Gripið fram í.) Með stuðningi Alþb. líka á sl. einu og hálfu ári, hv. þm. Kristinn Gunnarsson. Það sem verið er að ræða er að þessi sérstuðningur, þessi forréttindi, þessi sérréttindi nema 250 millj. kr. á ári. Við sem búum á landsbyggðinni erum búin að sitja lengi undir því að stundum sé fjármunum sóað úr ríkissjóði út á land. En nú er mál að linni þegar við stöndum frammi fyrir því að Reykjavíkurborg sem er einn efnaðasti sveitarsjóður landsins er ekki fær um að standa undir dagvistunarstarfsemi í borginni sinni. Ekki borgunarmaður fyrir því. Ríkissjóður þarf að greiða þessa starfsemi niður er nemur 250 millj. kr. á ári. Þetta eru miklir peningar. Alla vega eru þeir mjög miklir ef þeim yrði varið út á land, þó það væri ekki nema til atvinnuuppbyggingar á einhverju sviði. Eins og ég gat um í framsögu minni fyrir þessu máli, leggja sveitarfélögin á landsbyggðinni sig fram um að bjarga nú atvinnurekstri í sjávarútvegi með framlögum úr sveitarsjóðum sínum og að standa undir að fullnægja dagvistunarþörf til þess að hægt sé að manna húsin þegar vinnu er að fá.
    Já, ólíku er saman að jafna. Aðstæðum annars vegar í Reykjavík og á landsbyggðinni hvað þetta svið varðar. Það verður að segjast eins og er og er ég viss um að mörgum sveitarfélögum þætti kærkomið að geta sent reikning fyrir dagvistunarstarfsemi er nemur nokkrum milljónum á ári í ríkissjóð og fá það greitt umyrðalaust.
    Hér þarf að jafna aðstöðumun, hér þarf að eyða misvægi sem hefur skapast og ég vil enn og aftur ítreka að þetta er einn þátturinn í byggðaröskuninni sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Þetta er einn þátturinn og eitt dæmið um það hvernig ríkissjóður með stefnumótun sinni hefur orsakað þá búseturöskun sem blasir við og hefur blasað við mörg undanfarin ár. Með fjárfestingarstefnu sinni, með rekstrarstefnu sinni og m.a. með því hvernig ríkissjóður hefur varið fjármunum sínum til uppbyggingar í atvinnuskyni hér í Reykjavík.
    Mér þykir trúlegt að eitt öflugasta atvinnuátakið sem fram hefur farið í Reykjavík á undanförnum tveimur áratugum sé á vegum ríkisvaldsins. Ríkisvaldið hefur þanið sig út um 50% á einum áratug, ef við tökum tillit til starfsmannafjölda, sjö af hverjum tíu störfum hafa orðið til í Reykjavík, þrjú úti á landsbyggðinni. Og svo segja menn að þetta hafi ekki áhrif á byggðaþróun, búsetuþróun og að stefnumótun ríkisvaldsins um það hvar ríkisvaldið fjárfestir, hvar það byggir upp stofnanir sínar, þenur sig út, hafi ekki áhrif á byggðaþróun í landinu. Það er akkúrat það sem skiptir kannski öllum úrslitum um það hvar byggðin blómgast og hvar fólkið sest að. Hér er e.t.v. verið að tala um lítið dæmi er nemur bara 250 millj. kr. á ári, en þó ekki minna en það að á þessu ári þá verjum við 180 millj. kr. til Byggðastofnunar á fjárlögum. Þær eru nú ekki fleiri milljónirnar, 180 millj., meðan við erum að styrkja dagheimilarekstur á Reykjavíkursvæðinu um 250 millj. Hafa þó margir haft stór orð um það að sú stofnun hafi kostað margar milljónir og ausið hafi verið mörgum milljónum í þá stofnun á undanförnum árum. En nú kemur í ljós að niðurgreiðslur ríkissjóðs á dagvistunarstarfsemi sem Reykjavíkurborg á að borga nemur hærri

upphæð. Þá höfum við kannski stærðir til þess að bera saman.
    Herra forseti. Ég tel fullt tilefni til að fjárhagsskilin á milli Reykjavíkurborgar annars vegar og ríkissjóðs hins vegar verði athuguð sérstaklega í sambandi við þetta mál og hvort það kynni að vera víða sem Reykjavíkurborg nyti forréttindaaðstöðu gagnvart ríkissjóði, ekki einvörðungu hvað framlög snertir, heldur hvað varðar alla almenna aðstöðu, vegna nábýlis við valdið, vegna nábýlis við ríkisstofnanirnar. Það vakti t.d. athygli mína að sveitarstjóri stærsta sveitarfélags á Íslandi, borgarstjórinn í Reykjavík, þurfti ekki að eiga viðræður við fjárln. Alþingis við undirbúning fjárlagafrv. sl. haust og fram að áramótum. Á meðan við í fjárln. tókum á móti velflestum fulltrúum hreppsnefnda og bæjarstjórna af landsbyggðinni þá þurfti borgarstjórinn í Reykjavík ekki að tala við fjárln. Alþingis varðandi undirbúning að fjárlagafrv. Skal svo hver og einn fletta því og sjá hvílíkra hagsmuna Reykjavíkurborg þarf að gæta hvað varðar samskiptin við ríkisvaldið. En borgastjórn Reykjavíkur þarf ekki að ræða það við fjárln. og mér var spurn og mér er spurn, spurði þá og spyr enn og aftur: Á hvers konar sérmála er borgarstjórnarvaldið í Reykjavík að það þurfi ekki að eiga eðlilegar viðræður og eðlileg samskipti við hið háa Alþingi þegar um svo mikilvæg mál er að ræða sem raun ber vitni? Eða eru þessar ferðir og þessi samtöl og þessar viðræður sem fjárln. á við sveitarstjórnir vítt og breitt um landið allt meira og minna gagnslaust? Telja sveitarstjórnarmenn það yfir höfuð gagnslaust að eiga viðræður við fjárln. við undirbúning fjárlagagerðarinnar? Það er ekki að sjá. En borgarstjórnarvaldið í Reykjavík þarf ekki á þessum viðræðum að halda og þá spyr maður sig hvort enn og aftur njóti borgin sérkjara, forréttinda, aðstöðumunar, fram yfir önnur sveitarfélög í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka þær undirtektir sem þessi þáltill. okkar hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hefur fengið og ég óska eftir því að till. hljóti þinglega meðferð og nákvæma skoðun í nefndinni og leiði til þess að lögum verði fram fylgt.