Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 18:54:00 (5595)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir meginefni þessarar till., tel sjálfsagt mál að þingmenn búi svo um hnútana í lagagerð sinni að öðrum lögum sé framfylgt, m.a. lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Vissulega rétt að benda á þar sem misfellur eru að þessu leyti, eins og hv. 5. þm. Austurl. gerði fyrr í vetur með fsp. um þessi mál þar sem efnisatriði þessarar till. voru í raun dregin fram. Hins vegar get ég ekki annað en vakið athygli á þeirri leið sem flm. fara til þess að reyna að fá úr bætt. Leiðin er sú að koma með málið hingað inn í formi þál. og leggja þar til að fela ríkisstjórninni að vinna að því að viðkomandi sveitarfélög beri hvert sína bagga eða svo að hismið sé tekið utan af þessum umbúðum og Reykjavíkurborg borgi það sem henni ber. Ég er alveg sammála þessari hugsun en ég tel að auðvitað eigi menn í störfum sínum á þingi að fylgja lögum.
    Ég vek athygli á því að flutningsmennirnir tveir eru báðir í fjárln. Hvernig skyldi fjárln. hafa gengið frá tillögum sínum um skiptingu fjár til heilbrigðismála? Ef menn skoða þær tillögur kemur í ljós að í þeim tillögum er gert ráð fyrir því að ríkið haldi áfram að greiða þennan kostnað, þannig að það má segja að flutningsmenn séu komnir í mótsögn við sjálfa sig. (Gripið fram í.) Það er verra fyrir málið, virðulegi þingmaður Össur Skarphéðinsson, um hitt ætla ég ekki að leggja mat á hvort það hefði verið verra fyrir þá. Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna þingmennirnir fara þá þessa leið. Niðurstaðan getur ekki verið önnur en sú að þeir hafi reynt að fá ríkisstjórnarflokkana til að framfylgja lögum en orðið undir. Að það sé meirihlutavilji í báðum þingflokkum ríkisstjórnarinnar að viðhalda kerfinu þannig að þeir sjá enga aðra leið en að færa málið í búning þingskjals og leita eftir stuðningi stjórnarandstöðunnar til þess að fá meiri hlutann í sínum flokkum til að hlíta lögum. Þetta er sú niðurstaða sem ég kemst að. ( ÖS: Hún er góð.) Hún er afar slæm, virðulegur þingmaður, en ég hygg hún sé nokkuð nærri lagi að vera rétt af því að ég held að báðir flm. séu samkvæmir sjálfum sér að því leyti að þeir hafi byrjað á að reyna að vinna málum fylgi innan sinna flokka.
    Það vekur athygli að þeir tveir ráðherrar sem ráða kannski hvað mestu um framvindu þessa máls eru hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. Það er greinilegt að báðir þessir ráðherrar hafa snúist gegn efni þessa frv. ( Gripið fram í: Gleymdu ekki heilbrrh.) Ég ætla nú heilbrrh. hæstv. að vera sammála flm. (Gripið fram í.) Ég tel óhjákvæmilegt að draga þetta fram þannig að mönnum sé ljóst í hvaða stöðu málið er. Málið er í þeirri stöðu, virðulegi forseti, að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem er ekki fáanleg til að breyta þessum hlutum. Eða svo ég orði það dálítið öðruvísi og nær þeim hætti sem hv. 5. þm. Austurl. vék að í ræðu sinni, að ríkisstjórnin er landsbyggðarfjandsamleg. Þetta liggur ljóst á borðinu þegar menn hafa íhugað málið dálítið. Ég ítreka það að ég vil leggja flm. málsins lið í að berja niður Reykjavíkurvaldið í þessum tveimur flokkum. Ég hef ekki heyrt annað á þeim ræðumönnum sem hafa tekið til máls um þetta mál en að þeir séu tilbúnir að leggja þeim lið í þessu.
    En að lokum, virðulegi forseti, þessi upphæð sem ríkissjóður er að spara Reykjavíkurborg til þess að hún geti í dag haldið dýrlega veislu til að fagna dýru húsi er samkvæmt því sem fram kom hjá 1. flm. um 250 millj. kr. á ári. Það er tæplega 50% hærri upphæð en nemur öllum niðurskurði í grunnskólum landsins á þessu ári. Fyrir þessa upphæð hefði verið hægt að hafa óskertar fjárveitingar til grunnskóla landsins í eitt og hálft ár. (Gripið fram í.) Svo við nefnum nú það ekki, virðulegur þingmaður, það er út af fyrir sig annað mál en að mörgu leyti þarft að draga það fram. Þetta vildi ég leggja inn í þessa umræðu, virðulegi forseti, og veit að hann er mér sammála um að hér er um þörf atriði að ræða.